fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Grunaður um að stinga sektargreiðslum í vasann

Reyndum lögreglumanni vikið tímabundið úr starfi – „Allt eins sárasaklaust og hægt er“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 24. maí 2016 07:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lögreglumanni við embætti Lögreglunnar á Norðurlandi vestra á Sauðárkróki hefur verið vikið tímabundið úr starfi en rannsókn er hafin á því hvort hann hafi stungið sektargreiðslum fyrir umferðarlagabrot í vasann. Rannsóknin hófst í byrjun maí eftir að erlendur ferðamaður sendi lögreglunni kvittun fyrir greiðslu hraðasektar, sem hann hafði borgað með reiðufé, sem fannst ekki skráð hjá embættinu. Lögreglumaðurinn segist fullviss um að rannsóknin eigi eftir að sanna sakleysi hans enda sé um einföld mistök að ræða.

„Það er ekki hægt að neita því að lögreglumaður hér er til rannsóknar en við erum ekki með neina niðurstöðu í málinu og þess vegna er ekki ástæða til að segja að neitt sé sannað í þessu. Rannsókn er að hefjast og það er rétt að viðkomandi starfsmanni hefur, eins og það heitir á lagamáli, verið vikið úr starfi um stundarsakir,“ segir Páll Björnsson, lögreglustjóri á Sauðárkróki, í samtali við DV.

Það eru afar litlar fjárhæðir sem koma þessari rannsókn af stað en það er verið að kanna og rannsaka verklag hjá manni hér og það gæti auðvitað verið um umtalsverðar upphæðir að ræða.

Sýndi kvittun

Samkvæmt upplýsingum DV er umræddur lögreglumaður með áratugareynslu í starfi. Heimildir blaðsins herma að málið, sem er nú á borði embættis héraðssaksóknara, hafi komið upp eftir að hraðamyndavélar í Hvalfjarðargöngum náðu myndum af hraðakstri erlends ferðamanns. Maðurinn hafi í kjölfarið mótmælt sektinni og sagt lögreglunni að hann hefði einungis einu sinni verið stöðvaður fyrir umferðarlagabrot hér á landi. Þá hafi hann verið í öðrum landshluta og greitt sektina á staðnum. Ferðamaðurinn hafi í kjölfarið sýnt kvittun, undirritaða af umræddum lögreglumanni, fyrir greiðslunni innan umdæmis Lögreglunnar á Norðurlandi vestra. Hafi þá komið í ljós að engin gögn um umrætt atvik voru til hjá embættinu.

„Það eru afar litlar fjárhæðir sem koma þessari rannsókn af stað en það er verið að kanna og rannsaka verklag hjá manni hér og það gæti auðvitað verið um umtalsverðar upphæðir að ræða. Eina upphæðin sem við höfum séð, og gaf tilefni til að fara af stað með þessa skoðun, er mjög lág upphæð. Ég geri ekki ráð fyrir að niðurstaða í þessu komi fyrr en í haust. Það er tafsamt að kanna þetta,“ segir Páll, sem vildi að öðru leyti ekki tjá sig um rannsóknina. Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari vildi ekki veita viðtal þegar DV náði tali af honum.

„Aulaskapur“

„Það er ekkert að útskýra. Ég fór í frí og svo til útlanda og átti eftir að skila þessu af mér og ganga frá þessu. Í framhaldinu er verið að skoða hvernig þetta er hjá mér en ég er búinn að vera lengi í þessu [starfi lögreglumanns] og þetta er allt eins sárasaklaust og hægt er. Það tókst ekki að fá rétta upphæð og þess vegna náði ég ekki að skila þessu í samræmi við skýrsluna sem ég kláraði skilmerkilega. Ég get ekki ímyndað mér að það verði neitt mál úr þessu, það væri alveg með ólíkindum ef svo væri. Ég er búinn með um 1.500 hraðaskýrslur og þetta er bara aulaskapur að hafa ekki græjað þetta áður en ég fór utan,“ segir lögreglumaðurinn, sem vikið hefur verið tímabundið úr starfi, í samtali við DV.

„Ég fagna því að þetta verði skoðað og vil að þetta verði skoðað einhver ár aftur í tímann. Ég er algjörlega pollrólegur yfir því og ég vona að það verði farið ítarlega í gegnum þetta. Þetta er dapurt að geta ekki verið við störf og ég er hundfúll með það. Það hefði verið hægt að loka þessu máli og treysta á gamla manninn en þeir ákváðu þetta. Þetta er í rannsókn og það er eðlilegt að rannsaka hvort það sé eitthvað meira.“

Peningarnir voru í brjóstvasanum og fóru meira að segja í þvottavélina.

Lögreglumaðurinn segist aldrei taka við reiðufé þegar um hraðasektir sé að ræða. Langflestir ökumenn borgi sektir sínar með greiðslukortum. Umræddur ferðamaður hafi aftur á móti ekki haft annað með sér en peningaseðla og því hafi hann gert undantekningu.

„Þetta var það eina sem hann hafði, ég tek við þessum peningum, og síðan; bíddu hvað á ég að gera við þetta? Peningarnir voru í brjóstvasanum og fóru meira að segja í þvottavélina. […] Ég hefði viljað að mínir samstarfsmenn næðu að átta sig á mínum sjónarmiðum og heiðarleika, sem er til staðar, heldur betur. Ég fór utan í hálfan mánuð og var í fimm daga fríi áður en ég fór og þetta voru ákveðin mistök hjá mér að ná ekki réttri upphæð.“

Fyrrverandi lögreglumaður á Austurlandi var í nóvember í fyrra dæmdur fyrir að hafa meðal annars stungið sektargreiðslum í vasann.
Dæmdur Fyrrverandi lögreglumaður á Austurlandi var í nóvember í fyrra dæmdur fyrir að hafa meðal annars stungið sektargreiðslum í vasann.

Mynd: Eyþór Árnason

Dæmdur í fangelsi

Fyrrverandi lögreglumaður á Austurlandi, Stefán Pedro Cabrera, var í nóvember í fyrra dæmdur í öðru máli í tíu mánaða fangelsi fyrir fjársvik, fjárdrátt og rangar sakargiftir. Brotin áttu sér stað árin 2013 og 2014 en Stefán var meðal annars ákærður fyrir að sekta erlenda ferðamenn fyrir hraðakstur í tilfellum þar sem engin umferðarlög voru brotin. Peningunum stakk hann svo í eigin vasa. Rannsókn málsins var afar tímafrek en hafa þurfti uppi á erlendum ferðamönnum sem stöðvaðir voru af Stefáni. Grunur um brotin vaknaði eftir ábendingu frá ferðamanni sem hafði staðgreitt sekt til lögreglumannsins fyrrverandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“