fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Vafasamir leyndardómar Guðna Guðnasonar

Rekur alþjóðlegan galdraskóla – Skáldar gráður og viðurkenningar – Kvikmynd með David Hasselhoff mögulega í farvatninu

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 20. maí 2016 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Alþjóðlegur dulspekiskóli í fjölmörgum löndum sem rakar inn fé, framleiðsla á Hollywood-mynd með David Hasselhoff í aðalhlutverki, þúsundir fylgismanna um allan heim og útgáfa tónlistar og bóka. Þannig er líf Guðna Halldórs Guðnasonar, eiganda og stofnanda The Modern Mystery School, þar sem nemendur greiða háar fjárhæðir fyrir margs konar námskeið sem tengjast hvers kyns fornri dulspeki og nýaldarfræðum. Guðni býr og starfar aðallega í Japan en hans eigin frásagnir af lífshlaupi sínu eru ævintýralegar í meira lagi. Hann hefur verið sakaður um að skreyta sig með stolnum fjöðrum og í breskri doktorsritgerð frá árinu 2010 var því haldið fram að starfsemi Guðna jaðraði við píramídasvindl.

Kærður til lögreglu

Guðni Halldór Guðnason er fæddur árið 1958. Hann komst fyrst í fréttirnar hérlendis upp úr 1990 þegar hann kom sem stormsveipur inn í samfélag bardagalistamanna á Íslandi en þá hafði hann dvalið um nokkurra ára skeið í Svíþjóð. Ástæða fjölmiðlaumfjöllunarinnar var sú að Guðni hafði skipulagt mót í blönduðum bardagaíþróttum þar sem meðal annars ung börn voru látin berjast án viðeigandi hlífðarbúnaðar. Hafði hann þá boðið upp á námskeið sem hét „Turtle Kung Fu“ sem naut talsverðra vinsælda enda vísaði námskeiðið í kvikmyndina „Teenage Mutant Ninja Turtles“ sem slegið hafði í gegn hérlendis á sama tíma. Málið vakti athygli eftir að sýnt var myndskeið í sjónvarpsfréttum þar sem barnungir þátttakendur létu höggin dynja á hver öðrum. Guðni var ákærður fyrir aðild sína að málinu en var sýknaður þar sem ekki þótti sannað að um mót í hnefaleikum hefði verið að ræða. Guðni var hins vegar sakfelldur fyrir vörslu á loftbyssu, án tilskildra leyfa, og fékk eins árs skilorðsbundinn dóm.

Upploginn ferill

Í ljósi lögreglurannsóknarinnar gerði dagblaðið Pressan úttekt á ferli og fullyrðingum Guðna. Greinin, sem blaðamaðurinn Sigurður Már Jónsson, núverandi upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, skrifaði bar yfirskriftina „Skammtar sjálfum sér feril og gráður í eigin söfnuði“ en eins og titillinn gefur til kynna kom fram að allar þær gráður og titlar sem Guðni státaði af, hvort sem var í bardagalistum eða háskólanámi, reyndust ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum.

Dagblaðið var ekkert að skafa af hlutunum í umfjöllun sinni um Guðna.
Pressan Dagblaðið var ekkert að skafa af hlutunum í umfjöllun sinni um Guðna.

Átök um kimewasa

Í greininni kom meðal annars fram að Guðni auglýsti námskeið í kimewasa sem að hans sögn var um 1.600 ára gömul bardagalist. Það var aðeins um 1.585 árum frá sannleikanum því fimmtán árum áður höfðu tvíburabræðurnir Hörður og Haukur Harðarsynir búið til kimewasa-kerfið og hlotið talsverða athygli fyrir. Guðni heillaðist af íþróttinni og setti sig í samband við bræðurna og vildi læra af þeim. Það gerði hann vissulega í stuttan tíma en var ekki nálægt því að komast á það stig að geta kennt greinina þegar hann byrjaði að auglýsa námskeið. Þeir bræður voru afar ósáttir við framgöngu Guðna sem hafði engan grunn til þess að kenna kerfið sem þeir höfðu skapað. Eftir aðfinnslur þeirra lét Guðni af því að halda námskeiðið.

„Guðni var bara kjáni“

Þá stofnaði Guðni stöð í Ármúla sem hann nefndi Colomb þar sem hann kenndi fjölmargar bardagalistir sem hann kvaðst fullnuma í. Meðal annars sagðist Guðni vera með 10. dan, hæstu gráðu, í bardagaíþróttinni fujukado sem átti að vera hans eigin uppfinning. Í áðurnefndri grein Sigurðar er viðruð sú skoðun íslenskra bardagalistamanna að Fujukado væri hugarburður Guðna sem hann hafði soðið saman úr kung fu, júdó og karate. Þá er tekið fram að í viðtali við DV á þessum árum neitaði Guðni því ekki heldur sagðist hann blanda saman bardagalist og hugrækt og að hann hefði „búið til kokteilblöndu úr öllu því besta í þeim bardagastílum sem hann hafði verið að æfa“, svo notað séu orð Guðna. Einn af þeim sem man eftir ferli Guðna á þessum árum er Haraldur Dean Nelson, faðir Gunnars MMA-kappa: „Guðni var bara kjáni sem kunni ekkert í bardagalistum. Hann bjó hins vegar yfir miklum sannfæringarkrafti og virtist eiga auðvelt með að ná til þeirra sem áttu, af einhverjum ástæðum, undir högg að sækja,“ segir Haraldur.

Haraldur minnist Guðna sem kjána sem kunni lítið fyrir sér í bardagalistum þrátt fyrir fullyrðingar um annað.
Haraldur Dean Nelson Haraldur minnist Guðna sem kjána sem kunni lítið fyrir sér í bardagalistum þrátt fyrir fullyrðingar um annað.

Tilraun til þjálfunar lífvarða

Í greininni er einnig minnst á áætlun Guðna um að halda lífvarðanámskeið hérlendis sem vakti verulega athygli á sínum tíma. Námskeiðið var rándýrt og ætlaði Guðni að kenna mörg athyglisverð námskeið sjálfur, meðal annars glæfraakstur, meðferð sprengiefna og meðferð skotvopna. Sagðist hann ætla að byggja á eigin reynslu en í útvarpsviðtali við Guðna í tilefni af námskeiðinu kom fram að hann hafði starfað um fjögurra ára skeið sem lífvörður í Svíþjóð. Hann vildi hins vegar ekki veita fjölmiðlum upplýsingar um hjá hverjum hann hafði starfað né hvar. Sigurður Már grennslaðist fyrir um þennan feril og komst að orði: „Þeir sem gleggst þekkja feril Guðna í Svíþjóð segja að þetta sé bull.“

Eftirgrennslan Sigurðar leiddi í ljós að Guðni rak í stuttan tíma æfingastöð með Peter Olming og er haft eftir Peter að Guðni hafi logið hann fullan með sögum um að hann hefði unnið sem lífvörður á Íslandi og rekið lífvarðaskóla þar. „Það er mín reynsla að ekki sé hægt að trúa orði af því sem hann segir,“ sagði Peter þessi við Pressuna en klykkt var út með að einu afskipti Guðna af „lífvarðarstörfum“, eftir því sem best var vitað, var að hann fór í viðtal vegna öryggisgæslu hjá Saab-verksmiðjunum. Guðni varð að lokum að hætta við lífvarðanámskeiðið sitt og bar fyrir sig aðstöðu- og tímaleysi. Þessi draumur Guðna um frama í þjálfun lífvarða virðist hins vegar ekki hafa dáið út því í ágúst 2001 virðist hann hafa stofnað fyrirtækið The Edge Body Guard and SWAT services í Utah en engum sögum fer af starfsemi fyrirtækisins.

Guðni hefur gefið út tónlist í gegnum tíðina, aðallega raftónlist, meðal annars plötuna Voight Kampff. Mögulega hefur hann fengið innblástur fyrir tónlist í krafti vináttu sinnar við David heitinn Bowie, en að sögn Guðna voru þeir miklir vinir á námsárum Guðna í Englandi. Meðal annars hélt hann glæsilega tónleika í minningu Bowie í Tókíó á árinu,
Tónlistarmaður Guðni hefur gefið út tónlist í gegnum tíðina, aðallega raftónlist, meðal annars plötuna Voight Kampff. Mögulega hefur hann fengið innblástur fyrir tónlist í krafti vináttu sinnar við David heitinn Bowie, en að sögn Guðna voru þeir miklir vinir á námsárum Guðna í Englandi. Meðal annars hélt hann glæsilega tónleika í minningu Bowie í Tókíó á árinu,

„Ég er að gera rétt“

Í ljósi neikvæðrar umfjöllunar fór svo að Guðni skrifaði innblásna grein í Morgunblaðið, þann 18. janúar 1994, undir yfirskriftinni „Ég er að gera rétt“ þar sem hann í stuttu máli hafnaði öllum ásökunum og sagði að um samsæri íslenskra bardagalistamanna væri að ræða sem vildu halda einokun sinni á kennslu hérlendis. „Að lokum vil ég segja að samstaða bardagalistamanna á Íslandi er fyrir neðan allar hellur. Samstöðuleysi stafar af öfund og þröngsýni og hræðslu við samkeppni eða kannski hræðslu við að þessi litli heimur þeirra verður sprengdur upp af einhverju nýju og skemmtilegu, einhverju sem bardagalistaaðilar á Íslandi hafa áhuga á,” skrifaði Guðni.

Fræði byggð á 3.000 ára grunni

Ári síðar flutti Guðni af landi brott, nánar tiltekið til Utah í Bandaríkjunum. Á þessum árum skildi hann við sænska eiginkonu sína en í vesturheimi kynntist hann annarri eiginkonu sinni, Eleanor „Laurie” Gudnason, sem var farsæl í viðskiptum og á kafi í margs konar nýaldarfræðum. Þau stofnuðu saman „Leyndardómaskóla Klettafjalla” sem er slæm þýðing á Rocky Mountain Mystery School. Í skólanum var boðið upp á ótrúlegan fjölda af mismunandi námskeiðum, gyðinga- og kristið kabbalah, musterisriddaranámskeið, áruheilun, tantra-fræði, tarot-lestur auk þess sem nefna má námskeið í dreka-, vampíru-, víkinga- og egyptagaldri. Ekki má gleyma dýragaldri né heldur námskeiðinu „12 kynþættir“ en þar er hægt að fræðast um þá tólf kynþætti sem fyrirfinnast á jörðinni. Fyrir utan mannfólkið þá eru það vampírur, álfar, hafmeyjur og sígaunar svo eitthvað sé nefnt.

Í rauninni má segja að varla sé til sá angi af nýaldar- eða dulspekifræðum sem skóli Guðna og Laurie hafi ekki snert á með einhverjum hætti. Námskeiðin voru yfirleittt kennd af Guðna sjálfum eða Laurie og saman ferðuðust þau síðan um öll Bandaríkin og út fyrir landsteinana til þess að boða fagnaðarerindið. Skólinn stærir sig af því að vera eini skóli sinnar tegundar sem að miðli þekkingu sem er komin beint frá Sólomon konungi og sé allt að þrjú þúsund ára gömul. Þá er því meðal annars haldið fram að sjálfur Jesús Kristur hafi verið handhafi „þekkingarinnar“. Hún hafi síðan ferðast manna á milli í töluðu máli allt þar til að þáverandi handhafi þekkingarinnar, óskilgreindur amerískur indjánahöfðingi, hafi hitt Guðna á tilteknum stað þar sem þeir föðmuðust og þar með hafði Guðni öðlast hina dýrmætu „þekkingu“. Þessa sögu segir Sondra Shanye, fyrrverandi einlægur fylgismaður Guðna, í samtali við New York Press árið 2001. Einnig sagði hún þá sögu, sem Guðni sjálfur vísar óspart í, að hann hafi fæðst sem tvíburi og að bróðir hans hafi verið svo háþróuð vera að hann hafi yfirgefið þennan heim eftir aðeins 30 mínútur. Það hafi gert það að verkum að Guðni hafi fengið hæfileikann til þess að sjá inn í aðrar víddir, handan þess heims sem við þekkjum. Þannig hafi Guðni getað verið í sambandi við bróður sinn, alist upp með honum auk þess sem bróðir hans hafi komið honum í samband við fjölmarga látna meistara, meðal annars sjálfan Merlín, sem gátu kennt honum eitt og annað.

Shanye hefur sagt skilið við Guðna og hans fylgismenn síðan og hún svaraði ekki fyrirspurn DV um viðtal.

Lygilegt ævihlaup

Á gamalli heimasíðu Rocky Mountain Mystery School má lesa um sögu Guðna. Hún er reyfarakennd í meira lagi og í líkingu við þær sögur af Guðna sem á undan eru gengnar. Ef satt er þá hefur Guðni ekki setið auðum höndum í gegnum árin en fullyrðingar hans passa illa við þau ár sem hann dvaldi í Svíþjóð og Íslandi. Í nærmyndinni af Guðna kemur fram að hann hafi kennt Kabbalah síðan 1976, þá átján ára gamall, eftir að hafa verið undir handleiðslu ísraelsks rabbía en síðar hafi hann numið í fjölmörg ár hjá Reglu hinnar gullnu dögunar (e. Order of the Golden Dawn). Þá segist hann vera vígður prestur í fjölmörgum trúarbrögðum, meðal annars sé hann prestur egypsku gyðjunnar Isis og drúídaprestur. Í kynningunni segist Guðni einnig státa af doktorsgráðu í heimspeki sem og háskólagráðu í sálfræði. Hann hafi verið útnefndur listamaður ársins í Svíþjóð sem og ljóðskáld ársins og viðskiptamaður ársins. Þá hafi hann fengið alþjóðleg friðarverðlaun fyrir starf sitt í þágu mannkyns frá United Cultural World Society. Einnig sé hann fjórfaldur Evrópumeistari í karate auk þess hann telur upp þær fjölmörgu gráður og belti sem hann státar af í úrvali bardagaíþrótta.

Þess má geta að DV hafði samband við Reglu hinnar gullnu dögunar í gegnum tölvupóst og var óskað eftir upplýsingum um hvort Guðni hefði numið fræði reglunnar. Skriflegt svar barst nokkru síðar þar sem fulltrúi reglunnar sagði að enginn innan hennar kannaðist við Guðna Guðnason. Skýringin kom fram nokkru síðar þegar blaðamaður horfði á viðtal við Guðna á youtube en þar tekur hann fram að hann hafi numið við leynilega reglu hinnar gullnu dögunar en ekki þá opinberu.

Í frekari upptalningu um afrek Guðna kemur fram að hann sé sérfræðingur í meðhöndlun fjörutíu mismunandi bardagavopna og hafi þjálfað öryggis- og hryðjuverkahópa lögreglu um allan heim. Þá hafi hann einnig haldið námskeið fyrir lífverði hins heilagleika Dalai Lama. Guðni segir einnig frá þeirri staðreynd að hann hafi starfað sem áhættuleikari, meðal annars í mynd Hrafns Gunnlaugssonar, Hrafninn flýgur. Þá segist hann hafa verið atvinnumaður í nútímadansi og haldið sýningar um alla Evrópu í ellefu ár. Einnig sé hann afar fær málari, bæði með olíu- og vatnslitum. Þá má ekki gleyma því að hann er líka myndhöggvari sem og þekktur rithöfundur en eftir hann liggi ritverk sem gefin hafi verið út í fjölmörgum löndum.

Hann fullyrðir að í fórum hans séu fjórir Evrópumeistaratitlar í karate. Engar heimildir eru til um þá sigra.
Guðni Guðnason Hann fullyrðir að í fórum hans séu fjórir Evrópumeistaratitlar í karate. Engar heimildir eru til um þá sigra.

Á annarri síðu, í tilefni af fyrirlestri á alþjóðlegri ráðstefnu alkemista árið 2008, er Guðni kynntur til leiks sem Dr. Barón Gudni Gudnason von Thorrodsen. Þar er svipuð afreksskrá útlistuð en að auki segir þar að Guðni hafi lært í leynilegum skóla í Salzburg í Austurríki, numið kristilegt Kabbalah í skóla í Bern og alkemískt Kabbalah í skóla í Madrid. Þá hafi hann lært stjörnufræði í Kaíró í Egyptalandi, alkemísk seiðmannafræði nærri Alexandríu sem og tantra í sérstökum skóla í Kongó. Þá hafi hann fundið sér tíma til þess að læra dulspeki við skóla í Rúmeníu og Svíþjóð en einnig viðað að sér óskilgreindri þekkingu í fornum fræðum í Tíbet, Indlandi og Japan. Þetta er aðeins toppurinn á ísjakanum af þeim meintu námskeiðum og titlum sem Guðni hefur að eigin sögn viðað að sér í gegnum árin.

Skilnaður og nýr skóli

Laurie og Guðni ráku RMMS-skólann í rúman áratug allt þar til að leiðir þeirra skildu og Guðni tók saman við fyrrverandi nemanda sinn, hina japönsku Eiko, sem nú ber einnig eftirnafn hans. Þau stofnuðu nýjan skóla á grunni hins fyrri sem ber heitið The Modern Mystery School. Þrátt fyrir fullyrðingar Guðna um að skólinn sé starfræktur í 48 löndum þá er greinilegt á námskeiðadagatali skólans að starfsemi hans fer aðallega fram í Japan, þar sem Guðni og Eiko búa nú um stundir, og Kanada en þar virðast öflugir samstarfsmenn Guðna reka starfsemina áfram. Hins vegar virðast einnig vera haldin námskeið í Bandaríkjunum, Bretlandi, Suður-Afríku og Brasilíu.

Tekinn fyrir í doktorsritgerð

Í september árið 2010 skilaði Ioannis Gaitanidis doktorsritgerð sinni sem hann vann að við Háskólann í Leeds. Í lauslegri þýðingu ber ritgerðin yfirskriftina: „Andleg viðskipti? Gagnrýnin úttekt á öldu andlegra meðferða í Japan nútímans“ (e. Spiritual Business? A Critical Analysis of the Spiritual Therapy Phenomenon in Contemporary Japan). Þar fjallar doktorsneminn meðal annars um uppgang Rocky Mountain Mystery School í Japan, skóla Guðna, og hvernig viðskiptamódel skólans er. Að sögn Gaitanidis var umræddur skóli sá stærsti í Japan af sinni tegund og mögulega í heiminum. Útibúin í Japan voru tvö, í Tókíó og Osaka, en einnig væru starfrækt 11 útibú í öðrum löndum, m.a. Bandaríkjunum, Kanada, Bretlandi, Svíþjóð og Suður-Afríku. Japan væri hins vegar miðstöð starfseminnar sem helgaðist einmitt af því að Guðni hefði skilið við eiginkonu sína, Laurie, og gifst nemanda sínum, hinni japönsku Eiko, sem komið hafði af krafti inn í starfið.

Merki um píramídasvindl

Doktorsritgerð Gaitanidis var byggð á ítarlegum viðtölum við einstaklinga sem voru á kafi í hinum andlega heimi í Japan, þar á meðal átta einstaklinga sem sótt höfðu námskeið í skóla Guðna og fram kemur að mikil vinna hafi verið lögð í að rannsaka fullyrðingar viðmælenda. Hann segir þó að erfitt hafi verið að fá upplýsingar hjá nemendum Guðna því að þeir vantreystu aðila sem hafði ekki verið innvígður af skólanum. Í ritgerðinni kemur kemur fram að helgisamkomur og fyrirlestrar sem Guðni héldi væru tilkomumiklar í meira lagi og um árabil hefði hann verið fyrirlesari á árlegum samkomum gullgerðarmanna. Doktorsneminn fjallar síðan um starfsemi skólans sem hann segir að beri ýmis merki um píramídasvindl.

Vefur námskeiða

Þannig rekur Gaitanidis hvernig hver nemandi skólans þarf að undirgangast tveggja daga námskeið þar sem heimsmynd skólans væri útskýrð. Verðið á slíku námskeiði væri um 60 þúsund krónur. Í framhaldi af því væru fjölmörg námskeið í boði og væru nemendur ákaft hvattir til þess að sækja sér aukna þekkingu og helst gerast kennarar sjálfir með réttindi frá Rocky Mountain School of Mystery. Kennarar þyrftu hins vegar reglulega að mæta á endurmenntunarnámskeið í höfuðstöðvum skólans auk þess sem hlutdeild af gjaldi hvers nemanda, sem slíkir kennarar tækju að sér, rynni til eiganda skólans. Ljóst er að tekjur Guðna af þessu fyrirkomulagi hafa verið allnokkrar því samkvæmt opinberum tölum RMMS-skólans í byrjun árs 2008 höfðu 4.412 Japanir undirgengist byrjendanámskeið og 80 kennarar höfðu atvinnu sína af því að kenna fræðin um allt Japan. Þá er ótilgreindur sá fjöldi nemenda og kennara sem starfaði utan Japans.

Virkjaði DNA-ið

Dr. Gaitanidis undirgekkst sjálfur þrjár meðferðir hjá fyrrverandi nemendum úr skóla Guðna. Eitt þeirra bar heitið „DNA-virkjun“ (e. DNA Activation) og er að sögn Gaitanidis vinsælasta námskeiðið sem nemendur Guðna og hann sjálfur bjóða upp á. Námskeiðið er sagt virkja 22 af 24 þráðum í DNA. Samkvæmt vísindunum er DNA-kjarnasýra sem er mynduð úr tveimur þráðum línulegra fjölliða af deoxýríbókirnum en í nýaldarkreðsunum er því hins vegar haldið fram að þræðirnir séu margfalt fleiri. Gaitanidis lýsir því hvernig kona í eins konar magadansaraklæðum kemur og rótar í hárinu á honum og gerir ýmiss konar handahreyfingar yfir höfði hans með miklum tilþrifum. Síðan tekur hún sér stöðu fyrir aftan hann og nuddar niður hrygg hans í um það bil 10 mínútur. Síðan úðaðii hún ilmvatni yfir hann og leyfði honum að yfirgefa salarkynnin. Að auki fór hann í meðferðir í „vampíruheilun“ og „einstakri rósaheilun“, sem að öll tóku svipaðan tíma. Fyrir tvær fyrstu meðferðirnar borgaði Gaitanidis rúmlega 3.000 krónur en tæplega 6.000 krónur fyrir hið síðasta þar sem rándýrt rósailmvatn var brúkað við heilunina.

Telur að vinsældirnar hafi minnkað

DV hafði samband við dr. Gaitanidis, sem er prófessor við Chiba-háskóla í Japan. Hann kvaðst lítið hafa fylgst með starfsemi Guðna síðan árið 2010 þegar hann lauk ritgerð sinni. „Varðandi viðskiptamódel skólans þá notuðu margir viðmælenda minna orðið píramídasvindl um starfsemina. Þessir aðilar höfðu tekið þátt í starfi skólans og höfðu reynslu af öðrum slíkum skólum í Japan. Það er hins vegar rétt að taka það fram að vinsældir slíkra skóla virðast vera að minnka hratt en ákveðið andlegt æði gekk yfir Japan fyrir nokkrum árum, sem má rekja til mikillar fjölmiðlaumfjöllunar. Síðan þá hefur umfjöllun um þessi mál minnkað og ég er nokkuð viss um að skóli Guðna, The Modern Mystery School, njóti ekki sömu vinsælda og áður. Það má líka rekja til þess að fleiri skólar hafa tekið tekið til starfa,“ segir Gaitanidis.

30 milljónir fyrir nokkurra daga námskeið

Hvort færri nemendur sæki The Modern Mystery School nú en á árum áður skal ósagt látið en ljóst er að skólinn er að skila eigendum sínum góðum tekjum. Á dögunum lauk í Tókíó í Japan námskeiði sem bar yfirskriftina „The Healers Academy“ og sóttu námskeiðið um 120 einstaklingar. Sé miðað við verðlista á heimasíðu The Modern Mystery School fyrir sambærilegt námskeið í Kanada, sem hefst 13. maí, þá kosta sætin á bilinu 250–300 þúsund krónur. Ef við gefum okkur að sama verð sé á námskeiðinu í Japan má reikna með að hið fimm daga námskeið hafi skilað tekjum upp á rúmlega 30 milljónir króna. Þá ber að geta þess að enginn getur komið inn af götunni og skráð sig í „Healers Academy“. Viðkomandi þarf að vera vígður inn í skólann og hafa tekið þátt í fjölmörgum öðrum námskeiðum sem öll kosta sitt. Vefurinn er æði flókinn en ljóst er að fjárfesting þeirra sem taka þátt hleypur á milljónum. Allt er þetta gert til þess að öðlast réttindi frá skólanum til þess að bjóða upp á stuttar meðferðir, til dæmis eru einstaklingar að sækjast eftir réttindum frá skóla Guðna til þess að bjóða upp á ýmsar heilunarmeðferðir gegn gjaldi, eins og dr. Gaitanidis lýsti í ritgerð sinni. Markmið nemenda er að hafa atvinnu sína af slíkri starfsemi og ná þar með upp í fjárfestingu sína.

Á dögunum lauk fimm daga heilaranámskeiði fyrir einstaklinga sem þrá að starfa við heilun. Reikna má með að hver og einn þátttakandi hafi greitt að lágmarki um 250.000 fyrir námskeiðið auk þess sem nemendur hafa fjárfest í fjölmörgum námskeiðum fram að þessu. Guðni situr fyrir miðju hópsins.
Heilaraskóli Á dögunum lauk fimm daga heilaranámskeiði fyrir einstaklinga sem þrá að starfa við heilun. Reikna má með að hver og einn þátttakandi hafi greitt að lágmarki um 250.000 fyrir námskeiðið auk þess sem nemendur hafa fjárfest í fjölmörgum námskeiðum fram að þessu. Guðni situr fyrir miðju hópsins.

Starfið afar umdeilt

Það er óhætt að fullyrða að starfsemi Guðna og fylgjenda hans sé umdeild. Aðeins þarf að leita að nafni hans og skólans til þess að fá upp fjölmarga þræði þar sem gagnrýnendur rífa starfsemina í sig. Einn slíkur aðili er Travis Bodick frá Seattle sem sótti námskeið hjá Rocky Mountain Mystery School: „Ég sótti námskeið hjá skólanum um langt skeið og get ekki mælt með því við nokkurn mann. Ég eyddi stórfé og rak mig alltaf á fleiri leyndarmál. Kennarar predika í sífellu að heimurinn sé að breytast og peningar séu kerfi sem er að verða úrelt en fyrir það rukka þeir stórfé. Starfsemi skólans snýst ekki um að bæta sjálfan þig eða heiminn, heldur að læra hvernig eigi að rukka annað fólk fyrir að miðla þekkingunni,“ segir Travis, sem segist hafa lent í fjárhagsvandræðum út af því að kennarar pressuðu hann sífellt til þess að taka fleiri og dýrari námskeið. Þá hafi hann verið hvattur til þess að taka lán ef hann sagðist ekki eiga fyrir tilteknu námskeiði. Einnig rekur Travis hvernig meirihluti þeirra sem sæki skólann eigi félagslega erfitt uppdráttar og séu einmana sálir sem séu auðveld skotmörk.

Það skal hins vegar tekið fram að á sömu síðum stíga iðulega fram nafnlausir einstaklingar sem verja starfsemi skólans og telja sig og aðra hafa fengið mikið út úr náminu sem þar fer fram. Þá er bent á að verðskrá skólans sé yfirleitt mjög aðgengileg og ekki sé hægt að áfellast skólann fyrir að bjóða upp á námskeið sem fullorðið fólk er tilbúið að greiða fyrir.

Umsvifamikil viðskipti

Þá er þess ógetið að Guðni hefur reynt að hasla sér völl á markaði fyrir ýmiss konar heilsuvörur. Á síðunni OfficeGudnason selur hann vörur frá Alkemistanum og Gullsteini sem framleiddar eru á Íslandi. Guðni hafði háar hugmyndir um starfsemi hérlendis en fyrirtæki í hans eigu, Ísland, hvar er þín fornaldarfrægð ehf., fékk úthlutað lóð við Langavatn í Reykhólasveit þar sem ætlunin var að byggja upp verksmiðju sem myndi vinna heilsuvörur úr þörungum. Jón Árni Sigurðsson, eigandi Gullsteins ehf., staðfestir í samtali við DV að Guðni hafi lagt 6 milljónir króna í að hjálpa honum með uppbyggingu lítillar verksmiðju fyrir vörur Gullsteins. Frekari fjárfestingar eru hins vegar óráðnar og verkefnið hefur legið í dvala um nokkurt skeið.

Þá herma heimildir DV að hvers konar vörusala sé stór hluti af starfsemi Modern Mystery School, hvort sem um sé að ræða alls kyns vörur til að nota við heilunarmeðferðir en einnig sérmerkta einkenningsbúninga sem merktir eru sem „stríðsmenn ljóssins“.

Rétt er að geta þess að Guðni Guðnason svaraði ekki fyrirspurnum DV um viðtal í gegnum Facebook-síðu sína.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Hartman í Val
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Flassari fyrir dóm – Sakaður um að hafa sýnt af sér ósiðlegt og lostugt athæfi

Flassari fyrir dóm – Sakaður um að hafa sýnt af sér ósiðlegt og lostugt athæfi
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Ofbeldismenn herja á starfsfólk Héraðssaksóknara

Ofbeldismenn herja á starfsfólk Héraðssaksóknara
Fréttir
Í gær

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“
Fréttir
Í gær

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“