fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Fréttir

Lífeyrissjóðirnir ósáttir við fjárfestingarfjötra

Gagnrýna frumvarp sem á að takmarka heimildir þeirra til fjárfestinga – Vilja hækka úr 15% í 25%

Ritstjórn DV
Föstudaginn 20. maí 2016 20:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landssamtök lífeyrissjóða (LL) gagnrýna frumvarp sem á að takmarka heimildir þeirra til fjárfestinga við 15% í hverju félagi. Telja þau frumvarpið leiða til þess að erfiðara verði að fjármagna verkefni eins og stærri innviðafjárfestingar. Slík þróun eigi eftir að draga úr umsvifum í hagkerfinu til lengri tíma sem og hagvexti og lífskjörum. Forstjóri verðbréfafyrirtækisins Virðingar tekur undir þetta og segir mikilvægt að frumvarpinu verði breytt.

„Þetta er óheppilegt fyrir margra hluta sakir og getur hreinlega komið í veg fyrir fjárfestingar á ýmsum sviðum. Sér í lagi núna þegar lífeyrissjóðum er að fækka með sameiningum,“ segir Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar, í samtali við DV.

Vilja hækka í 25%

Samkvæmt stjórnarfrumvarpi um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða á að koma í veg fyrir að lífeyrissjóður eigi meira en 15% í hverju hlutafélagi. Einnig er í frumvarpinu tekin af tvímæli um að rýmri mörk til fjárfestinga í samlagshlutafélögum, sem voru hækkuð úr 15% í 20% á árunum 2009 til 2015, til að liðka fyrir aðkomu sjóðanna að fjármögnun fjárfestingarfélaga, verði framlengd. Landssamtök lífeyrissjóða gagnrýna þessar ákvarðanir í umsögn þeirra sem efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis barst síðastliðinn þriðjudag. Í henni er bent á að rýmri mörk hafi stuðlað að fjármögnun ýmissa félaga sem styðja við nýsköpun og sprotastarfsemi sem og lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

„Að mati LL eru rök til þess að þrengja ekki þessar heimildir, heldur, ef eitthvað er, að lögfesta rýmri heimildir og gera þær almennar. Það væri ráðlegt að miða við 25% í þeim efnum og láta slíkar heimildir ná til annarra félaga, þó að undanskildum þeim félögum sem eru skráð á skipulegum verðbréfamarkaði,“ segir í umsögn samtakanna.

Þar er einnig varað við því að verði frumvarpið að lögum geti það skert svigrúm sjóðanna til skilvirkrar eignastýringar og þannig takmarkað svigrúm til ávöxtunar fjármuna sjóðfélaga. Bent er á að flest fjárfestingarverkefni lífeyrissjóðanna undanfarin ár hafi verið fjármögnuð með stofnun samlagshlutafélaga. Ástæðan sé sú að með því móti hafi sjóðirnir getað átt allt að 20% hver í ákveðnu verkefni.

„Líklegt er að mörg eða jafnvel flest innlend framtaksfjárfestingarverkefni undanfarinna ára hefðu ekki orðið að veruleika ef hámarkið hefði verið 15%. […] Ef ákvæði um 15% hámarkshlutdeild í samlagshlutafélögum verður viðvarandi leiðir það til þess að erfitt verður að fjármagna ýmis verkefni og færri verkefni, fyrirtæki eða innviðafjárfestingar verða að veruleika. Jafnframt er líklegt að gerðar verði hærri arðsemiskröfur til þeirra verkefna sem þó tekst að fjármagna. Þetta gæti leitt til minni umsvifa í hagkerfinu til lengri tíma, minni hagvaxtar og þar af leiðandi lakari lífskjara,“ segir í umsögninni.

Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Gildi – lífeyrissjóður og sjóðastýringarfyrirtækið Stefnir, dótturfélag Arion banka, hafa einnig sent inn umsagnir þar sem fjárfestingarheimildir frumvarpsins eru gagnrýndar á sama hátt.

Sundabraut og spítalinn

Hannes Frímann hélt erindi á morgunverðarfundi Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) föstudaginn 13. maí þar sem hann benti á að reglan um hámarkshlutdeild lífeyrissjóða í félögum hafi sífellt meiri áhrif þar sem sjóðunum hafi fækkað mikið á undanförnum árum. Verði fleiri sjóðir sameinaðir, meðal annars út af hagkvæmniskröfum, muni hún hafa sífellt meiri áhrif. Hlutdeild upp á 15% þýði að sjö lífeyrissjóði hið minnsta þurfi svo þeir geti fjármagnað verkefni einir. Reynslan hafi sýnt að oft þurfti sjö til tíu sjóði til að koma að einu verkefni þrátt fyrir 20% regluna í samlagshlutafélögum.

„Fyrir stóru sjóðina, ef þetta eru flóknar fjárfestingar, kann að myndast sú skoðun að þeir hugsa, heyrðu, þetta tekur því ekki. Þetta er of lítið fyrir okkar stóra sjóð og of mikill tilkostnaður að skoða slíka fjárfestingu ef við megum ekki fjárfesta fyrir til að mynda meira en 300 milljónir króna í tveggja milljarða króna verkefni,“ segir Hannes.

„Rök fyrir 15% reglunni gætu verið að það sé vilji löggjafans að takmarka áhrif lífeyrissjóða í stærstu hlutafélögum landsins. Hægt er að ná þeim vilja á skynsamlegri hátt. Til dæmis með því að láta 15% regluna einungis gilda fyrir skráð hlutafélög en 25–50% hlutfall gilda fyrir aðrar fjárfestingar. 25% regla myndi til dæmis þýða að fjórir lífeyrissjóðir gætu fjármagnað verkefni í sameiningu.”

Aðspurður hvaða innviðafjárfestingar gætu orðið fyrir áhrifum ef frumvarpið verður að lögum nefnir Hannes meðal annars Sundabraut, nýjan Landspítala og Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

„Öll þau verkefni sem mögulega hafa verið nefnd þar sem þarf að fá einkafjármagn að opinberum framkvæmdum. Allt eru þetta dæmi um verkefni sem allir vita að er brýn þörf á að ráðast í og finna fjármagn fyrir.”

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ragnheiður ánægð að hafa hætt viðskiptum við fyrirtækið

Ragnheiður ánægð að hafa hætt viðskiptum við fyrirtækið
Fréttir
Í gær

Áfengisneysla á uppleið á Íslandi en niðurleið í Evrópu – Íslendingar fara oft á fyllerí

Áfengisneysla á uppleið á Íslandi en niðurleið í Evrópu – Íslendingar fara oft á fyllerí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Með varanlegan taugaskaða eftir að hann var skorinn upp á Landspítala við ófullnægjandi lýsingu

Með varanlegan taugaskaða eftir að hann var skorinn upp á Landspítala við ófullnægjandi lýsingu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Starfsfólk hetjur sem eigi hrós skilið – „Ég á varla til orð til að lýsa aðdáun minni“

Starfsfólk hetjur sem eigi hrós skilið – „Ég á varla til orð til að lýsa aðdáun minni“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Aðalsteinn lagði Moggabloggarann Pál í héraði – Átta ummæli dæmd dauð og ómerk og dagsektir yfirvofandi

Aðalsteinn lagði Moggabloggarann Pál í héraði – Átta ummæli dæmd dauð og ómerk og dagsektir yfirvofandi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ökumaður á Akureyri gáði ekki að sér – Afleiðingarnar voru skelfilegar

Ökumaður á Akureyri gáði ekki að sér – Afleiðingarnar voru skelfilegar