fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Júlíus Vífill valdi sér foreldra í næsta húsi: Lærði söng hjá kennara Pavarotti – Nærmynd

Ólst upp sem einbirni – Stefndi að því að verða óperusöngvari –

Einar Þór Sigurðsson
Föstudaginn 20. maí 2016 02:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur verið til umfjöllunar vegna deilna sem hann stendur í við systkini sín vegna eftirlaunasjóðs foreldra þeirra. Fjallað var um málið í Kastljósi í gærkvöldi.

Erfingjar hjónanna Ingvars Helgasonar, sem var best þekktur fyrir samnefnt bílaumboð, og Sigríðar Guðmundsdóttur, hafa sakað þá Júlíus Vífil og bróður hans, Guðmund Ágúst Ingvarsson, um að hafa tekið eftirlaunasjóð þeirra ófrjálsri hendi. Báðir hafa þeir harðneitað þessum ásökunum.

Alltaf sól í minningunni

Í viðtali við DV árið 2013 kom fram að Júlíus Vífill hefði alist upp hjá fósturforeldrum. Hlutirnir hefðu æxlast þannig á sínum tíma. „Það var þannig að mamma og pabbi áttu litla íbúð á Hávallagötu 44. Sennilega hefur nú verið frekar þröngt þar þó við hefðum nú ekki verið orðin svona mörg þá. Okkur fannst samt aldrei þröngt, bara ofsalega gaman og í minningunni er alltaf sól,“ sagði hann í viðtalinu.

Byggði upp stórveldi

Faðir Júlíusar, Ingvar Helgason, lést árið 1999 en hann byggði upp samnefnt fyrirtæki sem var umsvifamikið í innflutningi á bifreiðum og búvélum. Fyrirtæki hjónanna voru stöndug og var Ingvar í hópi auðugustu manna landsins. Fljótlega eftir andlát hans fór að halla undan fæti og fimm árum síðar voru fyrirtæki hans, Ingvar Helgason hf. og Bílheimar hf. seld úr höndum erfingja hans fyrir 25 milljónir króna. Var salan sögð hafa verið gerð til að forða fyrirtækjunum frá gjaldþroti eins og fram kom í Kastljósi í gær.

Í kjölfarið hóf Sigríður leit að varasjóði sem Ingvar hafði komið sér upp erlendis, en í honum voru til að mynda umboðslaun frá bílaframleiðendum sem hann seldi bíla frá. Sigríði tókst ekki að hafa uppi á sjóðnum, en hún féll frá í fyrra.

Eftir að fjallað var um Panamaskjölin fyrir skemmstu og aðkomu Júlíusar Vífils að aflandsfélagi fór systkinunum að gruna að ekki væri allt með felldu. Í Kastljósþætti gærkvöldsins kom fram, að sögn systkina Júlíusar, að Júlíus hefði viðurkennt að um væri að ræða sjóðinn sem faðir þeirra hafði safnað. Hann hefði hins vegar fært sér og bróður sínum, Guðmundi Ágústi, yfirráð yfir sjóðnum og Ingvar hefði gefið þeim fullt leyfi til að ganga á fjármunina. Ætlunin hafi verið að skila peningunum til dánarbúsins, en rétti tíminn hefði aldrei fundist. Upphæðirnar sem Ingvar hafði safnað námu hundruð milljónum króna, eða á annan milljarð króna að núvirði, að því er fram kom í Kastljósi.

Hændist að hjónunum

Júlíus er fæddur í Reykjavík 18. júní 1951 og ólst upp í vesturbæ Reykjavíkur. Hann er þriðji elstur í hópi níu systkina; fjögurra bræðra og fimm systra en ein þeirra lést barn að aldri. Þrátt fyrir að koma úr svo stórum systkinahópi ólst hann þó upp sem einbirni eins og kom fram í viðtalinu við hann árið 2013.

Þegar foreldrar mínir fluttu svo í burtu þegar ég var ekki nema 2–3 ára gamall þá var ég eiginlega fluttur að heiman og til þessara yndislegu hjóna.

Í næsta húsi við fjölskylduna bjuggu eldri hjón; þau Áslaug og Helgi Sívertsen. „Strax sem pínulítill hnokki hændist ég að þessum hjónum sem voru komin yfir miðjan aldur. Þegar foreldrar mínir fluttu svo í burtu þegar ég var ekki nema 2–3 ára gamall þá var ég eiginlega fluttur að heiman og til þessara yndislegu hjóna. Það varð svo úr að ég varð eftir og ólst upp hjá þeim.“

Hélt sambandi við fjölskylduna

Þrátt fyrir að hafa alist upp annars staðar þá var hann alltaf í sambandi við fjölskyldu sína. „Ég var alltaf í samskiptum við fjölskylduna en bjó annars staðar og ólst upp hjá þessu yndislega fólki. Ég kallaði þau alltaf ömmu og afa þó þau væru í raun mínir foreldrar, eða réttara sagt fósturforeldrar. Þau voru svo gömul. Fósturmóðir mín var fædd 1897 og fósturfaðir minn var aðeins yngri. Þetta var bara allt svo yndislegt og mér finnst ég alltaf standa í mikilli þakkarskuld við þetta fólk. Ég er bæði þeim og forsjánni mjög þakklátur að hafa fengið að alast upp hjá þessu góða fólki,“ sagði hann.

Ekkert tiltökumál

Júlíus sagði að hann hefði aldrei velt þessu fyrirkomulagi sérstaklega fyrir sér. Tímarnir hafi breyst en hann taldi sig heppinn að hafa fengið að alast upp hjá hjónunum. „Ég sé það oft á fólki að því þyki þetta merkilegt en mér hefur aldrei fundist þetta neitt tiltökumál. Þetta var ekki vegna þess að foreldrar mínir gætu ekki alið mig upp eða neitt slíkt. Ég valdi mér bara þessi yndislegu hjón og þau mig. En ég átti líka yndislega foreldra sem ég hef líka alltaf verið í góðu sambandi við. Sérstaklega eftir að ég fór að vinna hjá fjölskyldufyrirtækinu,“ sagði hann.

Hugfanginn af söngnum

Í viðtalinu kom enn fremur fram að fósturforeldrar hans hafi verið miklir listunnendur og hann hlotið mikið menningaruppeldi. Fór ungur að sækja listsýningar og tónleika. Á unglingsárunum varð hann svo hugfanginn af sönglistinni.
„Þegar ég var í menntaskóla þá einhvern veginn datt ég inn í þennan ofboðslega áhuga á söng.“ Líkt og flest önnur ungmenni á áttunda áratug síðustu aldar hlustaði hann á Deep Purple og Led Zeppelin en leitaði líka uppi klassíska söngvara með góðar söngraddir. „Þegar ég var í MR söng ég á tímabili í 4–5 kórum samtímis. Ég fór síðan í Tónlistarskólann í Reykjavík og svo Söngskólann,“ segir hann.
„Allt í einu rann upp fyrir mér hvað fegurð söngsins getur verið hrífandi. Þá fór ég að hlusta meira og læðast til að kaupa plötur með góðum söngvurum og óperur. Það þótti nú svolítið sérstakt á þeim tíma, þetta hefur breyst í dag.“

Hér að neðan má heyra Júlíus Vífil spreyta sig á söngnum.

Lögfræðin leiðinleg

Hann sagði próflestur meðal annars hafa opnað augu sín fyrir fegurð og frelsi söngsins. „Maður er svo næmur þegar maður er í prófum.“
Í viðtalinu kom fram að á þessum tíma hafi hann komist að því að hann hefði góða rödd og hefði möguleika á að gera sönginn að atvinnu sinni. Hann vildi þó tryggja sig og ekki bara treysta á sönginn og lærði því lögfræði með.

Lögfræðin fannst honum hins vegar aldrei neitt sérlega skemmtileg og söngurinn átti hug hans allan. Af hverju lærði hann hana þá? „Mér fannst aðallega gott að fara í lögfræði því þar lærir maður svo margvíslegt sem nýtist manni á mörgum sviðum. Ég sá aldrei fyrir mér beint að starfa sem lögfræðingur en ég er samt héraðsdómslögmaður og hef stundað lögmennsku,“ sagði hann.

Svo var ég í tímum hjá manni sem hét Mario Del Monaco sem var einn af stærstu söngvurum síðustu aldar

Lærði hjá kennara Pavarotti

Meðan hann lagði stund á lögfræðinám átti þó söngurinn hug hans allan eins og kom fram í viðtalinu við hann. Úr varð að hann fór til Austurríkis í frekara söngnám og svo seinna til Ítalíu eftir að hann kláraði lögfræðinámið hér heima. Áður en hann fór til Ítalíu hafði hann kynnst konunni í lífi sínu; Svanhildi Blöndal presti. Úr varð að Svanhildur kom út til hans. Þá voru þau enn barnlaus en hann átti einn son fyrir en í dag eiga þau Svanhildur saman þrjú börn.

Á Ítalíu stundaði hann nám við tónlistarháskólann í Bologna og lærði hjá mörgum af bestu söngvurum Ítalíu. Meðal annars var kennari Pavarotti, Arrigo Pola, prófessor við háskólann. „Svo var ég í tímum hjá manni sem hét Mario Del Monaco sem var einn af stærstu söngvurum síðustu aldar.“ Júlíus Vífill bjó á Ítalíu ásamt eiginkonu sinni í tvö og hálft ár. „Þetta voru yndislegir tíma og maður hugsar oft til baka til þessara ára,“ sagði hann í vðtalinu. Þau komu aftur til Íslands árið 1982. „Ég ætlaði mér ekkert að koma heim en það var haft samband við mig frá Þjóðleikhúsinu og mér boðið að koma og syngja þar aðalhlutverkið í óperettu sem var verið að setja upp. Ég ætlaði mér að vera lengur úti en mig vantaði pening, þarna bauðst mér að koma heim og fá greitt fyrir það. Svo eins og gengur rak hvert hlutverkið og verkefnið annað þannig að maður var alltaf sívinnandi á þessum vettvangi og ég fór ekki aftur út.“

Ingvar lést árið 1999 en Sigríður í fyrra.
Ingvar og Sigríður Ingvar lést árið 1999 en Sigríður í fyrra.

Mynd: Skjáskot/Frjáls verslun 1994

Ásakanir á báða bóga

Söngurinn og lögfræðin fóru þó á hilluna og var Júlíus Vífill kjörinn borgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 1998 og sat hann í borgarstjórn til 2002. Hann var svo aftur kjörinn árið 2006 og sat allt þar til hann sagði af sér fyrir skemmstu í kjölfar birtingar Panamaskjalanna. Hvarf þar með á braut reynslumesti borgarfulltrúi Reykjavíkur.

Júlíus hefur látið hafa eftir sér að það sé „ótrúlega ófyrirleitið að halda því fram að hann hafi með einhverjum hætti gengið í eða sölsað undir sig sjóði í eigu annarra“. Í Kastljósþættinum kom fram að systkini Júlíusar ætluðu að fela bresku rannsóknarfyrirtæki, K2, það verkefni að hafa uppi á varasjóði Ingvars.

Í viðtali í Morgunblaðinu í dag sagði Ingvar að móðir þeirra hafi ekki búið við skort síðustu æviár sín. „Hún var sem betur fer mjög vel efnum búin og skorti ekkert, en því miður þjáð í mörg ár af Alzheimer. Væntanlega hefðu sömu einstaklingar og tala með þessum hætti farið varlegar með fjármuni hennar ef sú hefði verið raunin í stað þess að draga sér tugi milljóna af bankareikningi hennar,“ sagði Júlíus Vífill.

Ásakanirnar ganga því á báða bóga og ljóst að ekki eru öll kurl komin til grafar í málinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Hvalur sprakk í tætlur
Fréttir
Í gær

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“
Fréttir
Í gær

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”