fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Fréttir

Erlendur fjárfestir í hópi þeirra sem bjóða í Ölgerðina

Að lágmarki fjórir hópar skila inna skuldbindandi tilboðum – Heildarvirði fyrirtækisins um 13 milljarðar

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 18. maí 2016 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjórir hópar fjárfesta að lágmarki munu skila inn skuldbindandi tilboðum í Ölgerð Egils Skallagrímssonar áður en frestur til þess rennur út í lok þessa mánaðar en formlegt söluferli á fyrirtækinu hefur staðið yfir frá því í byrjun mars. Á meðal þeirra sem hyggjast setja fram tilboð í hlutafé Ölgerðarinnar, samkvæmt heimildum DV, eru framtakssjóðirnir Horn III og Akur fjárfestingar. Þá er einnig erlendur aðili í hópi þeirra fjárfesta sem bítast um Ölgerðina en ekki fást upplýsingar um hvaða fjárfesti er að ræða. Stefnt er að því að niðurstaða liggi fyrir í söluferlinu um miðjan næsta mánuð en það er fyrirtækjaráðgjöf Virðingar sem hefur umsjón með sölunni.

Horn III og Akur fjárfestingar áforma að skila inn tilboði í Ölgerðina í sameiningu en heildarvirði fyrirtækisins (e. enterprise value) gæti verið á bilinu tólf til fjórtán milljarðar króna. Akur er fjárfestingasjóður í rekstri VÍB og Íslandssjóða, dótturfélaga Íslandsbanka, en Horn III er nýr tólf milljarða framtakssjóður stofnaður af Landsbréfum, sjóðastýringarfyrirtæki í eigu Landsbankans. Hluthafar sjóðanna eru helstu lífeyrissjóðir landsins, íslensk tryggingafélög og ýmsir aðrir fagfjárfestar.

Á meðal þeirra sem eru að selja hlut sinn í Ölgerðinni er framtakssjóðurinn Auður I, sem er í rekstri Virðingar, en sjóðurinn á ríflega 62% hlut í Eignarhaldsfélaginu Þorgerður ehf. sem upphaflega eignaðist hlut í fyrirtækinu árið 2010 ásamt meðfjárfestum. Félagið er í dag stærsti hluthafi fyrirtækisins með 45% eignarhlut og nemur hlutur framtakssjóðsins í Ölgerðinni því óbeint um 28%. Eignarhluturinn í Ölgerðinni er stærsta einstaka eign Auðar I.

Greint var frá því í DV í nóvember í fyrra að eigendur Ölgerðarinnar hefðu tekið ákvörðun um að selja hlut sinn í fyrirtækinu og skrá það á hlutabréfamarkað í Kauphöll Íslands. Nokkrum mánuðum síðar var hins vegar ákveðið að setja skráningaráformin til hliðar og þess í stað að selja fyrirtækið í beinni sölu þar sem falast yrði eftir kauptilboðum frá bæði innlendum og erlendum fjárfestum. Í viðtali við ViðskiptaMoggann þann 10. mars síðastliðinn sagði Andri Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, að þegar tilkynnt hafi verið um fyrirhugaða skráningu félagsins á markað hafi komið í ljós mikill áhugi fjárfesta á kaupum á fyrirtækinu og því hafi stjórnendur og eigendur þess ákveðið að breyta um kúrs og ráðast í beina sölu í fyrstu atrennu.

Síbatnandi afkoma

Rekstur Ölgerðarinnar hefur farið síbatnandi á síðustu árum samtímis því að félaginu hefur tekist að styrkja markaðshlutdeild sína, en helsti keppinautur fyrirtækisins er sem kunnugt er Vífilfell. Þá hefur fyrirtækið ekki farið varhluta af auknum straumi ferðamanna sem skýrir að stórum hluta vaxandi veltu á síðustu árum. Hagnaður Ölgerðarinnar fyrir fjármagnskostnað og afskriftir (EBITDA) nam ríflega 1.640 milljónum króna á fjárhagsárinu sem lauk í febrúar 2015 og var heildarvelta fyrirtækisins þá 19,6 milljarðar króna. Afkoma Ölgerðarinnar á því tímabili var sú besta frá upphafi. EBITDA-hagnaður fyrirtækisins jókst hins vegar enn meira á fjárhagsárinu sem lauk í febrúar á þessu ári og nam samtals um 1.900 milljónum króna, samkvæmt upplýsingum DV. Sé miðað við EBITDA-margfaldarann sjö þá má áætla að heildarvirði fyrirtækisins sé ríflega þrettán milljarðar króna en vaxtaberandi langtímaskuldir Ölgerðarinnar eru um sjö milljarðar.

Ríkið á hlut í Ölgerðinni

Á meðal hluthafa í Auði I framtakssjóði er ríkissjóður Íslands með 4,7% eignarhlut. Miðað við að Auður I á ríflega 62% hlut í Eignarhaldsfélaginu Þorgerði, sem heldur utan um 45% hlut í Ölgerðinni, þá á íslenska ríkið því óbeint um 1,3% hlut í Ölgerðinni. Að því gefnu að heildarvirði Ölgerðarinnar sé um 13 milljarðar króna þá má ætla að hlutur ríkisins sé metinn á um 170 milljónir króna.

Eignarhlutur ríkisins í Auði I var áður í eigu Glitnis Eignarhaldsfélags en hluturinn var á meðal þeirra eigna sem kröfuhafar slitabúsins samþykktu að framselja til stjórnvalda sem hluta af stöðugleikaframlagi þeirra. Önnur fyrirtæki sem íslenska ríkið á núna hagsmuna að gæta í í gegnum eignarhald sitt á Auði I eru meðal annars 365 miðlar, Íslenska Gámafélagið og upplýsingafyrirtækið Já.

Fyrir utan helstu lífeyrissjóði landsins eru eigendur Auðar I, sem var stofnaður í febrúar 2008, ýmsir þekktir einstaklingar úr íslensku viðskiptalífi. Þar má nefna Ernu Gísladóttur, forstjóra BL, Jón Sigurðsson, forstjóra Össurar, Guðbjörgu Eddu Eggertsdóttur, fyrrverandi forstjóri Actavis á Íslandi og einn af hluthöfum Virðingar, og hjónin Steinunn Jónsdóttir og Finnur Reyr Stefánsson í gegnum fjárfestingafélag sitt, Snæból ehf. Samkvæmt ársreikningi Eignarhaldsfélagsins Þorgerðar, þar sem Auður I er sem fyrr segir stærsti eigandinn með 62% hlut, er 45% hlutur félagsins bókfærður á 1.019 milljónir króna. Miðast sú fjárhæð við kaupverð í Ölgerðinni á sínum tíma en ljóst má vera að verðmæti hlutarins er margfalt meira virði í dag.

Vilja halda í stjórnendur

Næststærsti hluthafi Ölgerðarinnar er OA-eignarhaldsfélag með 38% hlut en eigendur þess eru Andri Þór Guðmundsson, forstjóri fyrirtækisins, og Októ Einarsson, núverandi stjórnarformaður Ölgerðarinnar. Þá á eignarhaldsfélagið F-13 17% hlut í fyrirtækinu en það er í eigu fjögurra framkvæmdastjóra Ölgerðarinnar. Eignarhlutur stjórnenda Ölgerðarinnar þynntist út árið 2010 samhliða því að fyrirtækið fór í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu hjá Arion banka og framtakssjóðurinn Auður I kom inn sem nýr hluthafi ásamt meðfjárfestum.

Samkvæmt heimildum DV hafa áhugasamir kaupendur að Ölgerðinni hug á því að halda í að minnsta kosti hluta núverandi stjórnendateymis fyrirtækisins. Aðspurður hvort hann hygðist halda áfram að starfa fyrir Ölgerðina sagði Andri í fyrrnefndu viðtali við ViðskiptaMoggann að hann væri tilbúinn að eiga áframhaldandi aðkomu að félaginu, bæði sem fjárfestir og forstjóri þess. „Þetta verður þó allt að koma í ljós og mun ráðast af vilja þeirra fjárfesta sem munu koma að fyrirtækinu hvort þeir sjái tækifæri í því að hafa mig um borð eða ekki.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Fulltrúadeildin greiðir loksins atkvæði um hjálparpakka til Úkraínu

Fulltrúadeildin greiðir loksins atkvæði um hjálparpakka til Úkraínu
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Tímamót á Reykjanesskaga: Næst lengsta gosið frá 2021 – Óvissa um framhaldið

Tímamót á Reykjanesskaga: Næst lengsta gosið frá 2021 – Óvissa um framhaldið
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Bjarkey strax undir miklum þrýstingi: „Það hefur gríðarlegar afleiðingar fyrir ráðherra að fara ekki að lögum“

Bjarkey strax undir miklum þrýstingi: „Það hefur gríðarlegar afleiðingar fyrir ráðherra að fara ekki að lögum“
Fréttir
Í gær

Ragnheiður ánægð að hafa hætt viðskiptum við fyrirtækið

Ragnheiður ánægð að hafa hætt viðskiptum við fyrirtækið
Fréttir
Í gær

Áfengisneysla á uppleið á Íslandi en niðurleið í Evrópu – Íslendingar fara oft á fyllerí

Áfengisneysla á uppleið á Íslandi en niðurleið í Evrópu – Íslendingar fara oft á fyllerí