fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Guðni svarar Davíð: Vill ekki kollvarpa stjórnarskránni – Studdi Icesave III

Hiti að hlaupa í baráttuna um Bessastaði

Einar Þór Sigurðsson
Þriðjudaginn 17. maí 2016 20:13

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðni Th. Jóhannesson, sem býður sig fram í embætti forseta Íslands, segir það ekki rétt hjá mótframbjóðanda hans, Davíð Oddssyni, að hann vilji kollvarpa stjórnarskránni. Davíð var gestur Björns Inga Hrafnssonar á Eyjunni á Stöð 2 á sunnudag þar sem hann sagði þetta meðal annars.

Vill ekki kollvarpa stjórnarskránni

Guðni var í viðtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag þar sem hann blés á þá kenningu Davíðs að hann vildi kollvarpa stjórnarskránni.

„Nei, það er ekki rétt. Ég vil að við lærum af fortíðinni og þess vegna vil ég að því ákvæði verði komið í stjórnarskrá, að þjóðin sjálf eigi lokaorðið í stærstu málum, að tilskilinn fjöldi kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðis, að við eigum það ekki undir afstöðu eins manns, þótt þjóðhöfðingi sé, hvort vilji fólksins sé virkjaður,“ sagði Guðni meðal annars og bætti við að þetta væri í í raun sakleysislegt og gæti ekki flokkast undir kollvörpun. „Svo vil ég líka að við færum kaflann í stjórnarskrá um völd og verksvið forseta Íslands til nútímahorfs. Og þetta hafa í raun allir viljað frá 1944 og væri fróðlegt og gaman að fletta upp í þingtíðindum til að sjá stuðning við þetta sjónarhorn. Þannig að ég er ekki sammála þessum alhæfingum sem eru látnar flakka í hita leiksins.“

Sjá einnig: Davíð vill ekki laun nái hann kjöri: Gagnrýndi Guðna Th.

Studdi Icesave III

Í Eyjunni gagnrýndi Davíð Guðna einnig vegna Icesave-samninganna og sagði hann hafa verið á röngu róli í þeim efnum.

„Þá barðist hann fyrir Icesave eins og hann gat gert sem fagmaður. Þá barðist hann fyrir Icesave með alveg sömu rökum, algjörlega sömu rökum og Jóhanna og Steingrímur. Ekki nóg með það og eftir fyrsta Icesave og allt það, þá hélt hann því fram að það mætti ekki vernda Íslenskar innistæður nema að vernda innistæður eða kröfur kröfuhafana. Hæstiréttur henti þessu viðhorfi út. Þannig að hann var á röngu róli blessaður í þessum málum. Auðvitað þarf að nefna það. Hann vildi ganga í Evrópusambandið,“ sagði Davíð.

Um þessi ummæli Davíðs sagði Guðni í Reykjavík síðdegis:

„Ég hef aldrei dregið dul á það að ég studdi og samþykkti Icesave III samninginn eins og 40 prósent kjósenda, kannski 40 prósent hlustenda, og meginþorri þingmanna,“ sagði Guðni og bætti við að nær allur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi einnig gert það.

„Þá var staðan þannig að Lee Buchheit mælti með þessari lausn og maður hlustaði á rök með og á móti og tók svo sína upplýstu ákvörðun. Þá hafi hann verið fræðimaður á þessum tíma og ekki borið neina ábyrgð á Icesave-samningunum eða málalyktum.

„Ég var saklaus sagnfræðingur og ætli menn að finna örlagavalda í þeirri sögu verða menn að leita eitthvert annað,“ sagði hann.

Þjóðin eigi lokaorðið um ESB

Um aðild að Evrópusambandinu sagði Guðni að fólkið í landinu ætti að eiga lokaorðið í slíkri ákvörðun eins og öllum stórum ákvörðunum sem varða þjóðarhag.

„Ég sat í nefnd á vegum utanríkisráðuneytisins sem átti að kynna kosti og galla aðildar. Ég sat í þeirri nefnd frá 2011 til 2012 og það var mjög gaman. Við vorum þar á þriðja tug manna úr öllum stéttum og flokkum samfélagsins; fólk sem var eindregið með aðild og fólk sem var eindregið á móti aðild og fólk sem var þar á milli, eins og ég. Þá sá maður þetta svo vel hvað umsóknin var á veikum grunni því að stjórnin var klofin, hafði ekki fólkið með sér. Og lærum nú af því. Vilji ríkisstjórn næstu ára sækja um aðild að Evrópusambandinu, hefja samningaviðræður á ný, þá má hún ekki gera það nema hún sé einhuga um það og hafi fylgi þjóðarinnar. Og það fæst í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta eru allir sammála um núna þannig að svona höldum við áfram fram á veg, lærum af reynslunni og hræðumst ekki framtíðina.“

Hér að neðan má hlusta á viðtalið við Guðna í Reykjavík síðdegis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Í gær

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala