Róbert Marshall: „Þetta er bara skítamix“

Viðbrögð stjórnarandstöðuþingmanna við afsögn Sigmundar Davíðs

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Þetta var eini leikurinn sem þeir höfðu í þessari stöðu til að framlengja líf þessarar ríkisstjórnar, segir Róbert Marshall þingmaður Bjartrar framtíðar um afsögn Sigmundar Davíðs úr embætti forsætisráðherra. Róbert segir að sér kæmi á óvart af Sjálfstæðisflokkurinn brygðist við þessu með jákvæðum hætti.

„Mig vantar betra orð en þetta er bara skítamix“,

segir Róbert.

Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingarinnar segir að hans flokkur fari fram á að þingfundur verði kallaður saman til að fara yfir stöðuna. Helga þykir ótrúlegt að ríkisstjórnin geti lifað af. Útspil Sigmundar Davíðs sé neyðarúrræði sem dugar ekki.

Katrín Jakobsdóttir sagði atburðarás dagsins einkennilega þar sem forsætisráðherra hefði lýst því yfir í morgun að líf stjórnarinnar hengi ekki á bláþræði. Í hádeginu hafði hann hins vegar beðið forseta um þingrof og núna sé hann búinn að segja af sér. Katrín segir að svona hringavitleysa sé ekki til þess fallin að auka traust á ríkisstjórninni. Krafa VG sé óhögguð: Þingrof og kosningar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.