fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Hagnaður Lýsingar tvöfaldast vegna virðisbreytingar útlána

Ríkið á um 30% í félaginu sem hagnaðist um 600 milljónir – Burlington með tögl og hagldir

Ritstjórn DV
Föstudaginn 29. apríl 2016 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hagnaður fjármögnunarfyrirtækisins Lýsingar, sem er að þriðjungshluta í eigu íslenska ríkisins, nam 607 milljónum króna í fyrra og meira en tvöfaldaðist á milli ára. Aukinn hagnaður félagsins skýrist fyrst og fremst af virðisbreytingu upp á 530 milljónir vegna annars vegar leigusamninga og útlána og hins vegar minni lagaóvissu vegna gengislánadóma.

Stjórn félagsins leggur til að ekki verði greiddur arður til hluthafa vegna afkomu Lýsingar á síðasta rekstrarári, að því er fram kemur í ársreikningi félagsins sem var nýlega skilað til fyrirtækjaskráar. Eigið fé Lýsingar var tæplega 10,6 milljarðar í árslok 2015 og eiginfjárhlutfall fyrirtækisins er 45,2%. Ríkissjóður Íslands eignaðist hlut í eignaumsýslufélaginu Klakka, móðurfélagi Lýsingar, fyrr á þessu ári eftir að kröfuhafar slitabúa gömlu bankanna samþykktu að framselja eignarhlut sinn í félaginu í tengslum við stöðugleikaframlag þeirra til stjórnvalda.

Vöxtur í rekstrarleigu

Í skýrslu stjórnar Lýsingar kemur fram að eftir félagið vann „sigur í stórum fordæmisgefandi dómsmálum á árinu 2014“ hóf það sókn og endurmörkun á markaði en á því ári keypti það meðal annars rekstur og og lánasafn eignaleigufyrirtækisins Lykils, sem er í dag hluti af Lýsingu, af MP banka. Þá segir stjórnin að fjármögnunarstarfsemi félagsins hafi vaxið „umfram væntingar“ á síðasta ári. Rekstrarleigutekjur Lýsingar námu 268 milljónum króna á árinu 2015 og jukust um meira en helming frá fyrra ári.

Þrátt fyrir að ríkið fari í reynd beint og óbeint um 30% hlut í Lýsingu í gegnum eignarhald sitt á Klakka þá er það vogunarsjóðurinn Burlington Loan Management sem fer með tögl og hagldir innan fjármögnunarfyrirtækisins. Eftir að hafa gengið frá kaupum á 31,8% hlut Arion banka í Klakka undir lok síðasta árs, eins og upplýst var um í DV í janúar, þá á sjóðurinn núna samtals 45% hlut í félaginu. Voru þau kaup gerð í nafni BLM Fjárfestingar ehf., íslensks dótturfélags Burlington Loan Management.

Ríkið með nærri 30% hlut

Á meðal þeirra eigna sem kröfuhafar gömlu bankanna framseldu til íslenskra stjórnvalda var 17,6% hlutur slitabús Kaupþings í Klakka. Í kjölfarið tók Steinar Þór Guðgeirsson, hæstaréttarlögmaður og ráðgjafi Seðlabankans, sæti í stjórn félagsins. Í febrúar síðastliðnum komst Fjármálaeftirlitið að þeirri niðurstöðu að ríkissjóði væri heimilt að fara með allt að 20% virkan eignarhlut í Lýsingu í gegnum óbeina hlutdeild. Hagsmunir ríkisins af Lýsingu eru hins vegar meiri en sá eignarhlutur gefur til kynna. Slitabú Glitnis átti samtals rúmlega 11% hlut í Klakka í gegnum Holt Funding og Haf Funding, írsk skúffufélög, sem var ekki formlega framseldur til íslenskra stjórnvalda sem hluti af stöðugleikaframlagi kröfuhafa. Samkvæmt heimildum DV fellur sá eignarhlutur, sem er núna í höndum eignarhaldsfélagsins Glitnis HoldCo, undir fjársópsákvæði sem þýðir að íslenska ríkið fær alla afkomu sem fellur til af eignum sem ekki var unnt að framselja til íslenskra stjórnvalda.

Hlutur ríkisins í Lýsingu er á meðal þeirra eigna sem færast undir Lindarhvol ehf., eignarhaldsfélags í eigu ríkissjóðs, sem hefur það hlutverk að annast umsýslu með og fullnusta stóran hluta þeirra eigna sem voru afhentar ríkinu í tengslum við stöðugleikaframlög gömlu bankanna. Þegar litið er til þeirrar yfirburðastöðu sem Burlington Loan Management hefur innan Lýsingar, bæði sem hluthafi og lánveitandi félagsins, má leiða að því líkur að sjóðurinn sé líklegasti kaupandinn að hlut ríkisins í fyrirtækinu.

Fær 75% af hagnaði

Auk þess að vera stærsti hluthafi Lýsingar er vogunarsjóðurinn, sem var einnig stærsti einstaki kröfuhafi slitabúa gömlu bankanna, eini lánveitandi félagsins eftir að sjóðurinn keypti 26 milljarða skuldir fjármögnunarfyrirtækisins af Deutsche Bank í árslok 2013. Samkvæmt nýjasta ársreikningi Lýsingar nam skuldin gagnvart Burlington Loan Management ríflega tíu milljörðum króna. Samtals nema eignir Lýsingar ríflega 24 milljörðum, þar af eru leigusamningar og útlán til viðskiptavina nærri 15 milljarðar, en af þeirri fjárhæð eru ríflega 7 milljarðar í handbæru fé. Meirihluti þess fjár, eða liðlega 3,8 milljarðar, er jafnframt veðsettur Burlington Loan Management til tryggingar á tíu milljarða skuld samstæðunnar gagnvart sjóðnum.

Þótt óbeinn hlutur Burlington Loan Management í Lýsingu sé 45% þá eru fjárhagslegir hagsmunir sjóðsins af afkomu fjármögnunarfyrirtækisins talsvert meiri en sem nemur þeim eignarhlut. Samkvæmt ákvæðum nauðasamnings Klakka, áður Exista, frá árinu 2010 þá fara 75% af öllum hagnaði og arðgreiðslum til Lýsingar aðeins til tiltekinna samningskröfuhafa félagsins. Samkvæmt heimildum DV munar þar langsamlega mestu um Burlington Loan Management, eftir að sjóðurinn keypti skuldir Lýsingar af Deutsche Bank, en aðrir hluthafar Klakka, meðal annars ríkissjóður Íslands, skipta hlutfallslega jafnt á milli sín 25% af þeim hagnaði sem verður af rekstri Lýsingar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Í gær

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala