fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Sæunn kallar viðtalið við Óttar „glórulaust“

Segir geðlækninn tala „af ábyrgðarleysi og vanþekkingu um viðkvæm og mikilvæg mál“

Auður Ösp
Fimmtudaginn 28. apríl 2016 21:04

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mér var um megn að sitja með hendur í skauti og láta það viðgangast að fagmanneskja í áhrifastöðu tali af svo miklu ábyrgðarleysi og vanþekkingu um jafn viðkvæm og mikilvæg mál,“ segir Sæunn Kjartansdóttir hjúkrunarfræðingur og sálgreinir og vísar þar í umdeilt viðtal Fréttablaðsins við Óttar Guðmundsson geðlækni. Lét Óttar meðal annars hafa þar eftir sér að orðin áfallastreita og áfallastreituröskun væru ofnotuð.

Ógætt er að segja að viðtalið hafi vakið hörð viðbrögð og margir sem létu í ljós skoðun sína á samfélagsmiðlum og á athugasemdakerfum vefmiðla.

„Við eigum að vera varin fyrir öllu áreiti. Ef eitthvað kemur fyrir okkur rjúkum við upp, hringjum í blöðin og látum vita af þessu eða eigum rétt á áfallahjálp,“ sagði Óttar einnig í viðtalinu. „Hlutir eins og sorg, ástarsorg, tilvistarkreppa. Ég trúi því að við séum allt of oft að greina eitthvað sem eru kannski meira og minna eðlileg viðbrögð við ákveðnu óeðlilegu áreiti.“

Í pistli sem birtist á Geðvernd.is segir Sæunn að eftir að hafa lesið viðtalið við Óttar „með glórulausum staðhæfingum um áföll og afleiðingar“ hafi hún hent því frá sér.

„Það er eflaust misjafnt hvað fólk kallar áföll en ég hugsa að flestir geti sætt sig við skilgreiningu íslenskrar orðabókar þar sem slys, mótlæti eða þungbær reynsla eru nefnd sem dæmi. Á síðustu árum hefur athygli fagfólks beinst að annars konar áföllum sem kallast tengslaáföll (e. relational trauma). Þá er ekki um stakan atburð að ræða heldur langvarandi ferli þar sem barn verður fyrir vanrækslu eða ofbeldi foreldra, misjafnlega alvarlegu. Tengslaáföll eru mun skaðlegri en stakir atburðir. Þau eiga sér stað á meðan barn er varnarlaust og óþroskað, sá sem veldur sársauka eða ótta er manneskja sem barnið er háð, áföllin eru endurtekin og viðvarandi og hafa þar af leiðandi skaðleg áhrif á mótun heilans og viðhorf manneskjunnar til sjálfrar sín og annarra“

ritar Sæunn. Hún segir tengslaáföll fara oft leynt vegna þess að einstaklingurinn hefur eingöngu sitt takmarkaða sjónarhorn á eigið líf. „Þess vegna gera þolendur ofbeldis og vanrækslu sér oft ekki grein fyrir að eitthvað athugavert hafi átt sér stað. Þess í stað sitja þeir uppi með vanlíðan sem þeir skilja ekki og kenna sjálfum sér um. Oft er það ekki fyrr en á fullorðinsárum sem fólk gerir sér grein fyrir hvernig kvíði, þunglyndi, léleg sjálfsmynd eða ofneysla áfengis/fíkniefna er afleiðing erfiðrar lífsreynslu ásamt vanmætti til að bregðast við henni.“

Þá segir hún það fjær sanni að fólk geti ekki tekist á við áföll hjálparlaust vegna þess að það lifi í vernduðu umhverfi. „Verndað umhverfi myndi verja fólk fyrir streitu og leiða til betri heilsu í stað aukins kvíða sem nú er landlægur. Börn sem er hlíft við að takast á við krefjandi viðfangsefni eru ekki vernduð, þau eru vanrækt.“

„Foreldrum og öðrum fullorðnum ber að vernda börn fyrir óhóflegri streitu og hjálpa þeim frá degi til dags, á þeirra forsendum, til að takast á við erfiðleika sem hæfa aldri þeirra og þroska. Rannsóknir sýna að börn sem fá slíkt atlæti hafa mun meiri seiglu og getu til að takast á við mótlæti. Hin sem eru vanrækt eða látin axla ábyrgð á sjálfum sér of snemma, eins og algengt er, eru mun verr í stakk búin þegar áföll dynja á,“ segir Sæunn jafnframt og bætir við í lokin:

„Sé áföllum ekki sinnt á fullnægjandi hátt í tæka tíð kemur að því að liðsinni fagfólks verður ekki umflúið, fyrr eða síðar“

Hér má lesa pistil Sæunnar í heild sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala