fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Móðirin sem flutti til Sýrlands til að búa undir ógnarstjórn ISIS er komin heim

Laura Passoni varð ástfangin í stórmarkaði – Sér eftir því að hafa farið til Sýrlands

Einar Þór Sigurðsson
Miðvikudaginn 27. apríl 2016 11:56

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég ákvað að flýja þegar ég áttaði mig á því að hætta væri á að sonur minn myndi enda sem hryðjuverkamaður,“ segir belgísk kona, Laura Passoni, sem flutti frá heimahögunum í Belgíu til Sýrlands þar sem hún bjó undir ógnarstjórn ISIS. Belgískir fjölmiðlar hafa fjallað um mál Lauru að undanförnu.

Varð ástfangin í stórmarkaði

Laura, sem er þrítug, varð ástfangin af manni sem hún kynntist í stórmarkaði í borginni Charleroi þar sem hún starfaði. Maðurinn, Osama Rayan, er fæddur í Túnis og segir Laura að Osama hafi sannfært hana um að flytja með sér til Túnis og þaðan til Sýrlands sem hún og gerði. Þegar þangað var komið áttaði hún sig á því að hún hafði gert mistök.

Fór sjálfviljug til Sýrlands

„Ég var ekki neydd til að gerast múslimi, ég var beitt fortölum,“ segir hún. Áður en þau fluttu til Sýrlands flutti Laura með eiginmanni sínum til Túnis. Árið 2014 flutti þau til al-Bab, sem er skammt frá hinni stríðshrjáðu borg Aleppo, og þar dvöldu þau fram í mars 2015 að Laura ákvað að flýja.

„Ég fór sjálfviljug til Sýrlands, gerðist múslimi og varð fljótt sannfærð um að kalífadæmi ISIS væri rétti staðurinn fyrir mig og fjölskyldu mína,“ segir hún í samtali við belgíska fjölmiðla sem Mail Online vitnar til. Hún segir að í Sýrlandi hafi frelsi hennar verið skert verulega. Hennar hlutverk var að halda sig innan veggja heimilisins og elda mat og þrífa. Þegar hún fór út úr húsi þurfti hún að vera hylja líkama sinn frá toppi til táar og ávallt vera í fylgd eiginmanns síns.

Engir skattar

Laura tók fjögurra son sinn af fyrra hjónabandi með sér til Sýrlands, en hún og Osama eignuðust svo barn eftir að þau kynntust. Eftir að hafa dvalið í Sýrlandi í nokkra mánuði ákvað hún að yfirgefa landið enda var þetta ekki umhverfi sem hún vildi ala börnin sín upp í. Aðspurð um hvernig lífið í Sýrlandi var, segir hún:

„Við þurftum ekki að borga skatta, heilbrigðisþjónusta var ókeypis. Samt var mjög dýrt að vera þar og við áttum aldrei nóg af peningum,“ segir hún. Hún bætir við að hún hafi aldrei verið beitt ofbeldi en samt liðið eins og fanga. „Ég mátti ekki gera neitt, ég átti að sjá um heimilið og börnin. Ég mátti ekki yfirgefa heimilið eða nota internetið án þess að einhver væri með mér,“ segir hún og bætir við að hún hafi orðið óttaslegin um að börnin yrðu tekin af henni. Þegar hún hugsaði til þess að sonur hennar myndi mögulega enda sem hryðjuverkamaður hafi hún ákveðið að flýja.

Handtekin í Belgíu

Laura segir að hún hafi stolist til að nota farsíma á heimilinu og haft samband við foreldra sína, Pascal og Antoinette, í gegnum smáskilaboð. Laura segist í samtali við belgíska fjölmiðla ekki vilja gefa nánari upplýsingar um það hvernig henni tókst að flýja af ótta við hefndaraðgerðir gegn þeim sem aðstoðuðu hana. Henni tókst þó að flýja til Tyrklands þaðan sem hún fór heim til Belgíu á síðasta ári.

Þar sem hún hafði búið á yfirráðasvæði ISIS var hún handtekin við komuna til Belgíu, sektuð og dæmd í fimm ára fangelsi sem var bundið skilorði að öllu leyti. Þá voru börnin hennar tekin af henni af félagsmálayfirvöldum, en þeim síðar komið í hendur foreldra hennar. Laura segir við belgíska fjölmiðla að hún hafi sætt sig við að þurfa að sæta refsingu við heimkomuna til Belgíu. Refsingin hafi verið, og sé, léttvæg í samanburði við það sem hún gekk í gegnum í Sýrlandi.

„Ekki gera það“

Nú, þegar tæpt ár er liðið frá því að hún snéri heim, hefur Laura fengið að hitta börnin sín. Hún berst nú gegn því að konur, í svipuðum sporum og hún, yfirgefi Belgíu til að ganga í raðir ISIS eða flytja á svæði sem þeir stjórna. Hún hélt nýlega fund í Molenbeek-hverfinu í Brussel þar sem hún sagði meðal annars: „Ráðlegging mín til ungra kvenna sem eru að íhuga að fara til Sýrlands er þessi: Ekki gera það.“

Talið er að eiginmaður Lauru sé enn í Sýrlandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“