fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Fréttir

Brynhildur: „Ef þið haldið að framfærslulán LÍN séu í lagi, gefur það mikið til kynna um fjárhagsstöðu ykkar“

Fær lánað fyrir skólagjöldum í tvö ár á meðan norskur samnemandi fær lán í 12 ár án þaks og skerðingar

Auður Ösp
Miðvikudaginn 27. apríl 2016 16:28

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég ætla bara að klára námið, sama hvað. Ég hugsa bara ekki um hitt. Vinum mínum hérna úti finnst þetta fáránlegt, og vorkenna mér mikið út af þessu rugli,“ segir Brynhildur Hallgrímsdóttir í samtali við DV.is en hún stundar BA nám við Edinborgarháskóla í málvísindum og ensku. Hún skrifaði á dögunum opið bréf til Lánasjóðs íslenskra námsmanna þar sem hún lýsti raunveruleika íslensks námsmanns á erlendri grundu sem reynir að draga fram lífið á þeim kjörum sem Lánasjóðurinn býður upp á en fyrirhuguð er lækkun framfærslulána um 20 prósent.

Fjölmargir námsmenn erlendis horfa nú fram á það að möguleikar þeirra til að stunda háskólanám sitt eru í uppnámi. DV.is birti á dögunum viðtal við Jenný Rut Arnþórsdóttur sem stundar leiklistarnám í Los Angeles og sér nú fram á að geta ekki lokið náminu vegna skerðingar á framfærslu. Einnig var rætt við Brynju Kristínu Einarsdóttur sem er í læknanámi í Ungverjalandi en fær aðeins lánað fyrir hluta skólagjalda sinna. Þá var einnig birt frásögn Ásgeirs Þórs Magnússonar, íslensks læknanema í Slóvakíu sem kveðst þurfa að reiða sig á einn núðlupakka á dag og gerir ráð fyrir að þurfa að kaupa sér tjald til að geta átt stað til að sofa á.

Fær aðeins lánað fyrir skólagjöldum fyrstu tvö árin

„Ef þið haldið að framfærslulán LÍN séu í lagi, gefur það mikið til kynna um fjárhagsstöðu ykkar. Við hin sem erum ekki syndandi í seðlum eða eigum ekki gott hjálparnet, getum kysst menntun bless, sérstaklega erlendis. Ef ég væri í háskóla heima, byggi ég 100 prósent heima hjá foreldrum mínum, þyrfti aldrei að elda, kaupa í matinn, borga leigu, eða allt því sem fylgir því að flytja að heiman. Ég þyrfti samt líklegast að vera í vinnu með skóla, til að eiga vasapening til að lifa af,“ segir Brynhildur í pistli sínum og bætir við að ekki sé í boði fyrir hana að stunda vinnu með náminu í Edinborg.

Brynhildur ber sína stöðu saman við stöðu norskrar vinkonu sinnar sem einnig stundar nám við skólann. Norsk vinkona hennar fær að taka námslán í 12 ár með engu þaki og engri skerðingu.

„Hún hefur til dæmis farið í frönsku skóla, og margt annað, bara því að Noregur veitir henni skilyrðislaus námslán í 12 ár—og auðvitað ætlar hún að nýta sér þau, það eru forréttindi að vera í háskóla, hvað þá að fá að fara erlendis.“

Brynhildur bendir einnig á að á meðan fái hún skólagjaldalán sem dugir fyrir tveimur árum og framfærslulán í 4 ár:

„En þá er sko komið nóg. Þegar þessi 2 ár eru búin, segja þau stopp og ég fæ ekki meira lán fyrir skólagjöldum. ALDREI, því ég er víst búin að nota allt það sem þau tíma að gefa mér. Þá er komið að því að nota foreldrana, og Guð hjálpi mér ef þau þurfa ekki að selja sálu sína til að koma einkabarni sínu í gegnum tvö ár af háskóla erlendis. Jú, til allrar hamingju á ég yndislega foreldra, sem vita hversu mikils virði þetta er fyrir mig, og vilja gera allt sem í sínu valdi stendur til að hjálpa barninu sínu. En ég er heppin, því ekki allir eiga foreldra sem geta reddað þessu eins og mínir eru að reyna. Þau þurfa að gera ýmsar ráðstafanir og fórna ýmsu, ef ekki flestu fyrir mig, því ég get ekki reitt mig á lánasjóð míns eigin lands.“

„Hvernig læt ég þetta virka? Jú, þetta virkar aðeins með hjálp foreldra minna og sumar/jólastarfa. Á meðan ég vona með öllum mætti að ná önn, fæ ég ekki eina einustu krónu frá þeim, því er ég með lán frá Landsbankanum, til að geta borgað námsgjöldin, og foreldrar mínir sjá um framfærslu, og ég nota minn pening í persónulegu eyðslu (æj, þið vitið-sportbíla, íbúð, Michael Kors töskur og fleira í þeim dúr), neibb- sorry LÍN, ég er ekki jafn rík og þið haldið að allir séu. Með persónulegri eyðslu meina ég, föt, matur, ýmis þjónusta sem étur upp aleigu þína,“ ritar Brynhildur þvínæst.

Refsað fyrir að fara í grunnnám erlendis

Brynhildur þakkar fyrir að vera einhleyp eins og staðan er:

„Ég veit ekki hvernig fjölskyldur fara að því að lifa á námslánum. Nógu erfitt finnst mér að biðja foreldra mína um pening: þvílík niðurlæging sem það er fyrir fullorðna manneskju. Nógu erfitt er að borga leigu, reikninga, mat fyrir einn einstakling. Nógu erfitt er að kaupa flugfar tvisvar á ári, því LÍN býður upp á það í reglum sínum að það nægi mér að fara einu sinni á fjórum árum heim, það dugi. Veistu LÍN, kannski það sé alveg nóg. Ríkistjórninni sem nú er við lýði er greinilega ekki nógu annt um það fólk sem heldur út í hinn stóra heim að næla sér í sérþekkingu og enn á að skera niður með fáránlegri ,,leiðréttingu“. Við lifum greinilega allt of góðu lífi í útlöndum. En ætli þetta sé ekki bara allt mér að kenna, ég ákvað að fara í grunnnám úti en ekki heima. Vonandi tekur ný og framsæknari ríkistjórn við eftir kosningar í haust sem stokkar spilin upp á nýtt.“

Brynhildur segist engu að síður staðráðin í að ljúka námi sínu.

„Já, LÍN. Þetta skal ég og aðrir íslenskir nemendur í erlendum háskólum muna þegar kemur að útskrift og að finna vinnu. Ég mun og ætla mér að útskrifast úr tuttugasta og fjórða besta háskóla í heimi, þeim sjöunda besta í Evrópu. Háskóla sem var stofnaður árið 1583. Ég skal muna á útskriftardag minn, að þið sögðuð mér að éta það sem úti frýs. Vitiði hvað? Þá megið þið líka éta það sem úti frýs, ekki langar mig að koma og vinna á landi sem reyndi að gera mér lífið leitt á þessum 4 árum sem ég fór í háskóla.

„Ég vona að það séu aðrir staðir, sem virða mig og mínar ákvarðanir í leit að betra lífi og menntun og vilja fá mig í vinnu. Þið skjótið ykkur í fótinn hvað eftir annað, en lærið aldrei. Námsmenn, erlendis sem innanlands eiga betur skilið, þar sem verið er að byggja upp framtíð landsins,-sínum þessu fólki allavegana lágmarks virðingu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Viðbúnaður vegna vélarvana flutningaskips

Viðbúnaður vegna vélarvana flutningaskips
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Bretar vilja láta Úkraínu fá nýtt ofurvopn – Myndband

Bretar vilja láta Úkraínu fá nýtt ofurvopn – Myndband
Fréttir
Í gær

Rúmlega 100 sýnendur taka þátt á Verk og vit

Rúmlega 100 sýnendur taka þátt á Verk og vit
Fréttir
Í gær

Umboðsmaður barna á móti frumvarpi um hækkun kynferðislegs lágmarksaldurs – Ekkert samráð við börnin sjálf

Umboðsmaður barna á móti frumvarpi um hækkun kynferðislegs lágmarksaldurs – Ekkert samráð við börnin sjálf