fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Ár frá skjálftanum stóra í Nepal

Níu þúsund létu lífið – Mikill árangur náðst en mikið verk eftir enn

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 26. apríl 2016 21:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í dag er um eitt ár liðið frá því að mannskæður jarðskjálfti, sem varð nærri níu þúsund manns að bana, reið yfir Nepal. Þriðjungur hinna látnu var börn. Jarðskjálftinn mældist 7,8 stig og varð hans vart um allt landið. Fjórtán héruð urðu afar illa úti og ljóst var frá fyrstu stundu að neyðaraðgerðir yrðu umfangsmiklar og uppbyggingarstarfið gríðarleg. Mikill árangur hefur náðst í hjálparstarfi á umliðnu ári en þúsundir Íslendinga studdu neyðarsöfnun UNICEF fyrir Nepal. Heimsforeldrar hafa reynst mikilvægir í uppbyggingunni.

Sumitra Thapa var ófrísk þegar jarðskjálftinn reið yfir og er hér í mæðravernd á heilsugæslu í Gorkha-héraði sem komið var á fót á hamfarasvæðinu og er studd af UNICEF.
Ófrísk í hamförum Sumitra Thapa var ófrísk þegar jarðskjálftinn reið yfir og er hér í mæðravernd á heilsugæslu í Gorkha-héraði sem komið var á fót á hamfarasvæðinu og er studd af UNICEF.

Mynd: UNICEF

„Það var gríðarlega mikilvægt að geta brugðist strax við. Miklu skiptir hversu vel fólk um allan heim tók við sér. Hér á landi styrktu þúsundir manna neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir Nepal, auk þess sem heimsforeldrar studdu neyðaraðgerðirnar. Þetta er ómetanlegt og við erum afar þakklát fyrir þennan mikla stuðning,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Meðal þess sem UNICEF hefur áorkað er að aðstoða við að reisa hátt í 1.800 tímabundna skóla, útvega 900 þúsund börnum námsgögn, en víða höfðu 90 prósent skólabygginga eyðilagst á jarðskjálftasvæðunum. Því gátu þúsundir barna mætt aftur í skóla aðeins einum mánuði eftir skjálftann. UNICEF studdi bólusetningarátak til að koma í veg fyrir mislingafaraldur sem náði til hálfrar milljónar barna undir fimm ára aldri auk þess sem 3,6 milljónir barna voru bólusettar við mænusótt. Tryggt var drykkjarhæft vatn fyrir 1,3 milljónir manna og örugg hreinlætisaðstaða. Tveimur vikum eftir fyrri skjálftann reið annar jarðskjálfti af stærðargráðunni 7,3 yfir auk hundruð minni skjálfta.

Purni Maya Gurung eldar hér í morgunskímunni í skýli sínu í Gorkha-héraði sem varð illa úti. Hún og fjölskylda hennar fengu aðstoð frá UNICEF.
Morgunverkin Purni Maya Gurung eldar hér í morgunskímunni í skýli sínu í Gorkha-héraði sem varð illa úti. Hún og fjölskylda hennar fengu aðstoð frá UNICEF.

Mynd: UNICEF

Þrátt fyrir öflugt hjálparstarf frá fyrsta degi er ljóst að umfangsmikil uppbygging er enn framundan, enda var eyðileggingin gríðarleg.

„Ástandið í Nepal er ennþá slæmt og mikil uppbygging framundan. Segja má að tímabilið fyrst eftir skjálftann hafi einkennst af fyrstu viðbrögðum við hamförunum, en nú taki við tímabil þar sem innviðir verða styrktir til framtíðar. Mikilvægt er að halda áfram og það gera heimsforeldrar okkur kleift,“ segir Bergsteinn.

Rashmi Taman og vinir hennar hlýja sér í kuldanum. Þau náðu öll að halda áfram námi í tímabundnum skóla sem UNICEF og samstarfsaðilar komu upp í kjölfar hamfaranna.
Gátu haldið áfram námi Rashmi Taman og vinir hennar hlýja sér í kuldanum. Þau náðu öll að halda áfram námi í tímabundnum skóla sem UNICEF og samstarfsaðilar komu upp í kjölfar hamfaranna.

Mynd: UNICEF

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“