fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Verkamenn í Eyjum gistu um borð í skipi

Vinna við byggingu fiskvinnsluhúss Vinnslustöðvarinnar – Fluttir á gistiheimili eftir athugasemdir

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 30. mars 2016 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Erlendir verkamenn sem unnið hafa að byggingu nýs uppsjávarfrystihúss Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum bjuggu um borð í færeyskum frystitogara um hríð í upphafi framkvæmda. Athugasemdir voru hins vegar gerðar við dvöl mannanna um borð í skipinu sem varð til þess að þeir fluttu sig um set yfir á gistiheimili í bænum. Þeir hafa hins vegar enn aðgang að skipinu og nota það meðal annars sem eins konar mötuneyti meðan þeir starfa við framkvæmdirnar á vegum Byggingarfélagsins Eyktar.

Þótti sniðug lausn

Framkvæmdastjóri Eyktar, Páll Daníel Svansson, segir að mönnum hafi fundist þetta sniðug lausn í byrjun en þeir hafi sýnt öllum ábendingum í aðra veru mikinn skilning og eftir á að hyggja hafi þær verið eðlilegar. „Þetta var kannski pínulítið vanhugsað þótt þetta væri sniðugt. Þar með var það að sjálfsögðu ekkert mál og þeir fóru inn á gistiheimili en þeir hafa enn aðgang að togaranum og um borð í honum er líkamræktarsalur og annað sem þeir nýta sér og eru mjög ánægðir með.“

Erlendir verkamenn sem gistu í færeyska frystitogaranum hafa fært sig um set yfir á gistiheimili eftir að athugasemdir voru gerðar við dvöl þeirra um borð. (Mynd úr safni)
Komast í ræktina Erlendir verkamenn sem gistu í færeyska frystitogaranum hafa fært sig um set yfir á gistiheimili eftir að athugasemdir voru gerðar við dvöl þeirra um borð. (Mynd úr safni)

Væsir ekki um menn um borð

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, segir að mennirnir hafi að undanförnu borðað um borð. „Það er hins vegar þannig að sá sem gistir um borð í fiskiskipi er í fullboðlegum vistarverum.“

Aðspurður segir Sigurgeir Brynjar að um sé að ræða færeyskan frystitogara sem eitt sinn hafi verið í eigu fyrirtækisins. „Þetta er skip sem menn búa í heilan mánuð og væsir ekki um neinn.“

Páll segir enda að athugasemdirnar sem bárust frá þeim aðilum sem hafi með málefnin að gera hafi ekki snúist um að það færi illa um menn um borð.

Tekið fyrir gistingu

„Þetta snýr kannski frekar að því hvort þeir megi gista þarna ef þeir eru ekki skráðir í áhöfn. Ég skil mjög vel, þegar maður hugsar það, að það komi svoleiðis athugasemd. Ég stakk upp á því að hitta þessa aðila frá bænum og fá að vita hverjar athugasemdir þeirra væru svo það kæmi ekki út eins og við ætluðum að vaða yfir einhvern. Því það var ekki meiningin. Okkur fannst þetta sniðugt og körlunum líka, en þeir geta nýtt sér aðstöðuna þarna en það er alveg búið að stoppa að þeir gisti þarna. Maður verður að bera virðingu fyrir því,“ segir Páll að lokum.

Framkvæmdir á fullu

Stjórn Vinnslustöðvarinnar samþykkti í byrjun árs að hefja framkvæmdir við uppbyggingu nýs uppsjávarfrystihúss, mjöl- og frystigeymslu ásamt tveimur hráefnistönkum. Eykt hóf framkvæmdir við frystihúsið í febrúar. Sigurgeir Brynjar segir framkvæmdir vera í fullum gangi og að vonir standi til að fyrsta áfanga verði lokið í haustbyrjun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu