fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Tólf menn fengu 140 ára dóm

Nauðguðu 13 ára stúlku ítrekað um 13 mánaða skeið

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 9. febrúar 2016 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tólf menn hafa í Bretlandi verið dæmdir fyrir hrottafullar nauðganir stúlku þegar hún var 13 og 14 ára. Daily Mail greinir frá þessu. Mennirnir nauðguðu henni ítrekað og í eitt skiptið fimm í röð. Mennirnir tólf hafa samtals verið dæmdir til 140 ára fangelsisvistar fyrir athæfið.

Bradford Crown Court dæmdi ellefu þeirra fyrir nauðgun en þann tólfta fyrir að taka þátt í kynferðislegum athöfnum með barni yngra en 16 ára. Árásirnar áttu sér stað yfir 13 mánaða tímabil árin 2011 og 2012 en mennirnir eru, að sögn Daily Mail, allir af suðurasískum uppruna.

Ekki vottur af manngæsku

Ofbeldið átti sér stundum stað í bílastæðahúsi, neðanjarðar, þar sem nafn fórnarlambsins hafði verið rissað á veggina, sem og orðið „coroner“ eða dánardómstjóri. Dómarinn, Roger Thomas, sagði fyrir dómi að hegðun þeirra í réttarhöldunum væri sú versta sem hann hefði upplifað á fjörutíu ára lögmannsferli sínum. Hegðunin endurspeglaði raunar virðingarleysi og framkomu þeirra gagnvart stúlkunni. Þeir hefðu fyrir dómi sýnt af sér svo óviðeigandi og hrokafulla hegðun að hann hafi aldrei upplifað annað eins.

Dómarinn sagði að gagnvart stúlkunni hefðu þeir aldrei sýnt vott af manngæsku. Þeir hafi aðeins litið á hana sem hlut sem þeir gætu nýtt til að svala fýsnum sínum.

Í yfirlýsingu frá stúlkunni sem lesin var upp fyrir dómi kom fram að hún þjáist bæði af þunglyndi og áfallastreituröskun. Hún eigi erfitt með að treysta fólki og það liti allt hennar líf. Hugmyndir hennar um samskipti og sambönd séu bjagaðar eftir misnotkunina. Hún glími við miklar skapsveiflur og hafi engin verkfæri til að halda sér í andlegu jafnvægi.

Flestir með brotasögu

Fyrir dómi kom fram að foringi hópsins, Ahmed Al-Choudhury, sem hýsti flestar árásirnar, hefði flúið til Bangladess. Flestir mannanna áttu sér langa og fjölbreytta afbrotasögu. Einn mannanna, Khalid Raja Mahood, situr þegar inni fyrir að hafa nauðgað 43 ára gamalli konu auk þess sem hann hlaut dóm fyrir að reyna að svipta barn frelsi.

Fram kom fyrir dómi að Mahmood hafi fyrstur narrað til sín stúlkuna í kynferðislegum tilgangi. Það hafi hann gert með hjálp áfengis og eiturlyfja.

„Við erum ánægð með að þessir menn hafi núna verið dæmdir fyrir þessa hræðilegu glæpi sína,“ hefur Daily Mail eftir Nicola Bryar, þeim sem fór fyrir rannsóknarteyminu sem annaðist málið.

Mennirnir fengu flestir á bilinu 12 til 15 ára fangelsisdóm. Khalid Raja Mahood fékk 17 ára dóm.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt