fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Gamli Straumur greiddi yfir 20 starfsmönnum þúsundir milljóna í bónus

ALMC greiddi bónusinn í desember – Var áætlaður 3,3 milljarðar – Hæstu greiðslurnar nema hundruðum milljóna – Kom sér hjá stöðugleikaskatti

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 16. febrúar 2016 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslenska eignaumsýslufélagið ALMC, áður Straumur-Burðaráss fjárfestingabanki, hefur innt af hendi milljarða króna í bónusgreiðslur til um 20-30 núverandi og fyrrverandi starfsmanna félagsins. Voru bónusarnir, sem áætlað var í ársbyrjun 2015 að myndu nema samtals 23 milljónum evra, jafnvirði 3,3 milljarða íslenskra króna, greiddir út um miðjan desembermánuð á síðasta ári, samkvæmt heimildum DV.

Stærstur hluti bónusgreiðslnanna fór til aðeins nokkurra lykilstjórnenda ALMC og fengu þeir hver um sig jafnvirði mörg hundruð milljóna króna í sinn hlut. Þar er meðal annars um að ræða þá Óttar Pálsson, hæstaréttarlögmann hjá LOGOS og stjórnarmann í ALMC, og Jakob Ásmundsson, fyrrverandi forstjóra Straums fjárfestingabanka, en hann gegndi starfi fjármálastjóra ALMC fram til ársins 2013. Ljóst er að um er að ræða langsamlegu hæstu bónusgreiðslur sem greiddar hafa verið af íslensku félagi allt frá falli fjármálakerfisins haustið 2008. Að meðaltali námu bónusgreiðslurnar um 100 milljónum á starfsmann. Sumir fengu hins vegar mun meira, aðrir talsvert minna.

Jakob Ásmundsson er í hópi þeirra sem fá hæstu bónusgreiðslurnar frá ALMC.
Fyrrverandi forstjóri Straums Jakob Ásmundsson er í hópi þeirra sem fá hæstu bónusgreiðslurnar frá ALMC.

5 milljarða stöðugleikaframlag

Voru bónusarnir greiddir út skömmu eftir að stjórn ALMC hafði fallist á að borga stöðugleikaframlag til íslenskra stjórnvalda og þannig komast hjá því að þurfa að greiða 39% stöðugleikaskatt af eignum félagsins. Miðað við að þær eignir námu 917 milljónum evra, jafnvirði um 130 milljarða króna, í árslok 2014 þá hefði ALMC þurft að greiða um 50 milljarða í stöðugleikaskatt til ríkisins. Stöðugleikaframlag ALMC til stjórnvalda nam hins vegar um 5 milljörðum og fólst í greiðslu reiðufjár í krónum og framsali innlendra krafna. Samkvæmt heimildum DV hafði greiðsla stöðugleikaframlagsins engin teljandi áhrif á þá fjárhæð sem ALMC hafði gjaldfært hjá sér fyrir ríflega ári síðan vegna fyrirhugaðrar bónusgreiðslu til starfsmanna.

Fullvíst má telja að ekkert hefði orðið af milljarða bónusgreiðslum ALMC ef félagið hefði þurft að greiða stöðugleikaskatt í stað stöðugleikaframlags. Stjórnendur ALMC höfðu gagnrýnt harðlega að skatturinn væri látinn ná til félagsins enda töldu þeir að starfsemi þess ætti engan þátt í þeim greiðslujafnaðarvanda sem frumvarp fjármálaráðherra um stöðugleikaskatt var ætlað að leysa. Í bréfi sem Reimar Pétursson, lögmaður ALMC, sendi efnahags- og viðskiptanefnd í júlí árið 2015, kom fram að félagið hyggðist höfða mál á hendur ríkinu vegna skattsins, ef þess myndi gerast þörf, til að verja hagsmuni sína.

Baðst afsökunar á tillögum um milljarða bónusa árið 2009

Óttar Pálsson

Óttar Pálsson

Talsvert fjölmiðlafár varð sumarið 2009 þegar upplýst var um tillögur sem gerðu ráð fyrir milljarða bónusgreiðslum til lykilstarfsmanna gamla Straums, að því gefnu að ný stjórn félagsins myndi samþykkja þær að loknum nauðasamningum. Var rætt um að bónusgreiðslurnar gætu orðið allt að tíu milljarðar króna. Stjórnendur gamla Straums ítrekuðu á þeim tíma hins vegar að aðeins væri um að ræða óformlegar hugmyndir og það kæmi til kasta nýrrar stjórnar að taka ákvörðun um slíkt fyrirkomulag.

Óttar Pálsson, sem þá gegndi starfi forstjóra Straums-Burðaráss fjárfestingabanka, skrifaði af því tilefni grein í Morgunblaðið þann 21. ágúst árið 2009 – undir fyrirsögninni „Lögðum rangt mat á veruleikann“ – þar sem hann baðst afsökunar á óformlegum hugmyndum um bónusgreiðslur upp á allt að tíu milljarða króna til lykilstarfsmanna félagsins. „Í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað undanfarna daga er ég ekki í nokkrum vafa um að ég og aðrir sem að endurskipulagningunni koma hefðum átt að gefa aðstæðum hér á landi betri gaum,” sagði Óttar í greininni.

Þá nefndi Óttar að sem starfandi forstjóri félagsins bæri hann „ríka ábyrgð á því sem frá félaginu kemur og biðst [því] afsökunar, fyrir eigin hönd og félagsins, á að þær forsendur sem áætlanir mínar og annarra stjórnenda voru reistar á hafi einblínt um of á erlendar aðstæður og ekki verið í nægjanlegum tengslum við þann veruleika sem við Íslendingar búum nú við sem þjóð.”

Bónuskerfið samþykkt 2011

Ákvörðun um kaupaukagreiðslur (e. long term incentive plan) til lykilstarfsmanna, eins og DV upplýsti fyrst um í forsíðufrétt þann 19. maí í fyrra, byggir á samþykkt hluthafa á aðalfundi ALMC frá árinu 2011. Á þann fund voru meðal annars mættir fulltrúar íslenskra félaga og lífeyrissjóða sem áttu hagsmuna að gæta sem hluthafar í ALMC. Markmið kaupaukakerfisins var að halda í lykilstjórnendur og starfsmenn félagsins þannig að endurheimtur eigenda skuldabréfa ALMC yrðu hámarkaðar. Fjárhæðin sem ALMC gjaldfærði í árslok 2014 vegna bónusgreiðslna nam samtals 22,83 milljónum evra. Reiðufé félagsins var þá 535 milljónir evra, og hafði stóraukist á árinu 2014 vegna sölu á ýmsum eignum, á meðan bókfært virði þeirra eigna sem enn átti eftir að selja nam tæplega 300 milljónum evra. Ársreikningur fyrir árið 2015 hefur enn ekki verið birtur en á meðal eigna sem félagið seldi á síðasta ári voru eignarhlutir í íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu LS Retail og enska knattspyrnufélaginu West Ham United.

Af þeim um það bil 20–30 núverandi og fyrrverandi starfsmönnum ALMC sem fengu slíkar bónusgreiðslur undir lok síðasta árs er meirihluti þeirra erlendir aðilar, samkvæmt upplýsingum DV. Hins vegar er einnig um að ræða Íslendinga sem hafa starfað fyrir bæði ALMC og Straum fjárfestingabanka á undanförnum árum. Straumur sameinaðist sem kunnugt er MP banka um mitt síðasta ár og fékk sameinað félag skömmu síðar nafnið Kvika fjárfestingabanki. Eignaumsýslufélagið ALMC varð til í kjölfar þess að kröfuhafar Straums-Burðaráss, sem fór í greiðslustöðvun í mars 2009, samþykktu nauðasamninga sumarið 2010 og fengu þá um leið yfirráð í félaginu. Á þeim tíma áttu íslenskir aðilar, að mestu ýmsir lífeyrissjóðir, um þriðjungshlut í ALMC en þeir seldu sig fljótlega út úr félaginu og í dag eru eigendur þess nánast einungis alþjóðlegir fjárfestingasjóðir.

Hagnast um hundruð milljóna vegna umsýslu eigna fyrir ALMC

Gísli Valur Guðjónsson

Gísli Valur Guðjónsson

Þrátt fyrir að vera ekki hluti af bónuskerfi ALMC þá hafa þeir Gísli Valur Guðjónsson og Brynjar Þór Hreinsson, tveir fyrrverandi starfsmenn eignaumsýslufélagsins, fengið greitt mörg hundruð milljónir króna vegna ráðgjafarstarfa sinna fyrir félagið. Þannig var greint frá því í DV í september á síðasta ári að samlagsfélagið Actima Partners, sem er í eigu Gísla Vals og Brynjars Þórs, hafi fengið nærri 400 milljónir króna í þóknanagreiðslur fyrir umsýslu eigna ALMC á árunum 2013 og 2014. Greiddu þeir sér út yfir 200 milljónir króna í arð úr félaginu á þessu tímabili.

Á undanförnum árum hafa þeir setið í stjórnum fjölmargra dótturfélaga ALMC. Félagið Actima Partners, sem er með ráðgjafarsamning við ALMC, var stofnað á seinni hluta ársins 2012 en fram að því höfðu þeir Gísli Valur og Brynjar Þór verið fastráðnir starfsmenn í eignaumsýslu ALMC.

Þær gríðarlega háu þóknanir sem þeir hafa fengið vegna ráðgjafarstarfa sinna fyrir að halda utan um ýmsar eignir ALMC hafa komið á sama tíma og Gísli Valur og Brynjar Þór hafa verið starfsmenn Straums fjárfestingabanka og síðar Íslenskra verðbréfa þar sem þeir starfa í dag sem forstöðumenn sérhæfðra fjárfestinga.

Bónusar bætast við há stjórnarlaun

Á meðal þeirra sem fá bónusgreiðslur frá ALMC eru stjórnarmenn og framkvæmdastjóri félagsins. Auk Óttars Pálssonar er þar um að ræða Christopher Perrin, stjórnarformann ALMC, og Andrew Bernhardt, en hann var einnig um tíma framkvæmdastjóri félagsins. Bónusgreiðslur til handa stjórnarmönnum ALMC koma til viðbótar við gríðarlega há laun sem þeir hafa fengið fyrir setu í stjórn félagsins á undanförnum árum. Þannig námu greiðslur ALMC til þriggja manna stjórnar félagsins samtals 943 þúsund evrum, jafnvirði um 140 milljónir króna, á árinu 2014. Að meðaltali námu stjórnarlaunin því um 46,5 milljónum króna á mann sem gerir tæplega 3,9 milljónir á mánuði. Framkvæmdastjóri ALMC undanfarin tvö ár hefur verið Svíinn Daniel Svanström og námu laun hans 573 þúsund evrum árið 2014.

Óttar tók við starfi forstjóra Straums-Burðaráss eftir að félagið óskaði eftir greiðslustöðvun í marsmánuði 2009. Hann stýrði félaginu í gegnum nauðasamninga sumarið 2010 og tók í kjölfarið sæti í stjórn ALMC. Rétt eins og áður hefur verið fjallað um á síðum DV þá var Óttar mikilvægasti ráðgjafi kröfuhafa slitabúa föllnu bankanna. Óttar, sem er lýst sem einstaklega færum lögmanni, gegndi þannig lykilhlutverki við að fá helstu kröfuhafa Glitnis og Kaupþings til að fallast á þau stöðugleikaskilyrði sem íslensk stjórnvöld kynntu þeim á vormánuðum síðasta árs sem var forsenda þess að slitabúin gætu lokið skuldaskilum sínum með nauðasamningum. Óttar mun taka sæti í fimm manna stjórn eignarhaldsfélagsins Kaupþings, eins og sagt var frá í DV í fyrra, en það félag mun halda utan um óseldar eignir slitabúsins að fjárhæð hundruð milljarða. Fyrsti hluthafafundur hins nýja félags verður haldinn í lok þessa mánaðar.

Á meðal þeirra lykilstjórnenda sem fengu langsamlega hæstu bónusgreiðslurnar frá ALMC, samkvæmt heimildum DV, eru Andrew Bernhardt, Óttar Pálsson, Jakob Ásmundsson og Christopher Perrin. Jakob var sem fyrr segir fjármálastjóri hjá ALMC, samhliða störfum sínum hjá Straumi fjárfestingabanka, en lét hins vegar af því starfi þegar hann tók við starfi forstjóra Straums af Pétri Einarssyni í ársbyrjun 2013. Til stóð að hann yrði annar af tveimur forstjórum sameinaðs félags MP banka og Straums en stuttu eftir að DV upplýsti í maí 2015 um fyrirhugaðar bónusgreiðslur til starfsmanna ALMC var tilkynnt að Jakob myndi láta af störfum hjá bankanum.

Jeremy Lowe stýrir umsvifum Davidson Kempner á Íslandi en sjóðurinn er meðal annars í hópi stærstu hluthafa ALMC.
Kröfuhafi Íslands Jeremy Lowe stýrir umsvifum Davidson Kempner á Íslandi en sjóðurinn er meðal annars í hópi stærstu hluthafa ALMC.

Engar reglur um bónusgreiðslur

Aðrir Íslendingar sem voru hluti af kaupaukakerfi ALMC eru meðal annars Birna Hlín Káradóttir, yfirlögfræðingur Fossa markaða, og Magnús Ingi Einarsson, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Kviku fjárfestingabanka. Birna Hlín var áður yfirlögfræðingur Straums fjárfestingabanka og ALMC. Hefur hún setið í stjórnum fjölmargra félaga á vegum ALMC á undanförnum árum. Magnús Ingi var áður forstöðumaður fjárstýringar Straums en vann einnig um tíma fyrir ALMC samhliða störfum sínum fyrir fjárfestingabankann. Þá voru þau Anna Rut Ágústsdóttir, forstöðumaður viðskiptatengsla hjá Kviku fjárfestingabanka, og Sigurjón H. Ingólfsson, sérfræðingur á fjármála- og rekstrarsviði hjá Kviku, einnig í hópi þeirra sem áttu að fá bónusgreiðslur frá ALMC. Þau störfuðu um árabil fyrir ALMC en bónusgreiðslur til þeirra, eftir því sem DV kemst næst, eru aðeins lítið brot af því sem helstu núverandi og fyrrverandi lykilstjórnendur ALMC fengu í sinn hlut.

Ólíkt því sem á við um íslensk fjármálafyrirtæki, sem mega ekki greiða meira en sem nemur 25% af árslaunum starfsmanna sinna í kaupauka, þá gilda engar slíkar reglur um hámark á bónusgreiðslur til starfsmanna eignaumsýslufélags á borð við ALMC. Bónusar til starfsmanna ALMC í desember á síðasta ári voru greiddir út í evrum. Fyrir þá Íslendinga sem fengu slíka bónusa þurfa þeir að greiða 46,25% tekjuskatt eins og um sé að ræða launatekjur. Skattgreiðslur til ríkissjóðs vegna bónusgreiðslna ALMC nema því að minnsta kosti hundruðum milljóna króna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum
Fréttir
Í gær

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mætti tveimur rottum í Skeiðarvoginum í morgun

Mætti tveimur rottum í Skeiðarvoginum í morgun
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis