fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

„Við drepum þá samt“

Veiðiþjófum er engin miskunn sýnd í Kenía – Þungvopnaðar sveitir vakta nashyrninga allan sólarhringinn

Ritstjórn DV
Föstudaginn 12. febrúar 2016 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nítján veiðiþjóðfar hafa undanfarin misseri verið skotnir til bana á náttúruverndarsvæðinu í Borana í Kenía. Til róttækra aðgerða var gripið til þess að freista þess að sporna við veiðiþjófnaði á nashyrningum. Dýrin hafa um árabil verið skotin vegna þeirrar trúar ríkra Asíubúa að hornin hafi lækningamátt. BBC fjallar um málið á vef sínum.
Blaðamaður BBC slóst í för með hópi landvarða sem hafa það hlutverk að tryggja öryggi nashyrninga. Honum var kalt. „Ég ligg hér í blautu grasinu með þremur þungvopnuðum Keníamönnum. Í 100 metra fjarlægð standa þrír nashyrningar. Þeir sjá okkur ekki. Með þremur skotum gætu mennirnir tryggt sér heil árslaun,“ skrifar hann á BBC.

En það gera þeir ekki. Mennirnir eru sérþjálfaðir og hluti af nokkurs konar herdeild sem haldið er úti til að vernda dýr fyrir veiðiþjófum. Blaðamaður spyr einn þeirra hvað hann myndi gera ef hann sæi einhver vin sinn eða nágranna á veiðum. Svarið er fortakslaust: „Ef hann er hér til að drepa nashyrning er hann að ræna samfélagið. Og þá skýt ég hann til bana.“

Urðu að finna nýjar aðferðir

Eitt sinn voru nashyrningar í Kenía um 200 þúsund talsins. Á miðjum níunda áratugnum var sú tala komin niður í 200 dýr en með tilkomu verndarsvæða hefur fjöldinn aukist á nýjan leik. Nú eru um 600 nashyrningar á svæðinu.
Í Lewa og Borana er eitt þessara verndarsvæða. Það er um 345 ferkílómetrar að stærð – eins og fjögur Þingvallavötn. Nashyrningar, bæði hvítir og svartir, eru berskjaldaðir á landinu en það var áður nýtt sem beitiland. Nashyrningum var sleppt á svæðið árið 1984 en veiðiþjófar komust á snoðir um það. „Við misstum 17 nashyrninga af 90 sem við slepptum,“ hefur BBC eftir Michael Dyer frá Borana. Þeir máttu sín lítils gegn þungvopnuðum og snjöllum veiðiþjófum. „Við urðum að finna nýjar aðferðir.“

Heimamenn hafa sagt veiðiþjófum stríð á hendur og skjóta þá miskunnarlaust, ef þeir eltast við nashyrninga. Það er kostnaðarsamt en ber sýnilegan árangur.
Hart mætir hörðu Heimamenn hafa sagt veiðiþjófum stríð á hendur og skjóta þá miskunnarlaust, ef þeir eltast við nashyrninga. Það er kostnaðarsamt en ber sýnilegan árangur.

Mynd: EPA

19 veiðiþjófar felldir

Dyer réð fyrrverandi sérsveitarmann úr breska hernum til að setja saman og þjálfa litla herdeild. Hann veitti þeim leyfi til að drepa veiðiþjófa með því að skrá sveitina sem heimavarnarlið Kenía. „Þeir vinna í fjögurra manna hópum en hver hópur samanstendur af leyniskyttu, tveimur riffilskyttum og merkjamanni,“ segir Dyer. „Þeir eru búnir nætursjónauka og stafrænum talstöðvum og geta, ef þörf krefur, kallað eftir liðsauka af landi eða úr lofti.“
Sveitin hefur 102 nashyrninga undir sínum verndarvæng. Og þeir ganga alla leið. Í stað þess að handataka menn sem eltast við nashyrninga, eða bjóða þeim að leggja niður vopnin, skjóta þeir þá einfaldlega. Fram kemur á BBC að í fæstum tilvikum viti veiðiþjófarnir hvaðan á þá stendur veðrið, en 19 veiðiþjófar hafa eins og áður segir fallið.
Haft er eftir Dyer að þetta sé öruggasta leiðin til að eiga við veiðiþjófana, sem annars yrðu dæmdir í 25 ára fangelsi. „Tæknilega séð eigum við að bjóða þeim að gefast upp, en það gerist yfirleitt ekki fyrr en þeir eru orðnir óvígir.“

Hver á að vernda þá?

Eftir miklu er að slægjast. Fyrir níu kílóa horn fær veiðiþjófur 2,1 milljón króna. Í Hanoi í Víetnam er götuverðið 57 milljónir króna. Þeir hafa því ekki gefist upp þrátt fyrir að í fyrra hafi enginn nashyrningur í Lewa verið felldur. Í Borana var einn skotinn, í júlí.

Blaðamaður spyr hvort það sé siðferðilega verjandi að skjóta veiðiþjófa til bana – og hvort það sé löglegt. Dyer gefur lítið fyrir spurninguna. „Nashyrningarnir hafa verið á þessari jörð í fimm milljónir ára. Hver á að vernda þá, ef ekki við?“

„Ef hann er hér til að drepa nashyrning er hann að ræna samfélagið. Og þá skýt ég hann til bana.“

Blaðamaður segir að samfélagið virðist taka undir með Dyer. „Veiðiþjófar eru vondar manneskjur,“ hefur hann eftir fjárhirði. „Við sjáum þá stundum í bænum. Fátækir menn sem verða skyndilega ríkir. Þeir fá ekki að eyða peningunum sínum hér heldur eru flæmdir á brott.“

Veiðiþjófarnir hopa

Sums staðar í heiminum, svo sem í Asíu, trúir fólk því – þvert á staðreyndir – að efnið í hornunum hafi lækningamátt. Það geti læknað allt frá þynnku til krabbameins. Það að eiga nashyrningshorn er auk þess nokkurs konar stöðutákn.
Skotið sem felldi nashyrninginn í júlí situr enn í sveitinni. „Við heyrðum skotið,“ segir liðþjálfinn. „En við vissum ekki hvaðan það kom. Þegar við fundum hræið voru þeir horfnir á braut.“ Hann segir þó að ekki sé víst að fleiri skotum verði hleypt af í átt að nashyrningum á svæðinu. „Veiðiþjófarnir eru farnir að læra. Núna eru þeir farnir að nota boga og eitraðar örvar.“
Blaðamaður spyr hvort það þýði að auðveldara sé að handtaka veiðiþjófana. Liðþjálfinn hristir höfuðið. „Við drepum þá samt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pétur Einarsson látinn
Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi