fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Árni Páll: „Öll, ekki bara sum“

Boðar uppgjör innan Samfylkingarinnar – Stór mistök í veigamiklum málum

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Fimmtudaginn 11. febrúar 2016 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að flokkurinn þurfi að gera upp veigamikil mistök sem gerð hafa verið á undanförnum árum. Þar þurfi allir að taka ábyrgð, en ekki bara sumir. Hann er afar gagnrýninn á ákvarðanir flokksins í veigamiklum málum á síðasta kjörtímabili og nefnir þar Icesave, ESB-umsóknina og skuldamál heimilanna.

Þetta kemur fram í bréfi sem Árni Páll sendir flokksmönnum sínum sem skrifað er í tilefni þess að framkvæmdastjórn flokksins ákvað í gær að halda landsfund í sumar þar sem kosið verður um nýja forystu.

Sjálfur segir Árni Páll að það skipti engu hver verður formaður Samfylkingarinnar ef flokkurinn horfist ekki í augu við sjálfan sig og hvernig hann kemur fram og nálgast fólkið í landinu.

„Við tökum ekki á rót vandans með mannfórn, án heiðarlegrar umræðu um orsakir þessarar stöðu.“

Árni Páll segir, þrátt fyrir tal um annað, að Samfylkingin hafi leyst stór verkefni á síðasta kjörtímabili. Hún hafi tekist á við 220 milljarða halla á ríkissjóði, bankakerfi á hliðinni, 18 prósenta stýrivexti og gríðarlegt atvinnuleysi. Árangurinn sé eitthvað til að vera stoltur af.

Þrátt fyrir góð verk hafi flokkurinn ekki notið þeirra í síðustu Alþingiskonsingum og það gerir hann heldur ekki nú.

„Við búum við alvarlegan skort á trúverðugleika, sem kemur í veg fyrir að fólk styðji okkur. Við verðum að viðurkenna það og takast á við það. Öll, ekki bara sum.“

Árni Páll viðurkennir að flokkurinn hafi gert mistök, allt frá því hann gekk í ríkisstjórn árið 2007. Hann hafi gengið inn í valdakerfi hinna gömlu flokka. Nefnir hann mistök í umdeildum málum á síðasta kjörtímabili.

Kjarninn okkar Við misstum það nána samband sem við höfðum haft við verkalýðshreyfinguna og talsambandið við atvinnulífið.

Icesave Við studdum samning um Icesave sem varði ekki ítrustu hagsmuni þjóðarinnar og mæltum gegn þjóðaratkvæðagreiðslu um hann.

Aðildarumsóknin Við byggðum aðildarumsókn að ESB á flóknu baktjaldasamkomulagi, sem aldrei hélt, í stað þess að fá skýrt umboð frá þjóðinni til að fara í aðildarviðræður, sem hefði bundið alla flokka við umsóknarferlið.

Skuldir heimilanna Þegar fólk var að drukkna í skuldafeni tókum við að okkur í of ríkum mæli að útskýra fyrir fólki að það ætti að borga skuldir sínar, í stað þess að taka okkur stöðu með fólki gegn fjármálakerfi.

Fiskveiðistjórnunin Við lofuðum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfi en týndum okkur í langvinnum samningum fyrir luktum dyrum við samstarfsflokkinn um útfærslur á breytingum, sem strönduðu svo hver á eftir annarri. Þess í stað hefðum við sem lýðræðisflokkur átt að leita til almennings um stuðning í glímunni við sérhagsmunaöflin.

Stjórnarskráin Við höfðum forgöngu um stjórnarskrárbreytingar, en drógum það alltof lengi að áfangaskipta verkefninu til að koma mikilvægustu breytingunum í höfn. Ég tók um síðir af skarið, en í stað þess að samtalið væri lifandi og allt uppi á borðum var upplifun fólks sú að ég hefði brugðist og fórnað málinu og allt hefði klúðrast.

Þetta þarf allt saman að ræða, segir Árni Páll, jafnt hans verk og allra annarra. Markmiðið sé ekki að finna sökudólg, heldur að axla sameiginlega ábyrgð á sameiginlegum mistökum. Þjóðin þurfi að vita að Samfylkingin hafi lært af eigin mistökum.

„Við höfum nefnilega sem hreyfing og samfélag ítrekað misst af tækifærinu til að axla sameiginlega ábyrgð á mistökum, en frekar kosið að fórna einstaklingum til að koma öðrum í skjól. Ingibjörg Sólrún baðst afsökunar á sínum hlut. Sú afsökunarbeiðni átti að vera okkur fagnaðarefni og tækifæri til að auðvelda flokknum að takast á við mistök í þeirri ríkisstjórn. Í staðinn var sú afsökunarbeiðni nýtt sem syndakvittun fyrir aðra. Flokkurinn tók ekki félagslega ábyrgð á prófkjörum sem hann hafði efnt til, heldur fórnaði Steinunni Valdísi einni. Framgangan í Landsdómsmálinu og fórn Steinunnar Valdísar hafa skilið eftir djúp sár um alla okkar hreyfingu og sáð fræjum efasemda um að við séum samhent sveit sem axli saman félagslega ábyrgð á mistökum sem við gerum saman.“

Að lokum segir Árni Páll að hann muni tilkynna um hvort hann bjóði sig fram að nýju eftir að þetta uppgjör hafi farið fram.

„Við þurfum núna að eiga samtal um þetta allt, til að skapa sátt og traust. Við eigum að gera það sjálf, en líka kalla til leiks fólk sem er hætt að starfa með okkur eða er á jaðri flokksins. Við þurfum að funda um allt land og allir eiga að fá rödd í þessari umræðu. Það eina sem ég bið um er að við gerum þetta af heilindum. Ég mun helga mig því verkefni næstu vikur að greiða fyrir þessari umræðu og taka fullan þátt í henni. Seinna mun ég svo taka afstöðu til þess hvort ég gefi kost á mér á nýjan leik sem formaður flokksins.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Jólaskotárásin á Hvaleyrarholti – Faðirinn skýldi 9 ára dóttur sinni fyrir skothríðinni

Jólaskotárásin á Hvaleyrarholti – Faðirinn skýldi 9 ára dóttur sinni fyrir skothríðinni
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“
Fréttir
Í gær

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“
Fréttir
Í gær

Ásdís Rán komin með lágmarksfjölda meðmælenda – „Þetta var auðveldara fyrir hina“

Ásdís Rán komin með lágmarksfjölda meðmælenda – „Þetta var auðveldara fyrir hina“