fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Skeifuslagurinn: Hópar frá Austur-Evrópu – Ekki glæpaklíkur

Rannsókn málsins enn á frumstigi – Hóparnir hugsanlega tengdir erlendri glæpastarfsemi hér á landi

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 10. febrúar 2016 14:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hóparnir sem slógust með vopnum í Skeifunni síðastliðinn laugardag voru báðir frá Austur-Evrópu. Samkvæmt heimildarmanni DV samanstóð annar hópurinn af mönnum frá Litháen og hinn frá Rússlandi.

Greint var frá því í Morgunblaðinu í gær að hópslagsmálin, sem hátt í 30 manns tóku þátt í, hafi verið á milli tveggja erlendra hópa af sitt hvoru þjóðerni. Þar var haft eftir Friðriki Smára Björgvinssyni, yfirlögregluþjóni, sem sagði að „eitthvert atvik sem átti sér stað fyrir nokkrum dögum var kveikjan að málinu.“

Sjá einnig: Tveir hópar af erlendu þjóðerni slógust í Skeifunni: „Atvik sem átti sér stað fyrir nokkrum dögum var kveikjan að málinu“

DV ræddi við Friðrik Smára í dag sem sagði að rannsókn málsins væri á frumstigi. Friðrik gat ekki greint frá þjóðerni manna né gefið upp hver kveikjan að málinu hefði verið.

Samkvæmt heimildarmanni DV, sem þekkir vel til í undirheimunum, er ekki um átök á milli tveggja erlendra glæpagengja að ræða. Svo virðist sem að slagsmálin hafi ekki verið skipulögð.

Þau hafi atvikast eftir að einstaklingur kallaði til vini sína til að ráðast á annan mann sem hann sá hann fyrir utan Rúmfatalagerinn í Skeifunni, en mennirnir höfðu átt í deilum.

Sá maður kallaði einnig eftir aðstoð sinna vina og þannig hafi slagsmál á milli hópanna hafist.

Eins og DV greindi frá urðu fjölmargir vitni að átökunum, þar á meðal börn. Þá hefur einnig komið fram að einstaklingar hafi notað hafnaboltakylfu, hamar og hníf í átökunum.

Slagsmálunum lauk svo eftir að lögreglan mætti á vettvang og voru fjórir handteknir.

Þó ekki hafi verið um tvö erlend glæpagengi að ræða hefur DV þó heimildir fyrir því að aðilar í báðum hópum tengist erlendri glæpastarfsemi hér á landi.

Í mati ríkislögreglustjóra á skipulagðri glæpastarfsemi, frá því í september í fyrra, segir að hér á landi séu starfandi glæpahópar sem eiga rætur að rekja til Mið- og Austur-Evrópu og Austur-Asíu.

Þar segir að takmarkaðar rannsóknir hafi farið fram seinni ár hvað varðar erlenda afbrotahópa.

„Brotastarfsemi erlendra hópa telst því að verulegum hluta falin og lítt þekkt,“ segir í matinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Meira en 10.000 kynsjúkdómatilfelli greind á Íslandi síðan 2020 – Sjáðu hvaða kynsjúkdómur er algengastur

Meira en 10.000 kynsjúkdómatilfelli greind á Íslandi síðan 2020 – Sjáðu hvaða kynsjúkdómur er algengastur
Fréttir
Í gær

Seesaw-deilur Reykjavíkur og Persónuverndar beint í Hæstarétt

Seesaw-deilur Reykjavíkur og Persónuverndar beint í Hæstarétt