fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Gætu lagt fram tillögu um ESB-aðild

Þing kemur saman í dag – Þingmenn geta lagt fram hvaða þingmál sem er

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 6. desember 2016 07:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Alþingi verður sett í dag, þriðjudag, við óvenjulegar aðstæður. Ekki hefur enn tekist að mynda ríkisstjórn eftir síðustu alþingiskosningar og því er enginn eiginlegur stjórnarmeirihluti starfandi á Alþingi. Það gerir það líka að verkum að ekki er augljóst hvern þingmenn geta hugsað sér til að gegna embætti forseta Alþingis, en hann hefur án undantekninga verið þingmaður ríkisstjórnarflokks.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, mun hins vegar taka við embætti forseta Alþingis við þingsetningu í dag. Er það í samræmi við ákvæði þingskapa um að sá þingmaður sem lengsta þingsetu hafi á bak við sig stjórni fundinum, þar til forseti þingsins er kosinn. Steingrímur var fyrst kosinn á þing árið 1983 og er því langreynslumesti þingmaður Alþingis.

Ekki nauðsynlegt að kjósa forseta strax

Steingrímur segir að það sé ekki endilega þannig, sé horft til þingskapa, að nauðsynlegt sé að kjósa þingforseta strax við þingsetningu í dag. „Það má alveg hugsa sér að þeirri kosningu verði frestað. Í raun og veru er hægt að taka allt á dagskrá sem á að gera á fyrsta degi en svo hægt að fresta, til dæmis nefndakosningu. Hún hefur ekki alltaf farið fram fyrsta daginn, stundum hafa menn hreinlega ekki verið tilbúnir með tillögur að nefndaskipan. Það verður hins vegar að vera einhver stjórn yfir þinginu. Menn hafa svo sem velt því upp að aldursforseti geti leyst það í einhverja daga en það er nú tæplega viðeigandi til lengri tíma. Samkvæmt þingsköpum og stjórnarskrá er honum aðeins ætlað þetta hlutverk við þingsetningu þannig að þetta yrði alltaf bara stutt, ef til þess kemur.“

„Menn hafa svo sem velt því upp að aldursforseti geti leyst það í einhverja daga.“

Til að þing geti tekið til starfa þarf að byrja á því að kjósa níu þingmenn í kjörbréfanefnd. Sú nefnd skal sannreyna hvort kosning þingmanna og varaþingmanna sé gild og gera tillögu þar um fyrir þingið. Samþykki þingið þá tillögu, sem ljóst má vera að gerist í dag, þurfa nýir þingmenn því næst að vinna drengskaparheit að stjórnarskránni. Fyrr mega þeir ekki taka þátt í störfum þingsins. Næstu verkefni sem venja er til að þingið sinni á þingsetningardegi eru kosning forseta og forsætisnefndar, kosning þingnefnda og alþjóðanefnda sem og að skipa í nefndir sem fylgja kjörtímabilum, til að mynda til bankaráðs Seðlabankans.

Kjósa verður í fjárlaganefnd

„Það liggur nokkuð ljóst fyrir að kjósa verður í fjárlaganefnd og í efnahags- og viðskiptanefnd á fyrstu dögunum, sökum þess að fjallað verður um fjárlagafrumvarp í þeim. Það liggur hins vegar ekki margt fyrir sem þarf nauðsynlega að klára fyrir áramótin. Það er mögulegt að það verði að kjósa í allsherjarnefnd fyrir áramót og þá er einhver einn fundur í alþjóðanefnd sem þarf að sinna í desember. Hins vegar verður að kjósa mjög fljótlega í nokkrar stjórnir sem eru þess eðlis að embættisbréf þeirra fylgja kjörtímabilum. Þannig þarf að kjósa í nýtt bankaráð Seðlabankans og í Þingvallanefnd til dæmis. Það þarf ekki að gera það á fyrsta degi en það verður að gera það fljótlega þó,“ segir Steingrímur.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Steingrímur segir að ekki væri nein goðgá að skipa í nefndir nú og breyta þeirri skipan síðar, þegar myndaður hefði verið stjórnarmeirihluti. Það væri ekki flókið. Tvær leiðir eru færar við skipan í nefndir þingsins. Annars vegar ná þingflokkar heildarsamkomulagi um skipan í allar fastanefndir þingsins, sem og aðrar, og tryggja þá flokkum nefndarsæti í samræmi við þingstyrk, líkt og þingsköp gera ráð fyrir. Þar er gert ráð fyrir að nefndarsætum sé skipt með hliðsjón af hlutfallskosningu en hægt er að víkja frá því með samkomulagi. Hver þingmaður á rétt á setu í einni þingnefnd en má að hámarki sitja í tveimur. Náist hins vegar ekki samkomulag milli þingflokka um nefndaskipan þá skal kjósa til hverrar nefndar fyrir sig. Venjan er þá að menn geri kosningabandalög milli flokka til að ná sem mestum styrk innan nefndanna. Þeim þingflokkum sem ekki eiga fulltrúa í fastanefnd er heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa í hana. Augljóst er að bæði Samfylkingin og Björt framtíð geta ekki mannað allar nefndir Alþingis. Samfylkingin getur að hámarki fengið menn í sex fastanefndir af níu og Björt framtíð í átta.

Ekkert sem stoppar framlagningu þingmála

Ekkert kemur í veg fyrir að þingmenn leggi fram lagafrumvörp eða fyrirspurnir eða hvaða þingmál sem má hugsa sér þegar þing hefur komið saman. Þannig gætu þingmenn Samfylkingarinnar til að mynda lagt fram þingsályktunartillögu um að leggja skuli í dóm þjóðarinnar hvort teknar verði upp viðræður að nýju við Evrópusambandið um aðild Íslands. Ef slík tillaga yrði tekin á dagskrá þyrfti að afla við hana stuðnings hjá þingmönnum. Þar sem enginn meirihluti er starfandi myndi atkvæðagreiðsla um slíkt þingmál því ekki hverfast um stjórn og stjórnarandstöðu heldur líklega færi hún líklega eftir flokkslínum. Það verður hins vegar að teljast ólíklegt að þingmenn geri slíkt, eða í það minnsta að slíkt mál yrði tekið á dagskrá fyrr en myndaður hefði verið meirihluti. Það er í það minnsta mat Steingríms. „Það yrði nú samt varla mikið um slíkt og það er raunar ólíklegt að það verði stífir þingfundir fyrsta kastið. Þingið starfar væntanlega fyrstu tvo eða þrjá dagana að því að koma fjárlagafrumvarpi til nefnda og mögulega einhverju fleiru. Það er hins vegar ólíklegt að þingið fundi að ráði fyrr en afgreiða þarf fjárlögin.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Hartman í Val
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Flassari fyrir dóm – Sakaður um að hafa sýnt af sér ósiðlegt og lostugt athæfi

Flassari fyrir dóm – Sakaður um að hafa sýnt af sér ósiðlegt og lostugt athæfi
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Ofbeldismenn herja á starfsfólk Héraðssaksóknara

Ofbeldismenn herja á starfsfólk Héraðssaksóknara
Fréttir
Í gær

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“
Fréttir
Í gær

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“