fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Borgarstjórnarmeirihlutinn stendur við stóru orðin

Vel á veg kominn með að uppfylla samstarfssamninginn – Flest verkefni komin í framkvæmd eða ferli

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 6. desember 2016 15:23

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við myndun meirihlutasamstarfs Samfylkingar, Bjartrar framtíða, Vinstri grænna og Pírata í borgarstjórn árið 2014 var samþykktur samstarfssamningur milli flokkanna. Í samningnum voru sett fram 81 atriði sem vinna skyldi að á kjörtímabilinu. Nú, þegar kjörtímabilið er ríflega hálfnað, hefur meirihlutanum tekist að hrinda miklum fjölda þessara mála í framkvæmd eða í það minnsta setja þau á dagskrá. Fá dæmi eru um að ekki hafi verið staðið við þær áætlanir sem tilteknar voru í samningnum. Helst er slíkt að finna þar sem lofað var auknum fjármunum til skólamála en vegna erfiðleika í rekstri borgarinnar og hagræðingarkröfu var meðal annars bakkað með að lækka leikskólagjöld um 200 milljónir á yfirstandandi ári, líkt og til stóð. Þó er fullyrt að til standi að lækka þessi gjöld á næsta ári.

Samningnum er skipt upp í tíu kafla sem fjalla um stjórnkerfi og lýðræði, húsnæðismál, skóla- og frístundamál, bætt kjör barnafjölskyldna, umhverfis- og skipulagsmál, velferð, mannréttindamál, íþrótta- og tómstundamál, atvinnu- og ferðamál og menningarmál.

Áherslurnar eru hverjar fyrir sig mjög misumfangsmiklar og kalla þannig á mismikil fjárútlát eða aðgerðir af hálfu borgarinnar. Til að mynda eru þau verkefni sem falla undir kaflann stjórnkerfi og lýðræði fæst þess eðlis að þær kalli á mikil fjárútlát. Aftur á móti mun fjölgun félagslegra íbúða, sem er hluti af húsnæðismálakafla samningsins, þýða veruleg útgjöld á næstu fimm árum.

Stjórnkerfi- og lýðræði

Drög hafa verið lögð fram um reglur fyrir íbúakosningar en enn á eftir að samþykkja þau.
Unnið að íbúakosningum Drög hafa verið lögð fram um reglur fyrir íbúakosningar en enn á eftir að samþykkja þau.

Sé horft á fyrsta kaflann, sem fjallar um stjórnkerfi og lýðræði, innheldur hann átta verkefni sem ráðast á í. Flestum þessara verkefna er lokið, að heild eða hluta, og önnur eru í ferli. Þannig var stefnt að stofnun stjórnkerfis- og lýðræðisráðs sem verða myndi fastanefnd í borgarkerfinu. Ráðið var stofnað 16. júní 2014, fimm dögum eftir undirritun samstarfssamningsins og hefur starfað síðan. Þá var í desember sama ár stofnað embætti erindreka gagnsæis og samráðs sem vinna skyldi með umræddu ráði og var það í samræmi við samstarfssamninginn. Úttekt var unnin á verkefnunum Betri Reykjavík og Betri hverfi, rafrænum kosningum um verkefni innan borgarkerfisins, og úrbætur gerðar á þeim ferlum. Þá hafa drög að reglum um íbúakosningar verið lögð fram í forsætisnefnd borgarinnar en ekki verið samþykktar þar enn. Eina verkefnið í kaflanum sem á enn nokkuð í land með að klára er tillögugerð um eflingu nærþjónustu og hlutverk hverfaráða. Hins vegar hefur talsverð vinna verið lögð í það verkefni en það er þó umfangsmikið og á enn eftir að klára.

Húsnæðismál

Borgin og ASÍ hafa gert samkomulag um uppbyggingu 1.000 leiguíbúða.
Unnið að uppbyggingu Borgin og ASÍ hafa gert samkomulag um uppbyggingu 1.000 leiguíbúða.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Fimm atriði í samstarfssamningnum snúa að húsnæðismálum. Langsamlega stærst þeirra er áætlun um aðkomu borgarinnar að uppbyggingu á þriðja þúsund leigu- og búseturéttaríbúða og fjölgun félagslegra íbúða á vegum borgarinnar. 12. mars á þessu ári undirrituðu Reykjavíkurborg og Alþýðusamband Íslands samkomu lag um að hefja uppbyggingu eitt þúsund leiguíbúða í borginni. Miðað er við að verkefnið taki fjögur ár og er um blandaða uppbyggingu að ræða. Reykjavíkurborg mun úthluta lóðum sem stofnstyrk inn í Almenna íbúðafélagið í þessu skyni.
Húsnæðisáætlun Reykjavíkur gerir jafnframt ráð fyrir uppbyggingu íbúða í samstarfi við Búseta, Félagsstofnun stúdenta, Byggingafélag námsmanna, Félag eldri borgara og fleiri til þess að auka framboð íbúða fyrir alla. Við það bætast svo íbúðir sem rísa á hefðbundnum íbúðamarkaði.

Hinn 27. nóvember 2014 samþykkti borgarráð tillögu borgarstjóra um að heimila Félagsbústöðum að fjölga félagslegum leiguíbúðum borgarinnar um 500 á árunum 2015 til 2019. Fjárfesting Félagsbústaða mun nema um 13,5 milljörðum króna. Verður íbúðum fjölgað með byggingum eða kaupum og mun eignasafn Félagsbústaða stækka um 28 prósent til ársloka 2019. Stofnfjárframlag Reykjavíkurborgar er áætlað rúmlega 1,23 milljarðar á tímabilinu. Er þessi samþykkt í samræmi við samstarfssamning meirihluta borgarstjórnar. Þá mun einstaklingsbundinn húsnæðisstuðningur sem taki mið af stöðu viðkomandi taka gildi 1. janúar næstkomandi.

Skóla- og frístundamál

Ýmis framlög til grunnskóla voru aukin í haust sem leið.
Framlög aukin Ýmis framlög til grunnskóla voru aukin í haust sem leið.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Í kafla þar sem fjallað er um skóla- og frístundamál eru tólf atriði undir. Megnið af þeim snýr að skipun starfshópa, gerð stefnumiða, auknu samstarfi milli skólastiga og sveitarfélaga og annarra áætlana sem snúa að skólum og frístundamálum. Flestum þeirra atriða hefur verið hrint í framkvæmd að hluta eða heild. Til að mynda fengu grunnskólar borgarinnar úthlutað 75 milljónum króna á yfirstandandi ári til að styrkja verk-, tækni- og listgreinakennslu. Þá var 60 milljóna króna auknu fjármagni veitt til faglegs starfs í grunnskólum síðastliðið haust. Framlög vegna námsgagna til skapandi starfs í leikskólum voru hækkuð úr 1.800 krónum á barn í 3.000 krónur, einnig síðastliðið haust. Nefndar hækkanir eru hluti af sérstakri aðgerðaáætlun í skólamálum.

Þá var sérstaklega tiltekið að vinna ætti áætlun um að brúa bil milli fæðingarorlofs og leikskóla. Skýrslu um málið var skilað árið 2015 en unnið er að frekari útfærslu sem liggja á fyrir fyrri hluta næsta árs. Þá verður opnað fyrir inntöku yngri barna á leikskóla borgarinnar á næsta ári. Samkvæmt aðgerðaáætlun í skólamálum er stefnt að því að taka börn sem fædd eru í mars og apríl árið 2015 inn á leikskóla borgarinnar frá og með næstu áramótum. Til þessara aðgerðar verða tryggðar 425 milljónir króna í fjárhagsáætlun 2017.

Bætt kjör barnafjölskyldna

Ekki var staðið við að lækka leikskólagjöld um 200 milljónir króna á árinu.
Leikskólagjöld ekki lækkuð Ekki var staðið við að lækka leikskólagjöld um 200 milljónir króna á árinu.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Í kaflanum bætt kjör barnafjölskyldna eru þrjú atriði undir. Systkinaafslættir þvert á skólastig hafa verið teknir upp frá árinu 2015 og frístundakort var hækkað um 5.000 krónur á barn árið 2015. Samkvæmt samstarfssamningnum stóð til að hækka upphæð frístundakortsins að nýju á þessu ári en fallið var frá því vegna fjárhagsstöðu borgarinnar. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg stendur til að hækka upphæðina á næsta ári.

Hið sama á við um fjármagn til skóla- og frístundasviðs. Í samstarfssamningnum kom fram að lækka ætti leikskólagjöld um 100 milljónir króna árið 2015 og var staðið við það. Hins vegar áttu leikskólagjöld einnig að lækka á yfirstandandi ári, þá um 200 milljónir króna. Ekki varð af þeirri lækkun sökum erfiðrar rekstrarstöðu borgarinnar en stefnt er að því að leikskólagjöld verði lækkuð á næsta ári. Þá er rétt að benda á að fæðisgjöld voru hækkuð síðastliðið haust í leik- og grunnskólum borgarinnar og var hluta þeirrar hækkunar velt yfir á fjölskyldur.

Umhverfis- og skipulagsmál

Tíðni aksturs á stærstu leiðum hefur verið aukin hjá Strætó.
Efling strætó Tíðni aksturs á stærstu leiðum hefur verið aukin hjá Strætó.

Þegar kemur að umhverfis- og skipulagsmálum eru hvorki meira né minna en sextán mál undir. Hluti þeirra snýr að lýðræðismálum og þátttöku borgaranna og er vel á veg kominn. Auk þess var meðal annars stefnt að eflingu strætisvagnakerfisins og auknum forgangi almenningssamgangna. Efling strætisvagnakerfisins er þegar hafin samkvæmt áætlun um forgangsakstur strætós yfir umferðarljós og á forgangsreinum auk þess sem tíðni hefur verið aukin á stærstu leiðum úr 15 mínútum í 10 mínútur. Þá er enn sem fyrr til skoðunar að byggja upp léttlestarkerfi innan borgarinnar, í samvinnu við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.

Undir þennan kafla falla einnig málefni Orkuveitu Reykjavíkur en björgunaráætlun í rekstri fyrirtækisins hefur verið í gildi frá árinu 2011. Verkefninu lýkur í árslok 2016 og hefur árangur áætlunarinnar verið umfram markmið.

Velferðarmál

Heimaþjónusta við aldraða hefur verið efld og þeim gert kleift að búa lengur heima hjá sér með því.
Heimaþjónusta efld Heimaþjónusta við aldraða hefur verið efld og þeim gert kleift að búa lengur heima hjá sér með því.

Mynd: © Róbert Reynisson

Tólf atriði eru tiltekin þegar kemur að velferðarmálum. Meðal annars var stefnt að því að bjóða þeim sem þarfnast fjárhagslegrar aðstoðar borgarinnar tækifæri til vinnu, náms, starfsendurhæfingar eða meðferðar. Ýmis verkefni í þessa veru hafa verið sett af stað og hafa þau reynst vel. Þeim sem þáðu fjárhagsaðstoð fækkaði þannig frá janúar til mars 2016 um 23,6 prósent miðað við sama tímabil árið 2015.

Þá var því lýst í samstarfssamningnum að efla ætti heimaþjónustu við eldra fólk og gera því þannig kleift að búa lengur heima hjá sér. Því verkefni var hrint af stað og gaf góða raun. Þá er fyrirliggjandi samningur um byggingu ríflega 100 rýma hjúkrunarheimilis við Sléttuveg og munu framkvæmdir hefjast á næsta ári, en fjölgun hjúkrunarrýma var eitt þeirra atriða sem tiltekin voru í samstarfssamningnum.

Mannréttindamál

Byggja á upp sundlaug og íþróttamannvirki í Úlfarsárdal á næstu fimm árum.
Uppbygging íþróttamannvirkja Byggja á upp sundlaug og íþróttamannvirki í Úlfarsárdal á næstu fimm árum.

Mynd: © DV / Kristinn Magnússon

Í mannréttindakafla samstarfssamningsins kemur fram að áfram verði framfylgt áætlun um að útrýma kynbundnum launamun innan borgarinnar. Sú áætlun virðist vera að skila árangri en ekki liggja fyrir nýrri gögn en fyrir árið 2014. Þegar litið er á borgina sem eina heild hefur kynbundinn launamunur farið úr 13,5 prósentum árið 2007 niður í 3,5 prósent árið 2014. Önnur verkefni eru vel á veg komin.

Íþrótta- og tómstundamál

Í íþrótta- og tómstundamálum ber kannski hæst uppbyggingu sundlaugar og íþróttamannvirkja í Úlfarsárdal en ríflega fjórir milljarðar eru áætlaðir í þá uppbyggingu á næstu fimm árum. Auk þess er unnið að byggingu útilaugar við Sundhöll Reykjavíkur sem opnar á næsta ári. Þessi verkefni voru tiltekin í samstarfssamningi meirihlutans, auk annarra sem almennt eru vel á vegi stödd.

Atvinnu- og ferðamál

Settur hefur verið kvóti á hóteluppbyggingu í Kvosinni.
Kvóti á hótel Settur hefur verið kvóti á hóteluppbyggingu í Kvosinni.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Í atvinnu- og ferðamálahluta samningsins fær ferðaþjónustan talsvert rými. Þannig var samþykkt að dreifa frekari uppbyggingu gistirýma og hótela með skynsamlegum hætti um borgina. Nú þegar hefur verið settur kvóti á fjölda hótela í Kvosinni. Í ár á að samþykkja slíkan kvóta á Laugavegi og nærliggjandi götum. Er það í samræmi við samstarfssamninginn.

Menningarmál

Að síðustu fjallar samstarfssamningurinn um menningarmál. Talsverður hluti þess kafla er almennur um vilja til að leggja áherslu á listir og styrkja grasrótarstarf. Hefur verið unnið að þeim verkum á kjörtímabilinu. Þá er lögð áhersla á að borgarhátíðir verði þróaðar áfram og efldar. Efldir hafa verið samstarfssamningar við sjálfsprottnar hátíðir í borginni með hækkuðu framlagi og langtímasamningum. Yfir 40 hátíðir í borginni njóta nú framlags til lengri eða skemmri tíma og hefur sá fjöldi aldrei verið meiri.

Unnið hefur verið að því að efla borgarhátíðir á borð við Menningarnótt.
Borgarhátíðir efldar Unnið hefur verið að því að efla borgarhátíðir á borð við Menningarnótt.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi