Fréttir

Gleði jólanna

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 23. desember 2016 14:20

Jólahátíðin gengur í garð og við tökum henni fagnandi. Henni fylgir umstang og alls kyns stúss, sem vissulega leggst misvel í fólk, sumum finnst það skemmtilegt meðan öðrum finnst nóg um allt tilstandið. Ætli þetta sé samt ekki sá mánuður sem við brosum hvað mest til náungans. Við leggjum okkur fram við að vanda okkur í samskiptum við aðra. Orðin: Gleðileg jól! mæta okkur hvert sem við förum og þau eru kveðjuorð sem við fáum frá fólki sem við þekkjum lítið en eigum hversdagsleg erindi við.

Þetta er tími til að gleðjast yfir lífinu. Jólin eru þó víða haldin í skugga sorgar. Við hljótum að hugsa til þess fólks sem nýlega hélt á jólamarkað í Berlín, glatt og fullt tilhlökkunar, en var þar í sinni hinstu för. Einstaklingur tók sér það vald, sem við eigum aldrei að taka okkur, að ákveða að deyða fólk. Við hljótum öll að vera slegin yfir þessu tilgangslausa drápi. Atburðir eins og þessi eru orðnir of algengir. Þarna varð enn einn harmleikurinn í heimi sem er æði oft skelfilega miskunnarlaus. Samt megum við ekki gleyma gleðinni.

Gleðina sjáum við í augum barnanna sem fyllast tilhlökkun vegna jólanna. Þau kunna að lifa lífinu lifandi. Nokkuð sem við getum sannarlega lært af þeim. En einnig þar eru undantekningar. Það eru börn á Íslandi sem búa við fátækt og skylda okkar hlýtur að vera sú að leggja okkar af mörkum til að gera þeim jólin sem gleðilegust. Hér á landi vinna fjölmargir í sjálfboðavinnu við að úthluta mat og gjöfum til þeirra sem búa við lítil efni. Það gott að vita af slíkum samtökum en sömuleiðis hryggilegt að þörfin skuli vera jafn mikil og raun ber vitni. Þessum einstaklingum megum við alls ekki gleyma.

Við skulum heldur ekki gleyma því að jólin eru trúarhátíð kristinna manna. Á sama hátt og kristnum mönnum ber að virða önnur trúarbrögð eiga þeir sem eru annarrar trúar að virða trú kristinna. Við eigum ekki að fara í feluleik og leyna því af hverju við fögnum jólum. Ekki skulum við heldur gleyma hlutverki kirkjunnar.

Kirkjusókn um jól er venjulega góð og stundum afar mikil. Fólki líður vel í kirkju enda ríkir þar hátíðleiki og kyrrð sem við finnum ekki nægilega oft í hinu hversdagslega lífi. Það er hlálegt til þess að hugsa að einhverjum skuli finnast hið versta mál að börn heimsæki kirkjur um jól og telji þær vera hið versta innrætingarbæli. Kirkja er góður staður til að koma í.

Gleðileg jól! Og Guðs blessun!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

5 lög sem gætu orðið þjóðsöngur Íslands

5 lög sem gætu orðið þjóðsöngur Íslands
Fréttir
Í gær

Hjálparsveit skáta boðið í BDSM-partý

Hjálparsveit skáta boðið í BDSM-partý
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Starfsfólk Reykjavíkurflugvallar undrandi á starfsemi í flugskýli: „Það er fólk að mæta í skýlið, prúðbúið, til að láta skíra börnin sín“

Starfsfólk Reykjavíkurflugvallar undrandi á starfsemi í flugskýli: „Það er fólk að mæta í skýlið, prúðbúið, til að láta skíra börnin sín“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Arna fékk að vita á sama tíma að hún væri barnshafandi og með krabbamein: „Eigum bara eitt líf og við eigum að njóta þess“

Arna fékk að vita á sama tíma að hún væri barnshafandi og með krabbamein: „Eigum bara eitt líf og við eigum að njóta þess“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Leika lausum hala á Reykjavíkurflugvelli: Dæmdir barnaníðingar, kungfu-prestur, Panamaprins og sértrúarsöfnuður

Leika lausum hala á Reykjavíkurflugvelli: Dæmdir barnaníðingar, kungfu-prestur, Panamaprins og sértrúarsöfnuður
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Margrét hvetur Semu Erlu til að kæra og hótar sjálf að kæra Stundina – „Ég er ekki ofbeldisfull fyllibytta“

Margrét hvetur Semu Erlu til að kæra og hótar sjálf að kæra Stundina – „Ég er ekki ofbeldisfull fyllibytta“