fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Borgin gæti sparað þrátt fyrir fjölgun borgarfulltrúa

Launakostnaður borgarfulltrúa eykst að óbreyttu um 92 milljónir – Úrskurður kjararáðs óvissuþáttur – Gerðar tillögur til að draga úr kostnaði

Ritstjórn DV
Föstudaginn 23. desember 2016 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árlegur kostnaður Reykjavíkurborgar vegna launa borgarfulltrúa mun aukast um rúmar 92 milljónir króna eftir næstu sveitarstjórnarkosningar, þegar borgarfulltrúum verður fjölgað um átta. Launakostnaður borgarinnar gæti hins vegar lækkað frá því sem nú er þrátt fyrir aukningu þess kostnaðar, sé horf til sviðsmynda sem fjármálaskrifstofa borgarinnar hefur brugðið upp.

Borgarfulltrúum verður fjölgað um átta við næstu sveitarstjórnarkosningar, úr 15 í 23. Er það í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga frá árinu 2011 en þar er tiltekið að fjöldi aðalmanna í sveitarstjórn skuli standa á oddatölu og vera á bilinu 23 til 31 í sveitarfélögum þar sem íbúar eru 100 þúsund eða fleiri. Þó var ákvæði til bráðabirgða í lögunum þar sem tilgreint var að ekki væri skylt að breyta fulltrúafjölda í borgarstjórn fyrr en við aðrar sveitarstjórnarkosningar frá gildistöku laganna. Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, árið 2014, var ákveðið að nýta sér það bráðabirgðaákvæði og eru því borgarfulltrúar enn 15 talsins. Við borgarstjórnarkosningarnar 2018 mun þeim hins vegar fjölga í 23.

Laun varaborgarfulltrúa hugsanlega felld niður

Fjármálaskrifstofa borgarinnar skilaði minnisblaði með rýni á fjárhagsleg áhrif vegna fjölgunar borgarfulltrúa til forsætisnefndar borgarstjórnar 16. september síðastliðinn. Í rýninni er brugðið upp tveimur sviðsmyndum. Í báðum tilfellum er reiknað með óbreyttu launakerfi borgarfulltrúa, óbreyttum fjölda sæta í fastanefndum borgarinnar og óbreyttum fjölda borgarstjórnarflokka. Í annarri sviðsmyndinni er reiknað með að föst laun varaborgarfulltrúa verði felld niður og aðeins verði greitt fyrir setu í fastanefndum og fyrir mætingu á einstaka fundi. Í hinni sviðsmyndinni er gert ráð fyrir að varaborgarfulltrúar haldi föstum launum.

Bíða ákvörðunar Alþingis

Borgarfulltrúar eru á föstum launum sem nema 77,82 prósentum af þingfararkaupi, eða 593.720 krónum. Líkt og frægt er orðið ákvað kjararáð að hækka þingfararkaup 29. október síðastliðinn úr 762.940 krónum á mánuði í 1.101.194 krónur á mánuði. Hefur sú hækkun valdið mikilli úlfúð og hefur meðal annars verið kallað eftir því að Alþingi beiti sér fyrir því að hækkunin verði afturkölluð. Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti 15. nóvember síðastliðinn tillögu um að laun kjörinna fulltrúa borgarinnar myndu haldast óbreytt líkt og þau voru fyrir ákvörðun kjararáðs og skal sú ráðstöfun standa yfir „þar til Alþingi hefur haft tækifæri til að bregðast við úrskurði kjararáðs eða eigi síðar en til 31. desember nk. Bregðist Alþingi ekki við úrskurðinum er því beint til forsætisnefndar að gera breytingu á samþykkt um kjör og starfsaðstöðu kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg.“ Á fundi forsætisnefndar borgarinnar 16. desember síðastliðinn var síðan samþykkt að framlengja þessa ákvörðun til 31. janúar 2017.

Borgarstjórn, undir forystu Dags B. Eggertssonar, samþykkti að bíða með hækkun launa borgarfulltrúa í tengslum við ákvörðun kjararáðs þar til Alþingi hefði tekið ákvörðun um sín viðbrögð.
Bíða ákvörðunar Alþingis Borgarstjórn, undir forystu Dags B. Eggertssonar, samþykkti að bíða með hækkun launa borgarfulltrúa í tengslum við ákvörðun kjararáðs þar til Alþingi hefði tekið ákvörðun um sín viðbrögð.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Í minnisblaði fjármálaskrifstofu sem að framan er nefnt er miðað við launakjör eins og þau eru nú, hlutfall af þingfararkaupi áður en til hækkunar kjararáðs kom. Kostnaður vegna launa borgarfulltrúa mun aukast um rúmar 92 milljónir króna á ári við fjölgun þeirra eftir næstu kosningar, sé miðað við þá útreikninga. Verði ekki gerðar breytingar á þingfararkaupi og laun borgarfulltrúa reiknuð út frá þeim munu laun þeirra hækka um komandi áramót í 856.949 krónur á mánuði og heildarlaunakostnaður því aukast í samræmi við það en ekki liggur fyrir hversu mikið. Í grunnlaunum borgarfulltrúa felast greiðslur fyrir setu í nefndum og ráðum borgarinnar, þar með talið formennsku í nefndum, innkomu borgarfulltrúa sem varamanna í nefndir og setur þeirra sem áheyrnarfulltrúa í nefndum. Gert er ráð fyrir að borgarfulltrúar sitji að lágmarki í einni eða tveimur nefndum, eftir vægi þeirra. Laun skerðast uppfylli borgarfulltrúar ekki þær skyldur en aukast sitji þeir í fleiri nefndum.

Launakostnaður gæti lækkað

Fyrstu varaborgarfulltrúar hvers lista fá í dag greidd föst laun sem nema 70 prósentum af grunnlaunum borgarfulltrúa, eða 415.604 krónum á mánuði. Hækki laun borgarfulltrúa í samræmi við hækkun þingfararkaups líkt og rakið er hér að framan munu laun fyrstu varaborgarfulltrúa einnig hækka, í rétt tæpar 600 þúsund krónur á mánuði.
Í dag nemur kostnaður vegna fastra launa fyrstu varaborgarfulltrúa, sem eru sex talsins sem stendur, rúmum 47 milljónum króna á ári. Kostnaður vegna þóknana til annarra kjörinna fulltrúa vegna setu þeirra í fastanefndum borgarinnar nemur tæpum 78 milljónum króna á ári.

Samkvæmt annarri sviðsmyndinni sem unnið er með munu föst laun fyrstu varaborgarfulltrúa verða felld niður sem og föst þóknun annarra sem sitja í fastanefndum borgarinnar. Þess í stað yrði tekin upp þóknun fyrir hvern fund sem nefndarmenn myndu sitja og er reiknað með að hver nefnd fundi að meðaltali tvisvar sinnum í mánuði. Heildarkostnaður vegna fundarsetu er metinn 4,6 milljónir króna á ári miðað við þessar forsendur. Yrði þessi sviðsmynd að veruleika er gert ráð fyrir að launakostnaður borgarinnar vegna starfa kjörinna fulltrúa myndi lækka um rúmar 28 milljónir króna.

Sé hins vegar gert ráð fyrir að fyrstu varaborgarfulltrúar fá áfram greidd föst laun, líkt og nú er, er gert ráð fyrir að launakostnaður muni hækka um tæpar 19 milljónir á ári.

Ekki verið tekin ákvörðun

Launakostnaður kjörinna fulltrúa gæti hækkað en eins lækkað eftir því hvaða tillaga verður ofan á í borgarstjórn.
Kostnaður gæti lækkað eða hækkað Launakostnaður kjörinna fulltrúa gæti hækkað en eins lækkað eftir því hvaða tillaga verður ofan á í borgarstjórn.

Mynd: Bragi Thor Josefsson © Bragi Þór Jósefsson

Þá eru einnig lagðar fram þrjár mismunandi tillögur um breytingar á hverfisráðum borgarinnar. Er þar fjallað um nokkurn veginn óbreytt ástand, fækkun ráða ásamt því að fækka þeim sem fá greitt fyrir setu í þeim. Er kostnaður vegna tillagnanna metinn frá því að hafa í för með sér tæplega fjögurra milljóna kostnaðarauka og upp í ríflega 31 milljónar króna sparnað.

Sé horft á þær mismunandi sviðsmyndir sem birtar eru í minnisblaði fjármálaskrifstofu, bæði hvað varðar launagreiðslur fyrstu varaborgarfulltrúa og varðandi breytingar á hverfisráðum, eru niðurstöðurnar þær að mögulegt er að lækka launakostnað um 59,5 milljónir króna á mánuði með ýtrustu sparnaðartillögunum. Hins vegar, ef fyrstu varaborgarfulltrúar fá enn greidd föst laun og fjöldi hverfisráða helst óbreyttur, myndi það þýða kostnaðaraukningu upp á 22,7 milljónir króna á mánuði. Allt miðast þetta þó við laun sem taka mið af þingfararkaupi áður en kjararáð hækkaði það í lok október. Ekki liggja fyrir heildarútreikningar á því hvað það myndi hafa í för með sér ef laun borgarfulltrúa myndu hækka í samræmi við þá hækkun en ljóst er að við það myndu forsendur breytast nokkuð. Tillögurnar eru sem stendur til umræðu í forsætisnefnd borgarstjórnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Hvalur sprakk í tætlur
Fréttir
Í gær

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“
Fréttir
Í gær

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”