fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Svona eyddu ráðherrar 31 milljón af skúffufé sínu í ár

118 milljónum alls veitt í styrki frá 2013 – Lilja setti 1,8 milljónir í að endurnýja tölvur starfsmanna ráðuneytisins – Guðni Th. endurgreiddi styrk eftir forsetakjörið

Ritstjórn DV
Föstudaginn 16. desember 2016 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar útdeildu alls rúmlega 31,5 milljónum króna af ráðstöfunarfé sínu til að styrkja hin ýmsu verkefni og málefni á árinu 2016. Alls hafa ráðherrar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks veitt 118 milljónum króna til styrkþega frá því að ríkisstjórn flokkanna tók við árið 2013.

DV óskaði eftir sundurliðuðum upplýsingum frá hverju ráðuneyti yfir úthlutanir af ráðstöfunarfé ráðherra, sem oftast er kallað skúffufé, það sem af er árinu 2016. Óskað var eftir upplýsingum um fjárhæð, styrkþega, tilefni styrkveitingar og hvenær hver styrkur var veittur. Þar sem ráðherraskipti höfðu orðið á árinu var beðið um sundurliðun úthlutana eftir ráðherrum.

Meðal þess sem ráðherrar vörðu fjármunum ríkisins í að þessu sinni var að styrkja knattspyrnufélag Litla-Hrauns, svo hægt væri að fá þjálfara til að stýra reglulegum æfingum og þá notaði utanríkisráðherra rúmlega 1,8 milljónir króna í að endurnýja tölvukost starfsmanna ráðuneytisins í síðasta mánuði, svo fátt eitt sé nefnt. Athygli vekur einnig að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ákvað að endurgreiða styrk frá utanríkisráðherra eftir að ljóst var að hann yrði forseti. Einhverjir ráðherrar hafa haldið áfram að veita styrki eftir kosningar.

118 milljónir á kjörtímabilinu

Svörin sem fengust voru misítarleg. Sum ráðuneyti veittu upplýsingar um dagsetningar styrkjanna en hjá öðrum fengust þær upplýsingar ekki. Óskað var eftir upplýsingum um styrkveitingar ársins 2016 sérstaklega þar sem þegar hafði verið greint frá úthlutunum áranna 2013, 2014 og 2015 í Fréttablaðinu í byrjun þessa árs. Upplýsingar um úthlutanir 2016 höfðu hins vegar ekki birst áður, fyrr en nú. Árin á undan höfðu ráðherrar alls úthlutað 86,7 milljónum króna samkvæmt þeim upplýsingum sem Fréttablaðið birti, en að viðbættum fjárútlátum ráðherranna í ár nemur heildarupphæðin rúmlega 118 milljónum króna.

Greinin heldur áfram fyrir neðan töfluna

Þessu höfðu ráðherrar útdeilt áður

Árin 2013, 2014 og 2015
Þessu höfðu ráðherrar útdeilt áður

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra: 5,4 milljónir

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra: 7,9 milljónir

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra: 8,4 milljónir

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra: 9,1 milljón

Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi utanríkisráðherra: 7,1 milljón

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra: 5,5 milljónir

Sigurður Ingi Jóhannsson, þáv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: 7,2 milljónir

Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra (tók við 1. jan. 2015) ráðuneytið heyrði undir Sigurð Inga þar á undan: 6,5 milljónir

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra: 13,1 milljón

Ólöf Nordal innanríkisráðherra (frá des. 2014) þar áður Hanna Birna Kristjánsdóttir: 16,5 milljónir

Alls úthlutað af ráðherrum á árunum 2013–2015: 86,7 milljónir króna

Alls að árinu 2016 meðtöldu: 118 milljónir króna

Reglulega gagnrýnt

Þótt til séu verklagsreglur um ráðstöfunarfé ráðherra í hverju ráðuneyti þá eru engar samræmdar reglur til um þessar úthlutanir. Skúffufé ráðherra hefur margoft verið gagnrýnt í gegnum tíðina, meðal annars fyrir ógagnsæi og að með því geti ráðherrar dælt út ríkisfé að eigin geðþótta eftir hugðarefnum.

Í hverjum fjárlögum er ákveðin upphæð eyrnamerkt liðnum ráðstöfunarfé ráðherra en einnig hefur verið heimilt að flytja afgang frá árinu áður til þess næsta. Sérhverjum er heimilt að senda inn umsókn um styrk til ráðherra. Í reglum forsætisráðuneytisins er miðað við að ráðherra sé heimilt að styrkja málefni og verkefni sem „stuðla að framgangi íslenskra hagsmuna og til almannaheilla.“ Umsóknum þurfa að fylgja upplýsingar um umsækjanda, til hvers styrkurinn er ætlaður, kostnaðaráætlun og fjárhæð styrks. Forsætisráðuneytið, í þessu tilfelli, getur síðan gert kröfu um að styrkþegi skili að verkefni loknu greinargerð um framgang þess og ráðstöfun styrksins. Ef það kemur í ljós að styrkfé hafi ekki verið varið í þeim tilgangi sem ætlað var getur ráðuneytið krafist endurgreiðslu.

Almennt er það þó svo að það er ákvörðun hvers og eins ráðherra hvort hann styrki aðeins málefni sem heyra undir verksvið hans ráðuneyti, eða leiti út fyrir þann ramma.


Forsætisráðherra

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Átta styrkir eftir að hann varð forsætisráðherra

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson veitti tæpa milljón í styrki af ráðstöfunarfé sínu áður en hann sagði af sér í kjölfar Wintris-málsins í byrjun apríl. Sigurður Ingi Jóhannsson, sem þá tók við hefur síðan veitt 1,1 milljón króna í átta verkefni, eftir að hafa haldið að sér höndum í þeim efnum í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Meðfylgjandi tafla sýnir veitta styrki frá 1. janúar til 8. desember.

Verkefni Upphæð í kr. Ráðherra
Jarðskjálftaráðstefna á Húsavík 31. maí–3. júní 2016, Þekkingarnet Þingeyinga, Ragnar Stefánsson 500.000 Sigmundur Davíð
Vopnafjarðarskóli, Lego hönnunarkeppni á Tenerife 150.000 Sigmundur Davíð
Íþróttasamband lögreglumanna, Sigvaldi Eggertsson, – Eftir einn ei aki neinn – átak gegn ölvunarakstri 30.000 Sigmundur Davíð
Barnaspítali Hringsins, Sólveig S. Hafsteinsdóttir barnalæknir. Ráðstefna NOBHO/NOBOS, um krabbamein hjá börnum 27.–31. maí 2016 300.000 Sigmundur Davíð
Afrika Lole – til að halda Fest Afrika 2016 50.000 Sigurður Ingi
Kór Langholtskirkju, til að halda uppi menningarstarfi fyrir ungt fólk 100.000 Sigurður Ingi
Skákfélagið Hrókurinn, Hrafn Jökulsson, vegna verkefna Hróksins á Grænlandi og Íslandi 50.000 Sigurður Ingi
Jóhann Friðrik Friðriksson, málþing um mikilvægi heilsueflingar 100.000 Sigurður Ingi
Haukur Arnþórsson, rannsókn, ritun og útgáfa bókar um störf Alþingis í aldarfjórðung 1991–2016 300.000 Sigurður Ingi
Hinsegin dagar í Reykjavík 2016 200.000 Sigurður Ingi
Karlakór Reykjavikur, Gestur Svavarsson, vegna kostnaðar við 90 ára afmæli árið 2016. 150.000 Sigurður Ingi
Jólahátíð fatlaðra, André Bachmann Sigurðsson 150.000 Sigurður Ingi
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson: 980.000 kr.
Sigurður Ingi Jóhannsson 1.100.000 kr.
Alls veitt af ráðstöfunarfé ráðherra: 2.080.000 kr.

Utanríkisráðherra

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Lilja endurnýjaði tölvur starfsfólks fyrir 1,8 milljónir – Guðni Th. endurgreiddi styrk

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra nýtti 1,8 milljónir af ráðstöfunarfé sínu til að endurnýja bágborinn tölvukost starfsmanna utanríkisráðuneytisins þann 15. nóvember síðastliðinn, rúmum tveimur vikum eftir kosningar. Er þetta langhæsti styrkurinn sem nokkur ráðherra veitti af skúffufé sínu á árinu 2016 en alls veitti hún tæpar 2,4 milljónir í styrki af skúffufé sínu.

Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu hefur endurnýjun á tölvubúnaði fyrir starfsmenn þess gengið hægt vegna aðhalds í rekstri. Tölvukostur hafi því verið orðinn bágborinn og nauðsynlegt að bæta úr því.

„Ráðherra valdi að flýta fyrir endurnýjuninni og nýta hluta af sínu ráðstöfunarfé til þess. Tölvudeild ráðuneytisins var falið að kaupa búnaðinn og fylgja þar reglum sem gilda um innkaup hins opinbera.“ Óhætt er að fullyrða að Lilja hafi ekki skaðað vinsældir sínar meðal starfsmanna með þessari ákvörðun.

Lilja tók við embætti af Gunnari Braga Sveinssyni þann 8. apríl síðastliðinn en greint hafði verið frá því að Gunnar Bragi nýtti síðasta dag sinn í utanríkisráðuneytinu til að veita 950 þúsund krónum í styrki, vitandi að hann væri á leið í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrastólinn. Athygli vekur að nokkrum dögum áður, þann 30. mars hafði Gunnar Bragi veitti Guðna Th. Jóhannessyni, styrk upp á 150 þúsund krónur. Tekið er fram í svari ráðuneytisins að styrkurinn hafi verið verið endurgreiddur 1. júlí, eða 6 dögum eftir forsetakosningar þegar ljóst var að Guðni væri á leið á Bessastaði og mánuði áður en hann tók formlega við embætti.

Verkefni Upphæð í kr. Dagsetning Ráðherra
Guðni Th. Jóhannesson c/o HÍ, styrkur v. útgáfu um viðurkenningu Íslands á Eystrasaltsríkjunum 150.000 (1) 30. mars Gunnar Bragi
Þjóðdansahópurinn Sporið í Borgarnesi v. kynningar á ísl. þjóðdönsum í Vesturheimi 250.000 7. apríl Gunnar Bragi
Kómedíuleikhúsið Ísafirði v. leikferðar til Spánar 250.000 7. apríl Gunnar Bragi
Landsbyggðavinir v. „Framtíðin er núna“ 150.000 7. apríl Gunnar Bragi
Landgræðsla ríkisins v. „Grazing in a changing Nordic region“ í Hörpu 300.000 7. apríl Gunnar Bragi
Árni Snævarr, c/o Upplýsingaskrifstofa SÞ, v. sýningar heimildamyndar Demain um umhverfismál í Bíó Paradís 100.000 27. apríl Lilja
King Hussein Cancer Foundation, Jórdaníu www.khcc.jo/ í minningu Stefaníu Reinhardsdóttur, aðalræðismanns Íslands í Jórdaníu 125.000 23. maí Lilja
Anna Gyða Sigurgísladóttir, Andrea Björk Andrésdóttir og Berglind Sunna Stefánsdóttir, c/o Reconesse ehf. v. „European Celebration of Women in Computing“ 75.000 4. ágúst Lilja
Skákfélagið Hrókurinn, styrkur vegna leiðangurs til Ammassalik-svæðisins á Grænlandi 250.000 10. október Lilja
Utanríkisráðuneytið, til endurnýjunar á tölvubúnaði fyrir starfsmenn 1.848.000 15. nóvember Lilja
Gunnar Bragi Sveinsson: 950.000 kr.
Lilja Alfreðsdóttir: 2.398.000 kr.
Alls veitt af ráðstöfunarfé ráðherra: 3.348.000 kr.

(1) Guðni Th. Jóhannesson endurgreiddi styrkinn 1. júlí 2016, 6 dögum eftir forsetakosningar og mánuði áður en hann tók formlega við embætti.


Innanríkisráðherra

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Ólöf styrkti knattspyrnufélag Litla-Hrauns

Ólöf Nordal innanríkisráðherra er með gjafmildari ráðherrum ársins en hún veitti ríflega 5,4 milljónir króna af skúffufé sínu í margvísleg verkefni. Styrkirnir voru afgreiddir á tímabilinu febrúar til október og engir styrkir afgreiddir eftir það samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu.

Einn styrkþegi vekur kannski meiri athygli en aðrir en það er knattspyrnufélag Litla-Hrauns sem innanríkisráðherra styrkti um 100 þúsund krónur. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu var þetta styrkur vegna kostnaðar við að fá þjálfara til að mæta á Litla-Hraun og halda reglulegar æfingar.

„Félagið heitir formlega Knattspyrnuvinafélag Litla-Hrauns og virðist hafa fengið styrki víðar að til að standa undir fjárfestingum við grasvöll og fleira varðandi þetta.“

Verkefni Upphæð í kr.
Áfangaheimilið Dyngjan 150.000
Norrænt samstarf laganema Orators í febrúar 150.000
Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti 150.000
Rannsókn á aðstæðum barna, réttindum og skyldum aðstandenda 750.000
Lagadagur Nomos-félags laganema við HÍ 100.000
Málflutningsteymi HR v. málflutningskeppni Willem C Vis Int. Comm.Arbitration Moot 150.000
Verkefnið „Heilsurækt fanga“ 150.000
Club Lögberg v. Norrænu málflutningskeppninnar á Íslandi 350.000
Kennsla í íslensku fyrir útlendinga 200.000
Verkefni um umfang, eðli og kostn. v. heimilisofb. karla í garð kvenna 100.000
Hinsegin dagar í Reykjavík 300.000
Þjónustusamningur Neytendasamtakanna 2015 300.000
Ferð á námskeið fyrir ákærendur 100.000
Heimildamynd v. Scorebysunds á Grænlandi 600.000
Minnisvarði um Látra-Björgu Einarsdóttur 500.000
FC Sækó – Geðveikur fótbolti v. Geðsviðs Landspítalans og Hlutverkaseturs 150.000
FRÆ – Félag um ritun ævisögu Jean Eggerts Claessen 200.000
Jólahátíð fyrir fatlaða 150.000
Knattspyrnufélag Litla-Hrauns 100.000
Sálrænn stuðningur v. viðbragðsaðila í neyðarþjónustu á Íslandi 300.000
Varðberg – samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál 500.000
Alls veitt af ráðstöfunarfé ráðherra: 5.450.000 kr.

— 

Fjármála- og efnahagsráðherra

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Fáir en stærri hjá Bjarna

Bjarni Benediktsson hefur aðeins styrkt fjögur verkefni það sem af er ári og virðist vera að vinna með að styrkja frekar færri verkefni um hærri fjárhæðir en mörg minni. Upphæðin, 1.150 þúsund krónur, er sú lægsta sem nokkur ráðherra ríkisstjórnarinnar hefur veitt úr skúffu sinni í ár, en kannski viðeigandi að ráðherra fjármála og efnahags sýni slíka ráðdeild.

Verkefni Upphæð í kr.
Hinsegin dagar í Reykjavík 300.000
Jólahátíð fatlaðra 250.000
Miðbaugs-minjaverkefnið /Equator Memorial Project 300.000
Rannsókn á trausti Íslendinga til fjármálastofnana 300.000
Alls veitt af ráðstöfunarfé ráðherra: 1.150.000 kr.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Gunnar Bragi í gjafastuði

Samkvæmt svari ráðuneytisins um úthlutanir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á árinu 2016 virðist Sigurður Ingi Jóhannsson ekkert hafa veitt af skúffufé sínu áður en hann hvarf úr ráðherrastólnum og varð forsætisráðherra í byrjun apríl. Fyrstu styrkirnir eru veittir í lok apríl, þegar Gunnar Bragi Sveinsson hafði tekið þar við. Eftir að hafa veitt 950 þúsund krónur á lokametrum sínum í utanríkisráðuneytinu hefur Gunnar Bragi sem ráðherra sjávarútvegs og landbúnaðar veitt 3,7 milljónir til viðbótar af ráðstöfunarfé sínu síðan þá.

Verkefni Upphæð í kr. Dagsetning
Jólaúthlutun Mæðrastyrksnefndar 2015 500.000 30. apríl
Landsbyggðin lifi v. þátttöku í European Rural Parliament í Austurríki 3.–7. nóv. 2015 100.000 30. apríl
Meistarafélag kjötiðnaðarmanna v. Fagkeppni kjötiðnaðarmeistara 250.000 30. apríl
Haukur Arnþórsson v. rannsóknar á sviði rafrænnar fjarþjónustu hins opinbera 250.000 31. maí
Bændasamtök Íslands v. Landbúnaðarverðlaunin 2015 150.000 31. maí
Háskóli Íslands – Fyrirlestur Jane Goodall 50.000 31. maí
Góð stemming ehf. v. kynningar- og sölutjalds f. framleiðendur Beint frá býli á Kótelettunni 2015 400.000 31. maí
Guðmundur Smári Veigarsson v. sumarbúða fyrir trans, intersex og kynsegin ungmenni 100.000 7. júlí
Ankra ehf. v. ferðar til Indlands á viðburði á vegum sendiráðs Íslands 250.000 13. júlí
Ysland ehf. Markaðsráðstefnan Big World Small Data í Háskólabíó 100.000 19. júlí
Háskólinn á Akureyri v. Norræna byggðarráðstefnan á Akureyri 300.000 3. ágúst
Hinsegin dagar í Reykjavík 100.000 8. september
Félag norrænna búvísindamanna. Styrkur til Íslandsdeildar NJF 100.000 27. október
Jólahátíð fatlaðra. André Bachmann 100.000 28. október
Síðasta haustið ehf. v. framleiðslu heimildamyndarinnar „Síðasta haustið“ 400.000 31. október
Háskólinn á Hólum í Hjaltadal v. rannsókna á landsmóti hestamanna 200.000 31. október
Brimnesskógar v. Endurheimta Brimnesskóga 100.000 31. október
Sjómannagarðurinn í Ólafsvík v. viðgerðar á minnismerki um látna sjómenn 100.000 7. nóvember
Ólafsdalsfélagið v. uppbyggingar í Ólafsdal 150.000 7. nóvember
Alls veitt af ráðstöfunarfé ráðherra: 3.700.000 kr.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Mynd: DV ehf / Þormar Vignir Gunnarsson

Stórir styrkir Ragnheiðar Elínar

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur gefið tæpar 4,9 milljónir króna af ráðstöfunarfé sínu til sextán verkefna það sem af er ári. Aðeins Ólöf Nordal hefur varið meira úr skúffu sinni í ár. Hæsti einstaki styrkurinn rann til KLAK Innovit vegna Slush Play tölvuleikjaráðstefnunnar, 700 þúsund krónur. Þrjú verkefni fengu 500 þúsund krónur og tvö 400 þúsund krónur.

Verkefni Upphæð í kr. Dagsetning
Hollvinafélag Húna II, sigling til Færeyja í tengslum við Norrænu strandmenningarhátíðina 400.000 30. mars
Klúbbur matreiðslumeistara v. keppnisferðar kokkalandsliðsins á Ólympíuleika 400.000 13. maí
Ysland ehf. v. markaðsráðstefnan Big World Small Data í Háskólabíói 250.000 31. maí
Háskóli Íslands v. útgáfu ritsins „Saga utanlandsverslunar Íslendinga 900–2010 500.000 31. maí
Team Spark, nemendafélag. Stuðningur við kappaksturslið HÍ 2015–16 329.664 1. júní
Golfsamband Íslands v. Evrópumóts kvenna í golfi á Urriðavelli 500.000 21. júní
Hafnarfjörður, keramik- og hönnunarsýning í Hafnarborg 100.000 4. ágúst
Sjálfsbjörg, styrkur fyrir hjálparmenn í ferðir fatlaðra 100.000 4. ágúst
Drakó films ehf., v. útgáfu bókarinnar Forystuþjóð – jafnréttismál 500.000 4. ágúst
Landsbyggðarvinir v. verkefnisins „Framtíðin er núna!“ 200.000 11. ágúst
Málarameistarafélagið v. þings norrænna málarameistara N.M.O. 200.000 11. ágúst
Flugdrekarnir félagasamtök v. Blik í auga – Kántrý 100.000 7. september
Hinsegin dagar í Reykjavík 100.000 8. september
RIFF. Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík 250.000 21. september
KLAK Innovit ehf., v. Slush Play 700.000 13. október
Félag heyrnarlausra. Táknmálsstúdíó til að vinna myndefni fyrir heyrnarlausa 250.000 31. október
Alls veitt af ráðstöfunarfé ráðherra: 4.879.664 kr.

Mennta- og menningarmálaráðherra

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Illugi styrkti unga Lego-snillinginn

Illugi Gunnarsson veitti alls 25 verkefnum styrki á árinu fyrir alls tæpar 4,6 milljónir króna. Einn þeirra hæstu rann til hins unga Brynjars Karls Birgissonar, sem varð þjóðþekktur og gott betur eftir að hann setti saman 6,5 metra líkan af Titanic úr Lego-kubbum. Afrekið varð til þess að Brynjari Karli var boðið á TEDxKids-ráðstefnuna í El Cajon í Kaliforníu þar sem hann flutti tölu. Eins og fram kemur í svari ráðuneytisins var styrkur Illuga upp á 350 þúsund krónur veittur vegna þeirrar ferðar unga Lego-snillingsins.

Verkefni Upphæð í kr.
Evrópusamband píanókennara, alþjóðleg ráðstefna píanókennara 500.000
Félag heyrnarlausra, framleiðsla á fræðslu-, frétta- og kynningarefni 100.000
Jónína Bjartmarz, Iceland Europe Travel, sýning á INUK kvikmyndinni á ráðstefnu 43.400
Urður, Jón Þ. Þór, bók með æviþáttum allra forseta Bandaríkjanna 300.000
Brynjar Karl Birgisson í TED X Kids (Lego-Titanic) 350.000
HÍ, Ögmundur Jónasson/EDDA öndvegissetur, ráðst. um mannréttindi 300.000
Músík í Mývatnssveit, tónleikar um páska 2016 100.000
Gamlir Fóstbræður, þátttaka í alþjóðlegu kóramóti 200.000
Samkór Kópavogs, söngferðalag til Kanada 100.000
Samtök líffræðikennara, Ólympíuleikar í líffræði 2016 200.000
Óðfræðifélagið Boðn, útg. tímaritsins Sónar 50.000
Bridgefélag Siglufjarðar, alþj. bridgemót á Siglufirði í sept. 250.000
Átak, fél. fólks með þroskahömlun, stoltganga í sept. 50.000
Kammersveit Reykjavíkur, útg. sögu félagsins 200.000
Óðfræðifélagið Boðn, útg. tímaritsins Sónar – viðbótarstyrkur 200.000
Íslensku tónlistarverðlaunin, heiðursverðlaun Ísl. tónlistarverðlaunanna 2016 300.000
Lakehouse, Harpa Fönn Sigurjónsdóttir, leikverkið Í samhengi við stjörnurnar 150.000
Landssamband hestamanna, útgáfa rits um gangtegundir 300.000
Hlíf Sigurjónsdóttir, útvarpsþættir um Björn Ólafsson fiðluleikara 100.000
Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar 200.000
Sögufélagið 200.000
Íþróttasamband fatlaðra, samstarf ísl. lögreglu við Special Olympics á Íslandi 50.000
André Bachmann, jólaskemmtun fyrir fatlaða 2016 50.000
Skákfélagið Hrókurinn, verkefni á Íslandi og Grænlandi 200.000
Elísabet Kristín Jökulsdóttir, kynning á bókinni Enginn dans við Ufsaklett 100.000
Alls veitt af ráðstöfunarfé ráðherra: 4.593.400 kr.

Félags- og húsnæðismálaráðherra

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Gulli byggir fékk hæsta styrkinn

Eygló Harðardóttir er eini ráðherra ríkisstjórnarinnar sem ávallt hefur upplýst jafnóðum um hvert ráðstöfunarfé hennar rennur á vef ráðuneytisins. Ekki reyndist því þörf á að kalla sérstaklega eftir þeim upplýsingum enda gagnsæið til eftirbreytni.

Rúmar 2,3 milljónir hafa runnið úr skúffu Eyglóar á árinu en athygli vekur að hæsti styrkurinn, 300 þúsund krónur, rann til „Gulli byggir“ til að fjalla um norsk/sænsk einingahús. Smiðurinn, útvarpsmaðurinn og dagskrárgerðarmaðurinn Gunnlaugur Helgason, hefur stýrt sjónvarpsþætti með sama nafni á Stöð 2 undanfarin misseri. Í ljósi þess að Eygló er ráðherra húsnæðismála er því kannski ekki langsótt að Gulli hafi fengið styrk til að fjalla um einingahús.

Verkefni Upphæð í kr.
Íþróttasamband lögreglumanna, vegna bæklings 30.000
Geðhjálp og RKÍ, v. heimsóknar DR. Gbor Maé‘s 200.000
Hjálparstarf kirkjunnar 25.000
Málbjörg, félag um stam, v. tímarits 10.000
Hagsmunasamband áhugafólks um smáheimili v. húsnæðis f. stofnfund 100.000
Félag kvenna í vísindum v. aðalfundar 70.000
Sjálfsbjörg v. sölu á pennum og minnisblokkum 18.400
Almannaheill v. fundar fólksins 291.895
Samtökin v. IDAHO ráðstefnunnar 111.580
Hinsegin dagar í Reykjavík 150.000
Fræðslunetið v. kynfræðslu fyrir fullorðið fatlað fólk 100.000
Félag íslenskra sérkennara v. ráðstefnunnar frá hömlum til hæfni 120.000
Jafnréttisstofa v. 40 ára afmælis jafnréttislaga 100.000
Ríkissáttasemjari v. norrænnar ráðstefnu ríkissáttasemjara 100.000
André Bachman v. jólahátíðar fatlaðra 150.000
Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og Edda Sesselja Traustadóttir v. útg. bókarinnar Forystuþjóð 250.000
Sjálfsbjörg v. hjálparmanna í ferðir fatlaðs fólks 100.000
Gulli byggir, styrkur til að fjalla um norsk/sænsk einingahús 300.000
Samtök um endómetríósu v. fræðsluferðar á göngudeild fyrir konur með endómetríósu 100.000
Alls veitt af ráðstöfunarfé ráðherra: 2.326.875 kr.

Umhverfis- og auðlindaráðherra

Mynd: Sigtryggur Ari

Margir litlir styrkir

Sigrún Magnúsdóttir veitti rúmar 2,2 milljónir króna til 22 verkefna á árinu. Hæsti styrkurinn nam 300 þúsund krónum og rann til Eflu hf. vegna rannsóknarverkefnis sem leiðir til minni losunar gróðurhúsalofts frá urðunarstöðum á Íslandi. Sigrún veitti þar af fjóra styrki í nóvember, eftir kosningar.

Verkefni Upphæð í kr. Dagsetning
Fræðsla og forvarnir, útgáfa og gerð á fræðsluefni á baragras.is 7.000 20. maí
Háskóli Íslands, v. komu dr. Jane Goodall 50.000 20.maí
Daði Már Steinsson, rannsókn á eftirspurn eftir grænni ferðamennsku 100.000 20. maí
Bókaútgáfan Hólar ehf., v. útgáfu bókarinnar „Viska fallandi vatns. Hugsað með eyfirskum fossum“ 100.000 20. maí
Brimnesskógar v. Endurheimta Brimnesskóga í Skagafirði 100.000 20. maí
Hlöðver Eggertsson v. námskeiðs hjá Kiwa Sverige 50.000 20. maí
Bjarni Reynarsson v. útgáfu á ritgerðarsafni um þróun og skipulag Reykjavíkur 100.000 20. maí
Kór Langholtskirkju, menningarstyrkur fyrir kórinn 50.000 20. maí
Skógrækt ríkisins Hópefli starfsmanna nýrrar skógræktarstofnunar ríkisins 100.000
Neytendasamtökin v. þýðingar og staðfæringar á smáforritinu Kemiluppen 100.000 20. maí
Landsbyggðarvinir v. rekstrarkostnaðar verkefnisins „Framtíðin er núna“ 50.000 20. maí
Landgræðsla ríkisins, norræn/alþjóðleg beitarráðstefna á Íslandi 100.000 20. maí
UNRIC (SÞ) Árni Þorvaldur Snævarr, v. sýningar á myndinni „Demain“ 50.000 1. júní
Efla hf. v. ranns.verkefnis sem leiðir til minni losunar gróðurhúsaloftt. frá urðunarstöðum á Íslandi 300.000 1. júní
Lífsmynd, v. heimildamyndar um landgræðslustarf 70.000 2. júní
RIFF, vegna verkefnisins „Önnur framtíð“ 50.000 8. júlí
Sigríður Kristjánsdóttir, endurútgáfa ritsins „Um skipulag bæja“ 350.000 28. september
Norm ráðgjöf og Aðgengi ehf., v. verkefnis um bætt aðgengi fatlaðs fólks að ferðamannastöðum 200.000 17. október
Ungmennafélag Íslands, umhverfisverkefni félagsins 200.000 7. nóvember
Brjóstheill – Samhjálp kvenna, samnorræn ráðstefna um brjóstakrabbamein 50.000 7. nóvember
Ómar Þ. Ragnarsson, v. verkefnisins „Orkunýtni – koma svo!“ 50.000 7. nóvember
Landvarðafélag Íslands, v. 40 ára afmælis félagsins 50.000 10. nóvember
Alls veitt af ráðstöfunarfé ráðherra: 2.277.000 kr.

Heilbrigðisráðherra

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Heldur sig við heilbrigðismál

Kristján Þór Júlíusson veitti átta styrki á árinu af skúffufé sínu fyrir samtals rúmlega 1,7 milljónir króna. Ráðherra heilbrigðismála virðist af verkefnunum að dæma halda sig innan verksviðs ráðuneytisins og styrkja málefni tengd heilbrigðismálum.

Verkefni Upphæð í kr. Dagsetning
Landspítalinn, Menntadeild vísinda- og þróunarsvið v/ferðar til Alþjóða læknaháskólans í Debrecen í Ungverjalandi til að stuðla að meiri nýliðun meðal íslenskra lækna 200.000 18. mars
Íþróttasamband lögreglumanna v. átaksins „Eftir einn ei aki neinn“ 25.000 27. apríl
NOPHO/NOBOS vegna alþjóðlegrar ráðstefnu um krabbamein hjá börnum 300.000 3. maí
Félag ísl. fíkniefnalögreglumanna v. auglýsingar gegn fíkniefnavá 25.000 26. maí
Kraftur – stuðningsfélag vegna norrænnar ráðstefnu Krafts á næsta ári 200.000 13. október
Hjólakraftur – styrkur till starfsemi félagsins 200.000 12. október
Grófin geðverndarmiðstöð – styrkur vegna starfsmenntaferðar Grófarinnar 300.000 12. október
Fagráð sjúkraflutninga, gerð fýsileikaskýrslu um þróun kerfis sjúkraflutninga með þyrlu 500.000 27. október
Alls veitt af ráðstöfunarfé ráðherra: 1.750.000 kr.

10 ráðherrar ráðstöfuðu alls árið 2016: 31.554.939 krónum

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Tryggvi segir málið með ólíkindum – „Ég á það, ég má það“

Tryggvi segir málið með ólíkindum – „Ég á það, ég má það“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Ófögur sjón mætti Kristjáni í gærkvöldi: „Maðurinn sem gerði þetta er í haldi lögreglunnar“

Ófögur sjón mætti Kristjáni í gærkvöldi: „Maðurinn sem gerði þetta er í haldi lögreglunnar“
Fréttir
Í gær

Saxenda bætti lífsgleði, lífgæði, liðleika og úthald en SÍ neituðu að halda áfram að niðurgreiða

Saxenda bætti lífsgleði, lífgæði, liðleika og úthald en SÍ neituðu að halda áfram að niðurgreiða
Fréttir
Í gær

Meira en 10.000 kynsjúkdómatilfelli greind á Íslandi síðan 2020 – Sjáðu hvaða kynsjúkdómur er algengastur

Meira en 10.000 kynsjúkdómatilfelli greind á Íslandi síðan 2020 – Sjáðu hvaða kynsjúkdómur er algengastur
Fréttir
Í gær

Bjarkey strax undir miklum þrýstingi: „Það hefur gríðarlegar afleiðingar fyrir ráðherra að fara ekki að lögum“

Bjarkey strax undir miklum þrýstingi: „Það hefur gríðarlegar afleiðingar fyrir ráðherra að fara ekki að lögum“
Fréttir
Í gær

Viðbúnaður vegna vélarvana flutningaskips

Viðbúnaður vegna vélarvana flutningaskips