Fréttir

Glötuð tækifæri

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
Þriðjudaginn 6. desember 2016 06:00

Þegar forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, veitti Birgittu Jónsdóttur, fulltrúa Pírata, umboð til stjórnarmyndunar greip um sig töluverð ógleði meðal fulltrúa sumra annarra flokka. Það var eins stjórnmálaleiðtogunum þættu þeir vera sviknir. Staðreyndin er auðvitað sú að þeir höfðu fengið tækifæri sem þeir nýttu sér ekki. Þeir misstu af möguleika til að mynda starfhæfa ríkisstjórn, sennilega í og með vegna þess að þeir sýndu ekki nægilegan sveigjanleika í samningaviðræðum. Auk þess höfðu þeir útilokað alls kyns samstarf fyrirfram. Slíkt kann sjaldnast góðri lukku að stýra.

Bjarni Benediktsson varð fyrstur til að reyna að mynda ríkisstjórn, en mætti áhugaleysi enda er flokkur hans lítið gefinn fyrir kerfisbreytingar og telur óbreytt ástand ákjósanlegt meðan aðrir flokkar krefjast flestir breytinga á hinum ýmsu sviðum. Það var líka eins og aðrir flokkar óttuðust að Sjálfstæðisflokkurinn myndi gleypa þá færu þeir í samstarf við hann. Vinstri-græn virtust svo vera í vænlegri stöðu þegar Katrín Jakobsdóttir fékk stjórnarmyndunarumboðið en það var engu líkara en flokkurinn kærði sig alls ekki um að verða ráðandi afl í ríkisstjórn. Flokkurinn aftók að fara í ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokk og áhuginn á fimm flokka ríkisstjórn virtist heldur ekki nægilega mikill.

Það hlýtur að teljast meiriháttar afrek fari svo að Pírötum takist að mynda þá fimm flokka ríkisstjórn sem Katrínu Jakobsdóttur tókst ekki. Reyndar er engin ástæða til að ætla að Pírötum takist þetta erfiða verkefni. Ýmsir ganga ófúsir til þessa leiks, eins og til dæmis Viðreisn. Þingmenn þess flokks hafa gagnrýnt forsetann fyrir að hafa veitt Pírötum stjórnarumboðið og segja hann hafa verið of óþolinmóðan og betra hefði verið að bíða þar sem menn hafi verið að tala saman. Ekki verður annað af þeim orðum ráðið en að Viðreisn sé tilbúin í frekari viðræður við Sjálfstæðisflokkinn. Bjarni Benediktsson vill svo enn láta reyna á stjórnarmyndun með Viðreisn og Bjartri framtíð. Formaður Sjálfstæðisflokksins á ekki marga möguleika í stöðunni og það væri vitaskuld óþolandi fyrir flokkinn að vera utan ríkisstjórnar, með um 30 prósenta fylgi á bak við sig. Reyndar væri slík staða algjörlega skjön við úrslit kosninganna þar sem hin borgaralegu öfl stóðu uppi sem sigurvegarar.

Staðan er áhugaverð og um margt merkileg. Um einn flokk er aldrei rætt, en það er Framsóknarflokkurinn sem aðrir flokkar virðast líta á sem eitrað peð. Nýr formaður Samfylkingarinnar sagði á dögunum að Framsóknarflokkurinn þyrfti að taka til heima hjá sér ætlaði hann sér að vera gjaldgengur í stjórnarmyndunarviðræðum. Þetta eru fremur kjánaleg ummæli formanns flokks sem hefur glímt við heimilisþrætur í meira mæli en flestir flokkar. Ekki er útilokað að kalla þurfi Framsóknarflokkinn að borðinu og engan veginn er skynsamlegt að útiloka flokk sem fékk um 12 prósent atkvæða í kosningum.

Ríkisstjórnarsamstarf ólíkra flokka kostar málamiðlanir og þar mætast menn á miðri leið. Samtalið þarf að taka en ekki slíta viðræðum við fyrsta ósætti. Okkur er sagt að menn séu að tala saman. Það veit á gott því orð eru til alls fyrst.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af