fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Vísindamenn uggandi

Svört skýrsla um loftslagsbreytingar – Óttast óafturkræfar breytingar

Einar Þór Sigurðsson
Miðvikudaginn 30. nóvember 2016 22:00

Svört skýrsla um loftslagsbreytingar - Óttast óafturkræfar breytingar

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Viðvörunarbjöllurnar verða bara háværari,“ segir Marcus Carson, loftslagssérfræðingur hjá sænsku umhverfisstofnuninni, um þá ógnvekjandi þróun sem nú á sér stað á norðurskautinu. Ísbreiðan þar hefur aldrei verið jafn lítil og um þessar mundir og hefur hiti á svæðinu verið um 20 gráðum á Celsíus hærri en í meðalári.

Á dögunum kom út skýrsla, The Arctic Resilience Report, þar sem dregin er upp dökk mynd af stöðu mála og framtíðarhorfum. Í niðurstöðum skýrslunnar, sem var unnin af 11 samtökum, þar á meðal Norðurskautsráðinu, og sex háskólum, kemur fram að áframhaldandi bráðnun íshellunnar gæti valdið óafturkræfum breytingum á vistkerfi alls heimsins.

Marcus Carson segir að Bandaríkjamenn, og sér í lagi Donald Trump, væru að gera mikil mistök með því að klippa á fjárframlög til rannsókna á loftslagsbreytingum.
Alvarlegur vandi Marcus Carson segir að Bandaríkjamenn, og sér í lagi Donald Trump, væru að gera mikil mistök með því að klippa á fjárframlög til rannsókna á loftslagsbreytingum.

Hættulegir vendipunktar

Í skýrslunni er ljósi varpað á svokallaða vendipunkta (e. tipping points), sem verða þegar loftslag fer mjög skyndilega úr einu stöðugu ástandi yfir í annað stöðugt ástand með tilheyrandi áhrifum á nærliggjandi vistkerfi.

Einn þeirra vendipunkta sem bent var í skýrslunni á við um freðmýrarnar á nyrsta gróðurbelti jarðar. Hlýnandi loftslag – og bráðnun íss þar með – mun hafa þær afleiðingar að gróðurlendi mun vaxa og koma í staðinn fyrir ísþekjuna. Gróðurinn drekkur í sig meiri hita en ísinn sem aftur flýtir fyrir bráðnun íss. Þiðnandi sífreri mun svo leiða til aukinnar losunar á metangasi sem er mjög öflug gróðurhúsalofttegund. Öll þessi keðjuverkun er talin geta valdið verulegum breytingum á veðurkerfum jarðar – og er þá enginn óhultur; áhrifanna mun gæta um allan heim og í öllum vistkerfum, til dæmis með hruni fiskistofna í Norður-Íshafi.

Mjög óvenjulegt

Eins og áður segir hafa mikil hlýindi verið á norðurskautinu undanfarnar vikur og hefur ís þar bráðnað mun hraðar en í venjulegu árferði. Undir venjulegum kringumstæðum á þessum árstíma ætti kuldinn á norðurskautinu að verða til þess að hafís myndast, hægt og rólega. En engin hafísmyndun hefur verið á svæðinu undanfarnar vikur heldur hefur ísbreiðan bráðnað sem er mjög óvenjulegt á þessum árstíma.

Vísindamenn hafa lengi velt mögulegum áhrifum af þessu fyrir sér og þeim keðjuverkunum sem gætu orðið með hlýnun jarðar og bráðnun íshellunnar á norðurskautinu. Í umfjöllun Guardian um málið í liðinni viku var bent á dæmi:

Ef tiltölulega lítil ísbreiða bráðnar á einum stað mun bráðnunin hafa áhrif á fleiri stöðum. Ísbreiðan endurvarpar sólarljósi og heldur bæði sjónum og loftinu í kring köldu. Þegar ísinn bráðnar drekkur sjórinn meiri hita í sig sem hefur þau áhrif að ísinn bráðnar og loftið hlýnar. Þá fer af stað keðjuverkun sem hefur ófyrirséðar afleiðingar. Þetta er í meginatriðum sama þróun og fjallað var um hér að framan um freðmýrararnar á norðurslóðum. Vísindamenn segja að enginn vafi leiki á því að þær aðstæður sem verið hafa á norðurskautinu undanfarnar aldir hafi gríðarleg áhrif á veðurkerfi um allan heim.

„Þetta væri eins og að rífa flugstjórnarklefann úr flugvél í miðju flugi.“

Yrðu mikil mistök

Skýrslan, og þróunin á norðurskautinu, kemur á sama tíma og nýkjörinn Bandaríkjaforseti, Donald Trump, hefur heitið því að draga til baka fjárframlög til loftslagsrannsókna. Stofnanir á borð við NASA og fleiri sem sérhæfa sig í rannsóknum á loftslagsbreytingum hafa notið góðs af framlögum bandarískra yfirvalda en Trump vill frekar verja peningunum til rannsókna í geimnum.

„Það yrðu mikil mistök,“ segir Marcus Carson við breska blaðið Guardian um þessar fyrirætlanir og bætir við að nú á tímum sé einmitt þörf á frekari rannsóknum, bæði til að skilja afleiðingar loftslagsbreytinga og ekki síður hvernig eigi að bregðast við þeim. „Þetta væri eins og að rífa flugstjórnarklefann úr flugvél í miðju flugi. Þetta er mjög alvarlegur vandi sem við stöndum frammi fyrir og breytingarnar eru mjög alvarlegar, en við skiljum þær ekki enn alveg til hlítar. Við þurfum á frekari rannsóknum að halda og hingað til hafa Bandaríkjamenn verið í fararbroddi hvað það varðar,“ segir Carson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“