fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Keyptu aflandskrónur á lægra gengi rétt fyrir útboð

Vogunarsjóðir áttu viðskipti á genginu 195 krónur gegn evru nokkrum vikum fyrir aflandskrónuútboð

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 29. nóvember 2016 13:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eigendur aflandskróna áttu viðskipti með slíkar krónueignir á lægra gengi en 190 krónur fyrir hverja evru aðeins nokkrum vikum áður en Seðlabanki Íslands hélt sérstakt gjaldeyrisútboð þar sem stór hluti aflandskrónueigenda féllst ekki á að losa um eignir sínar fyrir erlendan gjaldeyri á því gengi. Íslensk stjórnvöld vöktu athygli á þessu í athugasemdum sínum til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) síðastliðið sumar í kjölfar kvartana sem bárust frá tveimur stórum aflandskrónueigendum – vogunarsjóðnum Autonomy Capital og sjóðastýringarfyrirtækinu Eaton Vance – um að aðgerðir stjórnvalda um að losa fjármagnshöft hafi falið í sér ólögmæta eignaupptöku og brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Í tilkynningu sem ESA sendi frá sér í síðustu viku kom fram að ESA tæki ekki undir kvörtun aflandskrónueigenda. Aðgerðir íslenskra yfirvalda hefðu verið í samræmi við skuldbindingar Íslands gagnvart EES-samningnum.

Þegar úrskurður ESA er lesinn í heild sinni kemur í ljós að stofnunin tekur ekki undir neinar af athugasemdum sjóðanna. Þannig segir í úrskurðinum að þeir hafi ekki lagt fram nein gögn sem sýni fram á að íslensk stjórnvöld hafi með gjaldeyrisútboði Seðlabankans þvingað erlenda aðila sem áttu aflandskrónur til að samþykkja „óeðlilegan afslátt“ af krónueignum sínum. Þvert á móti, eins og stjórnvöld nefna í bréfi sínu til ESA, sé ástæða til að benda sérstaklega á í því samhengi að vísbendingar séu um viðskipti með aflandskrónur á lægra gengi en 190 krónum gagnvart evru nokkrum vikum fyrir útboð Seðlabankans. Samkvæmt heimildum DV áttu þau viðskipti sér stað á genginu 195 krónur fyrir hverja evru og var það vogunarsjóðurinn Autonomy Capital sem stóð að baki kaupunum.

Autonomy tregastur í taumi

Sami sjóður var hins vegar á meðal þeirra aflandskrónueigenda sem tóku ekki þátt í útboði Seðlabankans 16. júní síðastliðinn, eða skiluðu inn tilboðum sem bankinn féllst ekki á, og þurfa þess í stað að lúta því enda fastir með fé sitt á vaxtalausum reikningum um ófyrirséðan tíma. Í þessum hópi eru langsamlega umsvifamestir, með aflandskrónur upp á um 150 milljarða, vogunarsjóðirnir Autonomy Capital og Discovery Capital ásamt sjóðastýringarfyrirtækjunum Loomis Sayles og Eaton Vance. Á fundum sem sjóðirnir áttu með fulltrúum íslenskra stjórnvalda í aðdraganda aflandskrónuútboðsins, eins og greint var frá í DV 8. júlí síðastliðinn, kom fram að þeir vildu ekki losna út fyrir höft með eignir sínar í skiptum fyrir gjaldeyri á gengi sem væri óhagstæðara en 165 krónur fyrir hverja evru. Slík niðurstaða hefði þýtt útboðsgengi sem væri um 15 prósentum lægra en þáverandi skráð gengi krónunnar.

Vogunarsjóðurinn Discovery Capital var sá eini sem skilaði inn tilboðum í gjaldeyrisútboði, sem voru samþykkt af Seðlabankanum, og minnkaði um 17 milljarða aflandskrónueign sjóðsins við það um helming. Af fjárfestingarsjóðunum fjórum er Discovery Capital minnsti aflandskrónueigandinn – sjóðurinn var á sínum tíma langsamlega stærstur – en hinir sjóðirnir eiga hver um sig aflandskrónur að fjárhæð 30 til 40 milljarða. Í opinberum fjárhagsupplýsingum frá Loomis Sayles og Eaton Vance má sjá að sjóðirnir bókfæra þær eignir hjá sér á annars vegar 220 krónur gagnvart evru og hins vegar 195 krónur fyrir hverja evru. Að stórum hluta keyptu sjóðirnir þessar aflandskrónur á sínum tíma á genginu 270 til 300 krónur fyrir hverja evru.

Í kjölfar útboðs Seðlabankans áttu fulltrúar stjórnvalda og helstu eigendur aflandskróna í óformlegum samskiptum til að kanna hvort grundvöllur væri fyrir samkomulag um að leysa út eignir þeirra sem væri ásættanlegt fyrir báða aðila. Þær tilraunir báru aftur á móti engan árangur ekki frekar en þegar Bandaríkjamaðurinn Rob Citrone, stofnandi og forstjóri Discovery Capital, reyndi að fá alla sjóðina til ná sameiginlegu samkomulagi við íslensk stjórnvöld. Sá fjárfestingarsjóður sem reyndist langsamlega tregastur í taumi gagnvart stjórnvöldum er Autonomy Capital, sem er samtals með eignir upp á um fimm milljarða Bandaríkjadala í stýringu, en sá sem fer fyrir sjóðnum er Robert Gibbins. Aflandskrónueign sjóðsins nemur um 35 milljörðum og eru eignirnar nánast að öllu leyti í ríkisskuldabréfum sem eru á gjalddaga á þessu ári og því næsta.

Hafa talsvert svigrúm

Í fyrrnefndri tilkynningu sem ESA sendi frá sér í liðinni viku var bent á að standi EES-ríki frammi fyrir greiðslujöfnunarvanda eða alvarleg hætta sé á að örðugleikar skapist þá hafi stjórnvöld og löggjafinn, samkvæmt því sem EES-samningurinn heimilar, talsvert svigrúm til að grípa til verndarráðstafana. „ESA telur meðferð íslenskra stjórnvalda á aflandskrónum til ráðstafana sem samræmast EES-samningnum. Markmið laganna er að skapa grundvöll fyrir frjálst flæði íslensku krónunnar, sem á endanum mun gera Íslandi kleift að taka á ný fullan þátt í frjálsum fjármagnsflutningum,“ var haft eftir Frank J. Büchel, sem fer með málefni fjármálamarkaða í stjórn ESA, í tilkynningu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Landsmenn hvattir til að fara yfir bólusetningar sínar áður en farið er í ferðalög til Evrópu og Bandaríkjanna

Landsmenn hvattir til að fara yfir bólusetningar sínar áður en farið er í ferðalög til Evrópu og Bandaríkjanna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið