fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Forðuðu Havila frá þroti á elleftu stundu

Kröfuhafar samþykktu tillögu skipafélagsins sem fékk 5,7 milljarða hjá Arion og Íslandsbanka

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 29. nóvember 2016 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hópur kröfuhafa norska skipafélagsins Havila Shipping ASA samþykkti í gær tillögu um fjárhagslega endurskipulagningu og forðaði fyrirtækinu frá gjaldþroti rúmri klukkustund áður en frestur þess rann út. Samkvæmt því fær Arion banki einungis 15 prósent af útistandandi kröfum sínum á Havila, auk kaupréttar á hlutafé, en bankinn lánaði skipafélaginu jafnvirði fjögurra milljarða króna. Ólíkt láni Arion banka var meirihluti 1,7 milljarða króna krafna Íslandsbanka á norska fyrirtækið tryggður með veðum í eignum þess.

Vildu meirihluta

Stjórn Havila gaf hópi óveðtryggðra skuldabréfaeigenda frest til 14.00 að íslenskum tíma í gær, mánudag, til að samþykkja tillöguna. Kröfuhafarnir höfðu þá gefið út að samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu við eigendur fyrirtækisins og stærstu lánardrottna þess, sem náðist þann 9. nóvember, yrði stöðvað. Samningsins hafði þá verið beðið síðan í febrúar þegar hópur kröfuhafa hafnaði fyrri tillögu um endurskipulagningu. Skuldabréfaeigendurnir samþykktu aftur á móti tillöguna um klukkan 12.30 að íslenskum tíma og féllu frá sinni fyrri kröfu um að þeirra útfærsla á endurskipulagningu yrði samþykkt. Vildu þeir breyta kröfum sínum í hlutafé og eignast meirihluta í félaginu. Tveir þriðju hópsins samþykktu tillöguna á mánudag en 71 prósent þeirra hafnaði henni í síðustu viku.

Samkomulagið á að tryggja áframhaldandi rekstur olíuþjónustuskipaflota Havila sem hefur glímt við mikla rekstrarörðugleika síðan olíuverð fór að hrynja á seinni hluta 2014. Afborganir af lánum félagsins næstu fjögur ár lækka úr 3,2 milljörðum norskra króna, rétt tæpum 43 milljörðum íslenskra króna, í 67 milljónir norskra. Hreinar skuldir lækka um 1,6 milljarða norskra, jafnvirði 21 milljarðs króna, og eigendur félagsins munu leggja því til nýtt hlutafé og sjá til þess að hluti 27 skipa flota Havila verði seldur. Þá verður tilteknum skuldum breytt í eignarhluti í fyrirtækinu og aðrir hluthafar en Havila Holding, sem á í dag 51 prósents hlut, þynnast út. Stærsti eigandinn lofaði 118 milljónum norskra í nýtt hlutafé og víkjandi láni upp á 46,2 milljónir. Havila Holding er í eigu Per Sævik, stofnanda skipafélagsins, og fjölskyldu hans.

„Niðurstaðan ásættanleg“

Íslandsbanki tók í árslok 2014, ásamt Sparebank1 SMN í Noregi, þátt í 475 milljóna norskra króna sambankaláni til Havila. Hlutur bankans nam samkvæmt fréttum á þeim tíma 130 milljónum norskra eða 1,7 milljörðum íslenskra króna miðað við núverandi gengi. Hálfu ári síðar lánaði Arion banki Havila 300 milljónir norskra króna eða fjóra milljarða króna. Samkvæmt svari Íslandsbanka við fyrirspurn DV var meirihluti lánsupphæðarinnar tryggður með veðum í eignum norska fyrirtækisins. Það þýðir að sá hluti lánsins verður að nýju hlutafé í Havila og bankinn fær hluta þess greiddan til baka þegar eitthver af skipum fyrirtækisins verða seld. Arion banki fór ekki fram á að eignir yrðu veðsettar sem trygging fyrir endurgreiðslum. Taka ber fram að DV hefur ekki upplýsingar um hversu mikið bankarnir tveir höfðu fengið til baka af upprunalegum lánsfjárhæðum áður en endurskipulagning Havila hófst í fyrra en þá hætti það að greiða afborganir af höfuðstól lána og vexti.

„Eins og fram kom í Kauphallartilkynningu hafa 2/3 skuldabréfaeigenda samþykkt tillöguna um endurskipulagningu félagsins. Staðan er ennþá mjög viðkvæm því formleg atkvæðagreiðsla er eftir. Þetta eru hinsvegar jákvæðar fréttir og niðurstaðan ásættanleg fyrir alla sem að málinu koma,“ segir í svari Íslandsbanka við fyrirspurn DV.

Arion banki réðst í lok árs 2015 í verulega varúðarniðurfærslu á lánum til erlendra fyrirtækja í þjónustustarfsemi tengdri olíuleit. Greint var frá ákvörðuninni í ársreikningi bankans en ekki tilgreint sérstaklega um hversu mikið útlánin til Havila voru færð niður. Miðað við tillögu norska skipafélagsins um endurskipulagningu er ljóst að tapið mun nema milljörðum króna. Lán Íslandsbanka til Havila var einnig fært niður í fyrra en bankinn hefur ekki viljað upplýsa um upphæð niðurfærslunnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Í gær

Snorri furðar sig á Byggðastofnun – Sagður gera lítið úr þeim sem ekki tala íslensku

Snorri furðar sig á Byggðastofnun – Sagður gera lítið úr þeim sem ekki tala íslensku
Fréttir
Í gær

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglan sleppir tveimur í morðmálinu á Suðurlandi

Lögreglan sleppir tveimur í morðmálinu á Suðurlandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu