fbpx
Laugardagur 23.febrúar 2019
Fréttir

Jóhannes Gísli í sex mánaða fangelsi

Sveik vörur út úr vefverslun Elko fyrir um 1 milljón króna

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 25. nóvember 2016 09:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jóhannes Gísli Eggertsson hefur verið dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir umfangsmikil fjársvik úr vefverslun ELKO. DV greindi frá því þann 4.mars síðastliðinn að Jóhannes Gísli hefði verið kærður til lögreglu vegna málsins. Hann harðneitaði sök og hótaði blaðinu málsókn.

Sendi falsaðar kvittanir í tölvupósti

Í dómnum kemur fram að Jóhannes Gísli hafi í fjögur skipti, á tímabilinu 17-21.febrúar pantaði vörur, fyrir um 1 milljón króna, meðal annars Samsung 43″ snjallsjónvarp og iMac fartölvu, og síðan sent falsaða greiðslukvittun í tölvupósti. Hann hafi síðan nálgast vörurnar í verslun ELKO daginn eftir. Í tvö skipti reyndi Jóhannes Gísli sama leik og freistaði þess að fá vörurnar sendar í pósti auk þess sem hann sendi annan aðila til þess að sækja vörurnar. Þær tilraunir misheppnuðust.

Hefur ákærði í þrjú skipti hlotið refsidóma fyrir auðgunarbrot. Með dómi 31. maí 2012 var ákærða gert að sæta átta mánaða fangelsi skilorðsbundið til tveggja ára fyrir brot gegn 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þann 23. janúar 2014 var ákærði dæmdur í níu mánaða fangelsi, þar af sex mánuði skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir brot á áfengislögum og almennum hegningarlögum, þar með talið brot gegn 248. gr. laganna. Var fyrrnefndur skilorðsdómur frá 31. maí 2012 dæmdur upp í hinu síðarnefnda máli. Þann 24. júní 2014 var ákærði dæmdur í eins mánaðar fangelsi fyrir fjársvik, sem var skilorðsbundið til tveggja ára. Var sá dómur hegningarauki við fyrrnefndan dóm 23. janúar 2014. Með brotum þeim sem ákærði er nú sakfelldur fyrir hefur hann rofið skilorð sem honum var sett með dómi 24. júní 2014. Verður sá dómur tekinn upp og ákærða gerð refsing í einu lagi fyrir öll brotin, sbr. 60. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga. Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Vegna sakarferils ákærða þykja ekki vera skilyrði til að binda refsingu ákærða skilorði, hvorki að hluta til né í heild.

Þrír fyrri refsidómar fyrir auðgunarbrot

DV hefur fjallað ítarlega um feril Jóhannesar Gísla sem hefur í þrjú skipti hlotið refsidóma fyrir auðgunarbrot. Hann var dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára í maí 2012. Þá var hann dæmdur í níu mánaða fangelsi, þar af sex mánuði bundna skilorði, í janúar 2014 fyrir margvísleg brot, meðal annars fyrir að selja sama símann þrisvar sinnum á bland.is. Síðar sama ár var hann dæmdur í eins mánaða fangelsi fyrir fjársvik, skilorðsbundið til tveggja ára.

Fyrir utan þessi brot hefur athafnasemi Jóhannesar Gísla reglulega verið tilefni til umfjöllunar. Í viðtali við DV í mars 2015 sagði Jóhannes Gísli: „Fortíðin mun alltaf elta mig en ég þarf bara að fá tíma til að sýna fólki hvernig ég er orðinn í dag. Ávinna mér traust.“ Hann hefur stofnað fjölmargar vefsíður sem meðal annars hafa gengið út á tölvuviðgerðir, stefnumót, ólöglegar útsendingar á enska boltanum, fréttir af frægu fólki og hópkaupasíðu. Á síðastnefndu síðunni, magnkaup.is, stóð Jóhannes Gísli fyrir Facebook-leik, þar sem hann lofaði vinningshafanum ferð til Spánar og 250 þúsundum króna í gjaldeyri. Vinningshafinn, sem vildi vera nafnlaus, staðfesti við DV að hann hefði fengið vinninginn og notið hans í botn.

Hér má kynna sér nýfallinn dóm Héraðsdóm Reykjaness

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af