fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Þórólfur barinn til óbóta fyrir framan móður sína

„Sá bara svart og rotaðist“ – Missti af stóru atvinnutækifæri – Mæðgin í áfalli

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Þriðjudaginn 15. nóvember 2016 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórólfur Júlían Dagsson hefur kært tvo menn fyrir líkamsárás sem átti sér stað um hábjartan dag í Borgartúni þann 13. júlí síðastliðinn. Vitni að árásinni gáfu skýrslu nú fyrir helgi. Þórólfur rotaðist við árásina en hún var að hans sögn tilefnislaus en móðir hans varð vitni að því þegar hann var sleginn niður. Var hún í áfalli eftir að hafa séð son sinn liggja í blóði sínu. Þórólfur var í 3. sæti á lista Pírata í Suðurkjördæmi og er kafteinn Pírata á Suðurnesjum. Hann er reyndur sjómaður og skipstjóri til margra ára. Segir hann árásina hafa skemmt mikið fyrir sér, bæði andlega og þá hafi hann misst af stóru atvinnutækifæri á meðan hann var að jafna sig á meiðslunum.

„Er ekki allt í lagi með ykkur?“

Í samtali við blaðamann lýsir Þórólfur atburðarásinni á þá leið að hann hafi verið farþegi í bíl móður sinnar og voru þau að aka niður Borgartún í töluverðri umferð þegar bílstjóri svarts jeppa freistaði þess að aka þvert fyrir þau og inn á næsta bílaplan.

„Það var ekki mögulegt að hleypa þeim í gegn, við vorum alveg uppi við annan bíl.“

Þórólfur segir farþega jeppans hafi tekið þessu illa og fengu þau mæðgin fúkyrðaflauminn yfir sig. Umferðin mjakaðist loks áfram og þegar ökumaður jeppans tók beygjuna inn á bílaplanið fyrir aftan þau henti farþegi jeppans einhverju í bíl þeirra mæðgina. Við það heyrðist töluverður dynkur og óttaðist Þórólfur að bíllinn hefði orðið fyrir hnjaski.

„Djöfull ert þú harður að stíga út úr bílnum.“

„Ég fór strax út úr bílnum til að athuga hvort það hefðu orðið einhverjar skemmdir. Tveir menn stigu þá út úr jeppanum, annar þeirra var Kristens Brynjar Kristensson en hinn þekkti ég ekki,“ segir Þórólfur. Í aftursætinu var Sævar Hilmarsson en hann tók ekki þátt í árásinni.

„Ég var eðlilega reiður og kallaði til þeirra: „Er ekki allt í lagi með ykkur?“ Ég sá strax að þeir voru í annarlegu ástandi. Ég vissi ekki á þessum tímapunkti hverjir þessir menn voru og hugsaði að þeir gætu átt við geðræn vandamál að stríða og þyrftu jafnvel hjálp en eftir á að hyggja hljóta allir sem hegða sér með þessum hætti að eiga við vandamál að stríða. Ég ákvað því að hörfa.“

Þórólfur segir að annar mannanna hafi öskrað: „Djöfull ert þú harður að stíga út úr bílnum“ og fylgdi högg í kjölfarið. Þórólfur lagði þá á flótta en segir mennina hafa fylgt honum fast á eftir.

„Hann sló mig eins fast eins og hann gat í andlitið og ég sá bara svart og rotaðist,“ segir Þórólfur. Það fossaði blóð úr nefi hans. „Vitni sögðu að þau hefðu séð að sparkað hefði verið í höfuðið á mér þar sem ég lá í götunni en þeir létu sig síðan hverfa.“

Menn sem þurfa á hjálp að halda

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Eftir árásina var Þórólfur með töluverða áverka. „Móðir mín tók þetta nærri sér og það fékk á hana að verða vitni að árásinni.“ Þórólfur var frá í margar vikur vegna bakmeiðsla, en hann stundaði sjómennsku á þessum tíma og hafði verið boðið að eignast hlut í bát ásamt félaga sínum með því að veiða upp í hlutinn.

„Ég og félagi minn vorum komnir með munnlegt samkomulag um að við myndum vinna saman með það að markmiði að eignast þennan bát. Það datt alveg gjörsamlega upp fyrir.“

Þórólfur segir ólíðandi að ekki sé hægt að stöðva menn sem séu til vandræða í samfélaginu. Þetta séu menn sem þurfi á hjálp að halda og eigi ekki að fá að leika lausum hala í samfélaginu, í sumum tilfellum virðist engu skipta þótt menn séu á skilorði vegna annarra brota. Bendir hann á að lögreglan hafi myndskeið af árásinni undir höndum. Þórólfur var frá vinnu í nokkrar vikur vegna árásarinnar og kveðst ekki enn kominn yfir erfiðasta hjallann.

„Ég er ekki búinn að jafna mig andlega á árásinni. Ég hef ekki haft tíma til þess að fara í gegnum þessa ferla, og sálfræðimeðferðir eru ekki greiddar niður eins og tímar hjá geðlæknum og því hefur verið erfitt um vik að sækja áfallahjálpina sem nauðsynleg er fyrir mig og móður mína.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt