Laun þingmanna hækka um 340 þúsund á mánuði

Ráðherrar hækka um tæp 500 þúsund á mánuði en Forseti Íslands um 600 þúsund krónur

Sama dag og Íslendingar kusu til Alþingis ákvað Kjararáð á fundi sínum að hækka þingfarakaup Alþingismanna og laun forseta Íslands verulega.

Breytingin tekur gildi frá og með 1. nóvember 2016. Þá skulu laun forseta Íslands vera 2.985.000 krónur á mánuði. Áður voru laun forseta um 2,3 milljónir og því hækkar Guðni Th. Jóhannesson um tæpar 700 þúsund krónur á mánuði. Það er um 30% hækkun.

Þingfarakaup Alþingismanna verður 1.101.194 krónur á mánuði en var áður 762.940 kr. Það er hækkun um 338.254 kr. og er launahækkun uppá 44%.

Laun verðandi ráðherra hækka úr 1.347.330 krónum á mánuði í 1.826.273 kr. á mánuði. Það er hækkun um 478.943 kr. á mánuði sem gera 35% hækkun.

Samkvæmt lauslegum útreikningum hækkar launakostnaður Alþingis um 21 milljón á mánuði útaf ákvörðuninni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.