fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir fengju helming atkvæða

Fjórðungur styður Sjálfstæðisflokkinn – Samfylkingin aldrei mælst minni

Ritstjórn DV
Föstudaginn 28. október 2016 11:46

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helmingur kjósenda styður stjórnarandstöðuflokkana fjóra, Samfylkingin hefur aldrei mælst minni og fjórðungur kjósenda hyggst kjósa Sjálfstæðisflokkinn í kosningunum á morgun, ef marka má nýja skoðanakönnun MMR. Flokkurinn bætir við sig rétt um þremur prósentustigum frá síðustu könnun og mælist nú með 24,7 prósent fylgi. Í síðustu könnun, sem lauk 26. október, mældist fylgi flokksins 21,9 prósent.

Píratar mælast nú með 20,5 prósenta fylgi en mældust síðast með 19,1 prósent. Vinstri græn njóta stuðnings 16,2 prósenta aðspurðra sem er nánast sama fylgi og síðast. Framsóknarflokkurinn mælist nú litlu hærri en í síðustu könnun, nýtur fylgis 11,4 prósenta kjósenda en mældist síðast með 10 prósenta fylgi.

Viðreisn mælist með 8,9 prósenta fylgi, litlu minna en síðast en þá mældist flokkurinn með 9,3 prósent. Þá segjast 6,7 prósent ætla að kjósa Bjarta framtíð, tveimur prósentustigum minna en síðast. Samfylkingin hefur aldrei mælst minni frá því að MMR hóf mælingar. 6,1 prósent kjósenda styðja flokkinn en voru 7,6 prósent síðast. Aðrir flokkar mælast með fylgi um og yfir tvö prósent. Þar af mælist Flokkur fólksins með 2,4 prósenta fylgi.

Stjórnarandstöðuflokkarnar fjórir sem fundað hafa að undanförnu um hugsanlegt stjórnarsamstarf, Píratar, Vinstri græn, Björt framtíð og Samfylkingin fengju samkvæmt þessu rétt um helming allra atkvæða, 49,5 prósent. Stjórnarflokkarnir tveir, Sjálfstæðisflokkur og Framsókn njóta stuðnings 36,1 prósents kjósenda. Ekki er þó hægt að fullyrða að stjórnarandstaðan fengi meirihluta þingmanna kjörna þó líkur séu til þess. Sá meirihluti yrði þá alltaf naumur.

Sé horft til bakgrunns kjósenda flokkanna kemur í ljós að mun fleiri konur en karlar styðja Vinstri græn. 24 prósent kvenna styðja flokkinn en aðeins 9 prósent karla. Flokkurinn á einnig mestan stuðning meðal elstu kjósendanna. Píratar sækja aftur á móti langmest fylgi sitt til yngstu kjósendanna. 33 prósent þeirra sem eru yngri en 29 ára hyggjast kjósa Pírata og 26 prósent þeirra sem eru á aldrinum 30 til 49 ára. Mun minni stuðningur er við flokkinn meðal eldri kjósenda.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga