Fréttir

Dýrkeypt óvissuferð

Ritstjórn DV
Föstudaginn 28. október 2016 08:30

Það er ekki alltaf samhengi á milli þess sem á sér stað í þjóðarbúskapnum og stjórnmálum hverju sinni. Sú staðreynd á hvað ekki síst við nú þegar Íslendingar ganga til kosninga á morgun, laugardag, þar sem hægt er að slá því föstu að kjósendur muni ekki framlengja líf núverandi ríkisstjórnar í óbreyttri mynd. Þetta mun gerast þrátt fyrir að heimili og fyrirtæki séu um þessar mundir að upplifa eitt lengsta, samfellda hagvaxtarskeið í sögu landsins. Allir hagvísar, hvert sem litið er, sýna glögglega að staða og horfur í íslensku efnahagslífi hafa aldrei verið betri.

Þegar litið er baka til ársins 2013 þá var fátt sem benti til að staðan yrði með slíkum hætti rúmlega þremur árum síðar. Hægfara efnahagsbati var vissulega hafinn, með hóflegum hagvexti og minnkandi atvinnuleysi, en skuldir hins opinbera voru enn miklar og halli var ennþá á rekstri ríkisins. Fíllinn í herberginu – hinn stóri óleysti vandi sem vofði yfir öllu íslensku efnahagslífi – var hins vegar hvernig til tækist að koma fram með trúverðuga og heildstæða áætlun um losun hafta, ekki síst í tengslum við skuldaskil föllnu bankanna. Stjórnvöld fengu þar aðeins eitt skot og það þurfti að heppnast, eins og seðlabankastjóri orðaði það eftirminnilega, en að öðrum kosti var hætta á annarri kollsteypu samhliða gengishruni krónunnar og lausafjárkreppu í fjármálakerfinu.

Þegar stjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins tók við völdum var raunveruleg vinna við áætlun um afnám hafta ekki hafin. Óskuldsettur forði Seðlabankans var neikvæður um hundrað milljarða þar sem allur viðskiptafgangur undanfarinna ára, sem nam samtals mörg hundruð milljörðum króna, hafði runnið til erlendra aðila, að stærstum hluta kröfuhafa Landsbankans. Ljóst var því að það myndi þurfa róttækar – og fordæmalausar – aðgerðir ætti að takast að leysa greiðslujafnaðarvanda þjóðarbúsins og stíga skref við losun hafta. Þegar aðgerðaáætlun stjórnvalda var kynnt sumarið 2015 hafði gríðarlegt innflæði gjaldeyris, vegna uppgangs í ferðaþjónustu, gert Seðlabankanum kleift að byggja upp myndarlegan gjaldeyrisforða. Sú þróun hafði ekki farið framhjá erlendum kröfuhöfum. Þeir töldu vandann sem stafaði af slitabúunum vera smám saman að hverfa og að fátt réttlætti því lengur að þeir þyrftu að gefa eftir nánast allar krónueignir sínar. Ekkert tillit var aftur á móti tekið til þessara athugasemda kröfuhafa af hálfu stjórnvalda heldur varð niðurstaðan að lokum sú að gjaldeyrisforði Seðlabankans stækkaði um 40 milljarða við skuldaskil gömlu bankanna.

Ávinningur Íslands fólst ekki aðeins í framsali eigna sem eru metnar á mörg hundruð milljarða króna, sem verða nýttar til að lækka verulega opinberar skuldir og spara þannig ríkinu árlega tugi milljarða í vaxtakostnað, heldur ekki síður í þeirri staðreynd að áætlunin hefur þótt með eindæmum trúverðug í augum umheimsins. Afleiðingar þessa endurspeglast meðal annars í ört hækkandi lánshæfiseinkunn ríkisins og um leið bættum lánakjörum íslenskra banka, fyrirtækja og heimila.

Slík óvissuferð, með Pírata í broddi fylkingar, mun reynast dýrkeypt. Sagan kennir okkur nefnilega að það er hægur leikur að glutra niður góðri stöðu á skömmum tíma.

Haftaáætlun stjórnvalda og sú niðurstaða sem náðist varðandi uppgjör gömlu bankanna, sem lögmaðurinn Lee Buchheit hefur sagt „fordæmalausa í alþjóðlegri fjármálasögu,“ er þess vegna án vafa stærsta og merkilegasta afrek fráfarandi ríkisstjórnar. Þetta hefði aldrei tekist nema til hefði komið öflug pólitísk forysta, sem hafði sannfæringu fyrir því að þær aðgerðir sem grípa þyrfti til væru í senn lögmætar og nauðsynlegar, og að fengnir voru að verkefninu færustu sérfræðingar á íslenskum fjármálamarkaði. Þeir sem halda því fram að það hafi nánast verið formsatriði að fá kröfuhafa til að fallast á stöðugleikaskilyrði stjórnvalda, byggt á þeirri barnslegu trú um að kröfuhafar hafi í reynd ávallt verið reiðubúnir að semja um að gefa eftir krónueignir sínar, vita einfaldlega ekkert hvað þeir eru að tala um.

Ástæða er til að þetta sé hér rifjað upp, núna þegar þjóðin gengur að kjörkössunum, vegna þess að niðurstaða skuldaskila bankanna var forsenda þess að sá efnahagsstöðugleiki sem náðst hefur eftir fjármálaáfallið yrði ekki settur í uppnám. Það tókst – og gott betur en það. Skuldir íslenska ríkisins eru núna greiddar niður af meiri hraða en áður hefur þekkst. Hagvaxtarhorfur eru með besta móti. Erlend skuldastaða þjóðarbúsins er óðum að verða ein sú hagfelldasta sem þekkist á meðal vestrænna ríkja. Og verðbólga hefur mælst undir markmiði Seðlabankans samfellt í meira en þrjátíu mánuði. Takist að tryggja stöðugleika á vinnumarkaði og reka ríkissjóð áfram með afgangi er fyrirséð að vextir muni halda áfram að lækka á komandi misserum. Fyrir íslensk heimili myndi fátt hafa í för með sér meiri kjarabætur.

Þótt þorri almennings fari ekki varhluta af uppgangi í efnahagslífinu, sem byggist í þetta sinn á raunverulegri verðmætasköpun í þjóðarbúskapnum en ekki erlendri skuldsetningu, þá má vitaskuld ýmislegt betur gera til að rétta við hlut þeirra sem minnst mega sín. Slíkt er eðli málsins samkvæmt verkefni sem stjórnmálamenn standa frammi fyrir á öllum tímum. Þjóðin þarf hins vegar síst af öllu á því að halda að til valda komist flokkar sem tala fyrir kúvendingu á flestum sviðum samfélagsins; endurvekja viðræður um misráðna aðild að ESB, rífa stjórnarskrána í tætlur og boða ófjármögnuð ríkisútgjöld upp á nærri 200 milljarða með tilheyrandi verðbólgu og skattahækkunum á millistéttina. Slík óvissuferð, með Pírata í broddi fylkingar, mun reynast dýrkeypt. Sagan kennir okkur nefnilega að það er hægur leikur að glutra niður góðri efnahagsstöðu á skömmum tíma.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af