fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Vistheimili barna löngu sprungið

Börn hafa þurft að sofa á skrifstofu – Mikið álag í sumar – Nýtt húsnæði bíður á teikniborðinu

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 25. október 2016 07:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Okkur bráðvantar húsnæði. Þetta er voða vinalegt og fallegt hús en það er bara sprungið,“ segir Heiðrún Harpa Helgadóttir, forstöðukona Vistheimilis barna, Laugarásvegi 39, sem er úrræði á vegum Reykjavíkurborgar fyrir börn sem Barnavernd Reykjavíkur hefur þurft að fjarlægja af heimilum sínum. Ástæður þess geta verið margvíslegar, allt frá vanrækslu, ofbeldi eða áfengis- og/eða vímuefnaneyslu foreldranna. Í húsnæði stofnunarinnar er pláss fyrir sjö börn en á álagstíma, líkt og nú í sumar og í síðustu viku, getur fjöldinn farið upp í 10–12 börn. Þá hefur komið fyrir að búa hefur þurft um börnin á skrifstofu forstöðukonunnar. Þá þurfti fyrir nokkrum árum að grípa til aðgerða vegna rakaskemmda og gruns um myglusvepp í húsnæðinu.

Nýtt og betra húsnæði hefur verið teiknað upp og var á fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar þegar Heiðrún Harpa tók við starfinu fyrir einu og hálfu ári. Það gerir ráð fyrir fjölgun herbergja og betri aðstöðu fyrir börn, foreldra og starfsfólk en enn á eftir að finna hinu nýja húsnæði stað og hefja framkvæmdir. Heiðrún Harpa vonar að það verði sem fyrst svo hægt sé að sinna þessum viðkvæma og erfiða málaflokki sem allra best.

Getur orðið þröngt á þingi

„Við erum með pláss fyrir sjö börn en þar sem þetta er bráðaúrræði og við getum ekki neitað að taka við börnum, þá þurfum við stundum að taka við fleiri öllum stundum sólarhrings,“ segir Heiðrún Harpa. Hún segir að oft komi börn inn með litlum fyrirvara. Fyrir geti verið 5–6 börn en síðan komi símtal um að þrjú börn til viðbótar séu á leiðinni, þá aukist álagið svo um munar. Börnin fá sín herbergi þó oft þurfi tveir eða þrír að vera saman í herbergi. Í ákveðnum tilfellum hefur þurft að grípa til þess ráðs að nýta skrifstofu sem svefnherbergi.

Vistheimili barna er nú í þessu húsnæði við Laugarásveg 39. Þar dvelja börn sem fjarlægja hefur þurft af heimilum sínum tímabundið. Húsið er á þremur hæðum en til eru teikningar fyrir nýtt og betra húsnæði. Heiðrún Harpa vonar að það rísi sem fyrst.
Þörf á nýju húsnæði Vistheimili barna er nú í þessu húsnæði við Laugarásveg 39. Þar dvelja börn sem fjarlægja hefur þurft af heimilum sínum tímabundið. Húsið er á þremur hæðum en til eru teikningar fyrir nýtt og betra húsnæði. Heiðrún Harpa vonar að það rísi sem fyrst.

Mynd: Kristinn Magnússon

„Oftast er það til að koma á meiri ró. Við höfum stundum gripið til þess þegar álag hefur verið mikið, það var til dæmis mikið álag í sumar og óvenjulega margir. Við röðum í herbergi eftir hvort um systkini er að ræða, aldri og fleiru. Stundum hefur það verið þannig að til þess að grátur barns veki ekki hina höfum við notað skrifstofuna mína, en það er í undantekningartilfellum. Þá er sett upp rúm þar og síminn tekinn úr sambandi,“ segir Heiðrún Harpa.

Stuðningur við foreldra

Auk þess að taka á móti börnum í lengri eða skemmri tíma er þar einnig lítil íbúð þar sem foreldrar sem þess þurfa geta búið tímabundið með börn sín og fengið stuðning að greiningu lokinni. Svokallaða greiningar- og kennsluvistun þar sem foreldrar koma í 6–8 vikur og geta jafnvel fengið að vera með börnin sín sem eru mjög ung. Allur gangur er síðan á því hvort foreldrar gisti.

Þá er tekið á móti mæðrum á áhættumeðgöngu, sem hafa til dæmis verið á móttökugeðdeild 33A á Landspítalanum, fyrir einstaklinga með alvarlegan geð- og fíknivanda.
„Þannig að hér eru líka börn sem ekki eru fædd,“ segir Heiðrún Harpa en börnin eru á öllu aldursbili upp að þrettán ára aldri.

Rakaskemmdir og myglusveppur

Vistheimili barna er núna á þremur hæðum og segir Heiðrún Harpa að það yrði mikil bylting að geta komist á eina hæð með fleiri herbergjum líkt og teikningar geri ráð fyrir.

Árið 2013 var greint frá því að grunur léki á að myglusvepp væri að finna í húsnæðinu eftir kvartanir starfsmanna. Kallaður var til sérfræðingur sem tók út húsnæðið. Þetta var fyrir tíð Hörpu sem tók við í mars 2015. Hún segir að gripið hafi verið til aðgerða sem virðast hafa verið teknar í áföngum.

Börn kom oft á Vistheimili barna með skömmum fyrirvara og þá getur fjöldi barna sem þar dvelja farið upp í 12. Þá er skiljanlega orðið þröngt á þingi, en starfsfólk gerir gott úr því sem það hefur.
Pláss fyrir sjö börn Börn kom oft á Vistheimili barna með skömmum fyrirvara og þá getur fjöldi barna sem þar dvelja farið upp í 12. Þá er skiljanlega orðið þröngt á þingi, en starfsfólk gerir gott úr því sem það hefur.

Mynd: Kristinn Magnússon

„Það voru gerðar nauðsynlegar úrbætur þar sem komið höfðu upp rakaskemmdir og grunur lék á myglusvepp. Útveggur var lagaður og svo í fyrrasumar voru svalir lagaðar svo það myndi ekki að leka meðfram þeim. Það var farið strax í úrbætur þótt það hafi tekið svolítinn tíma að framkvæma þær.“

Betra starf í nýju húsnæði

Heiðrún Harpa segir það ekkert launungarmál að þörf sé á nýju og betra húsnæði fyrir Vistheimili barna og það sé skilningur á því hjá Barnavernd Reykjavíkur.

„Ég tel að við myndum geta gert mikið betur í nýju húsnæði. Auðvitað gerir maður alltaf sitt besta, en nýja húsnæðið er teiknað og yfirfarið, nú er þetta bara spurning hvenær farið verður í framkvæmdir. Ég hef oft rætt þetta við yfirmann minn og hann áttar sig á vandanum. Það var farið í að teikna upp nýtt húsnæði fyrir um þremur árum þannig að vonandi fáum við nýtt húsnæði sem fyrst.“

Eins og gefur að skilja er starfsemi Vistheimilisins viðkvæm enda um að ræða eitt af alvarlegri inngripum barnaverndar að fara með börnin þangað. Heiðrún Harpa segir foreldra ekki alltaf vera sátta við ákvarðanir barnaverndar, sem oft eru teknar í óþökk foreldranna.

Krefjandi en gefandi starf

En hvernig er að vera starfsmaður sem vinnur við að taka á móti börnum sem tekin hafa verið af foreldrum sínum af einni eða annarri ástæðu?

Fyrir þremur árum var sérfræðingur kallaður til vegna gruns um myglusvepp í húsnæðinu. Í kjölfarið var ráðist í viðgerðir til að ráða niðurlögum rakaskemmda.
Grunur um myglusvepp Fyrir þremur árum var sérfræðingur kallaður til vegna gruns um myglusvepp í húsnæðinu. Í kjölfarið var ráðist í viðgerðir til að ráða niðurlögum rakaskemmda.

Mynd: Kristinn Magnússon

„Þetta er krefjandi starf en á móti gefandi. Það er verið að vinna í málunum og leita lausna. Þannig að það er von í þessu líka en auðvitað er oft erfitt að horfa upp á börnin upplifa það að fara frá fjölskyldu og ættingjum þegar það er ekki að ganga nógu vel af einhverri ástæðu. En hlutverk barnaverndar er að styðja við fjölskyldur og gera allt sem í hennar valdi stendur til að láta það ganga upp, svo þau geti verið heima. Allt er reynt áður en gripið er inn í með því að fjarlægja börnin af heimilunum.“

Heiðrún Harpa segir að þau vilji að ættingjar, og ef hægt er foreldrar, séu sem mest á staðnum. En það fari eftir málum hversu mikið það er hægt. Hlutverk Vistheimilis barna sé að veita börnum öryggi, vernd og skjól og halda í rútínuna svo þau geti haldið áfram í skóla, hitt vini og ættingja.

„Stundum koma börn hingað inn vegna þess að það er ekkert tengslanet til staðar. Foreldrar hafa ekkert tengslanet og enginn getur sinnt börnunum, hvorki fjölskylda né ættingjar.“

Þrátt fyrir að auðvelt sé að ímynda sér að starfið sé erfitt og geti tekið á sálartetur fólks að horfa upp á sundraðar fjölskyldur segir Heiðrún Harpa að starfsmannavelta sé lítil á stofnuninni þar sem starfi 14 manns, þar sem alltaf séu 3–4 á vakt og einn á næturvakt með bakvakt.

„Það hefur gengið framar björtustu vonum og maður sér á álagstíma hversu duglegt starfsfólk maður hefur. Við þurfum að hugsa um öryggi og þá er eins gott að mönnun sé ágæt miðað við álagið sem stundum er.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Í gær

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar
Fréttir
Í gær

Maður á sjötugsaldri í gæsluvarðhald vegna andláts konu á Akureyri

Maður á sjötugsaldri í gæsluvarðhald vegna andláts konu á Akureyri
Fréttir
Í gær

Manndrápsmálið á Suðurlandi – Hinn látni sagður hafa hringt í kærustu sína skömmu fyrir andlátið og sagst hafa fallið úr stiga

Manndrápsmálið á Suðurlandi – Hinn látni sagður hafa hringt í kærustu sína skömmu fyrir andlátið og sagst hafa fallið úr stiga
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmar harðorður um stöðuna hér á landi – „Þetta er hálf­gerð sturlun“

Sigmar harðorður um stöðuna hér á landi – „Þetta er hálf­gerð sturlun“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristján Berg veit betur núna og biðst afsökunar: „Það verður að hlúa betur að fólki með geðræn vandamál“

Kristján Berg veit betur núna og biðst afsökunar: „Það verður að hlúa betur að fólki með geðræn vandamál“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þingmaður bendir á athyglisverða staðreynd – „Með brotabroti af útgjöldum okkar til hersins höfum við náð þessum árangri gegn Rússlandi“

Þingmaður bendir á athyglisverða staðreynd – „Með brotabroti af útgjöldum okkar til hersins höfum við náð þessum árangri gegn Rússlandi“