fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Stolnar fjaðrir Pírata hafa áhrif: Auði skapi næst að skila atkvæðinu

Heitar umræður á samfélagsmiðlum – Smára finnst skrýtið að sjá athugasemdir á þessum tímapunkti – Ekki stærðfræðingur segir dósent í stærðfræði

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Þriðjudaginn 25. október 2016 18:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Núna er mér skapi næst að skikka annað okkar til að kjósa aftur, eins mikið vesen og það er hér í Berlín, ef Píratar verða ekki búnir að ganga í málið og koma því á hreint fyrir kosningar hver menntun frambjóðendanna tveggja, meints stærðfræðings og meints stjórnmálafræðings, er í raun og veru og hvernig stendur á svo villandi notkun á upplýsingum – þeirra helsta hjartans máli. Því ef það er eitthvað sem þetta samfélag má ekki við þá eru það loðin og misvísandi skilaboð stjórnmálamanna.“

Þetta segir Auður Jónsdóttir rithöfundur sem búsett er í Þýskalandi ásamt eiginmanni sínum Þórarni Leifssyni rithöfundi. Hún er ekki sú eina sem hugsar á þessum nótum. Frétt Eyjunnar þar sem Sigrún Helga Lund dósent í stærðfræði gagnrýnir Smára McCarthy fyrir að ýkja stærðfræðimenntun sína hefur vakið mikla athygli. Þá hefur önnur frétt Eyjunnar af svipuðum meiði þar sem annar frambjóðandi Pírata, Jón Þór Ólafsson er sagður hafa í minnst þrígang titlað sig stjórnmálafræðing í blaðagreinum án þess að eiga innistæðu fyrir því. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem menntun stjórnmálamanna kemst í umræðuna en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrverandi forsætisráðherra var sagður hafa gefið misvítandi upplýsingar um sína menntun, sjá frétt DV, hér frá árinu 2011.

Eftir þessar tvær fréttir hafa töluverðar umræður átt sér stað og Auður Jónsdóttir er ekki sú eina sem nú velkist í vafa hvort atkvæði hafi ratað á réttan stað. Undir það tekur til dæmis Bubbi Morthens í sama þræði á Facebook. Víða annars staðar má sjá hatrammar umræður um Píratana tvo, þó forsætisráðherraefnið, Smári sé fyrirferðarmeiri í umræðunni.

Frétt Eyjunnar um málið má rekja til status sem Óskar Hallgrímsson deildi þar sem hann sagðist hafa mikla trú á Smára. Þar undir ritaði Guðrún Jóna Jónsdóttir ummæli og sagði meðal annars:

„Hann lúkkar vel en getur verið að hann sé með smá SDG komplexa? Sé að á einhverjum stöðum hefur hann titlað sig stærðfræðing en sé svo hvergi að hann sé með þá menntun, svo sá ég einhvers staðar að hann sagðist hafa lært tölvunarfræði en sé það heldur ekki. Svo er ég að leita að upplýsingum um vinnuna hans hjá Electronic Frontier Foundation en finn lítið. Vitið þið eitthvað meira?“

Smári svaraði sjálfur og sagði:

Sigrún Helga Lund dósent í stærðfræði  og frambjóðandi Viðreisnar
Sigrún Helga Lund dósent í stærðfræði og frambjóðandi Viðreisnar

„Ég hef aldrei titlað mig stærðfræðing, enda lauk ég ekki því námi – átti ekki mikið eftir samt. Electronic Frontier Foundation hef ég ekki unnið hjá, en vann mikið með þeim, og því (og sennilega í gríni) var ég taggaður þar af einum starfsmanni þeirra.“

Sigrún Helga Lund samnemandi Smára bættist þá í hópinn og sagði:

„Smári, hvernig getur þú sagt að þú hafir átt lítið eftir til að klára stærðfræði? Ég veit ekki betur en að þú hafir aldrei náð að klára svo mikið sem fyrstu önnina. Hins vegar varstu mjög duglegur að bulla um stærðfræði á wikipedia, þrátt fyrir að hafa kolfallið í þeim kúrsum sem viðkomandi efni fjallaði um. Afraksturinn var ranghugmyndir hjá nemendum og fyrir vikið hafa ófáir stærðfræðikennarar blótað þér í sand og ösku, eins og þú veist af.“

Fóru skjáskot af ummælum Sigrúnar Helgu svo á flakk um samskiptamiðla og rataði inn á borð hjá blaðamönnum Eyjunnar. Það skal tekið fram að hún er í framboði fyrir Viðreisn og er stærðfræðikennari við HÍ.

Í viðtali við Eyjuna sagði Smári að hann vissi ekki hversu mörgum einingum hann væri frá útskrift.

„Ég var í þessu námi í tvö og hálft ár en náði svo sem ekki alltaf að klára allt og eitthvað sem út af stóð.“ Bætti hann við að honum fyndist furðulegt að athugasemdir kæmu fram á þessum tímapunkti. Eftir viðtal Eyjunnar sagði Smári svo á Facebook að hann hefði ekki fundið sig í náminu.

Jón Þór titlar sig stjórnmálafræðing

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Eyjan birti svo aðra frétt um Jón Þór Ólafsson sem unnin var upp úr skrifum Þorbjörns Þórðarsonar fréttamanns á Stöð 2. Þar er haft eftir Þorbirni:

„Jón Þór Ólafsson frambjóðandi Pírata í Suðurvesturkjördæmi titlaði sig stjórnmálafræðing í grein sem hann skrifaði í Fréttablaðið 15. september 2010. Í tveimur öðrum greinum í Fréttablaðinu á svipuðu tímabili gaf hann upp starfstitla sem gáfu til kynna að hann hefði tiltekna háskólamenntun sem hann er ekki með. Hann er ekki með háskólapróf.

Menn geta þá spurt, skiptir það einhverju máli? Svarið er, nei það skiptir engu máli þótt hann sé ekki menntaður. Það sem skiptir máli er að hann sagði ósatt um þessa hluti. Hann var margsaga um menntun sína. Rétt eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson komst upp með að vera margsaga um sína menntun. Hann þorði ekki að segja upphátt og opinberlega að hann hefði aldrei lokið phd-gráðunni sinni frá Oxford,“ segir Þorbjörn.

Alveg jafn slæmt að fólk úr öðrum flokkum verði uppvíst að því sama

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Auður Jónsdóttir segir ennfremur í sínum pistli sem var tvístígandi hvort hún ætti að greiða VG eða Samfylkingu atkvæði. Eftir atkvæðagreiðslu um búvörusamning ákváðu þau hjónin að greiða Pírötum og Bjartri framtíð sín atkvæði. Þá gagnrýnir hún í leiðinni Sjálfstæðisflokk og Framsókn fyrir gagnrýni þeirra á Píratana tvo, það valdi velgju þar sem fólk úr þeim herbúðum eigi ekki innistæðu fyrir því. En þó Auður velti fyrir sér að skila atkvæðinu er eiginmaðurinn þó ekki sammála. Auður segir svo á öðrum stað:

„Ég er sjálf skóladropát en fíla samt ekki að frambjóðendur segi ekki satt og rétt frá menntun sinni eða menntunarleysi. Það skiptir auðvitað máli að vita fyrir hvað frambjóðandinn stendur og hér í Þýskalandi hafa stjórnmálamenn þurft að segja af sér fyrir að loðnar upplýsingar um menntun sína, nokkuð sem Sigmundur Davíð gerði sig sekan um. En það er alveg jafn slæmt þegar fólk úr öðrum flokkum en Framsókn verður uppvíst að slíku.“

Ekki náðist í Smára McCarthy eða Jón Þór við vinnslu fréttarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu