fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Konur með 30 prósentum lægri tekjur en karlar

Einar Þór Sigurðsson
Mánudaginn 24. október 2016 09:46

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 2015 voru konur með tæplega 30 prósent lægri atvinnutekjur en karlar. Er þá átt við allar tekjur af atvinnu án tillits til vinnutíma. Þetta kemur fram í gögnum sem Hagstofa Íslands sendi frá sér í morgun.

„Samanburður á meðallaunum karla og kvenna í fullu starfi árið 2015 sýnir hins vegar um 20% mun á heildarlaunum en um 14% mun á reglulegum launum án yfirvinnu. Óleiðréttur launamunur mældist 17% árið 2015 en hann byggir á reglulegu tímakaupi með yfirvinnu í samræmi við aðferð evrópsku hagstofunnar Eurostat,“ segir í frétt á vef Hagstofunnar um málið.

Helmingur kvenna með minna en 3,7 milljónir

Þá kemur fram að árið 2015 hafi helmingur kvenna verið með lægri atvinnutekjur en 3,7 milljónir króna á ári en helmingur karla með minna en 5 milljónir króna.

„Meðaltekjur af atvinnu taka til allra atvinnutekna án tillits til vinnutíma en karlar vinna að jafnaði fleiri vinnustundir en konur. Meðalfjöldi vikulegra vinnustunda var að jafnaði 44,1 klukkustund hjá körlum en 35,5 hjá konum árið 2015 samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Tekjur vegna atvinnu voru árið 2015 hæstar á aldursbilinu 45 til 49 ára hjá bæði körlum og konum. Á því aldursbili voru karlar hins vegar með mun hærri atvinnutekjur að meðaltali en konur eða 8,1 milljón krónur á ári samanborið við 5,5 milljónir króna hjá konum,“ segir í fréttinni.

Fleiri karlar í hæstu launabilum

Þegar litið er til kvenna í fullu starfi kemur í ljós að helmingur þeirra var með heildarlaun yfir 490 þúsund krónur á mánuði á meðan helmingur karla var með heildarlaun yfir 586 þúsund krónur. Dreifing heildarlauna var ólík eftir kyni og voru karlar fleiri í hæstu launabilunum, að sögn Hagstofunnar.

„Vinnutími skýrir að hluta til hærri heildarlaun karla en kvenna fyrir fullt starf. Karlar í fullu starfi unnu að jafnaði meira en konur í fullu starfi og voru greiddar stundir karla að meðaltali 189 á mánuði árið 2015 en greiddar stundir kvenna 179,7 samkvæmt launarannsókn Hagstofunnar. Þannig var minni munur á launum eftir kyni ef horft er til reglulegra launa án yfirvinnu árið 2015. Konur í fullu starfi voru þá að meðaltali með 458 þúsund krónur á mánuði en karlar 534 þúsund krónur og var launamunurinn því um 14%. Ef skoðuð voru regluleg laun með yfirvinnu var munurinn um 18%.“

Óleiðréttur launamunur 17 prósent

Loks kemur fram að óleiðréttur launamunur kynjanna, reiknaður samkvæmt aðferð Eurostat, var 17 prósent árið 2015 og hafði hann hækkað lítillega frá fyrra ári þegar hann var 16,4 prósent. Á almennum vinnumarkaði var launamunurinn 16,7% en 14,6% hjá opinberum starfsmönnum, þar af var munurinn 14,9% hjá ríki og 7,2% hjá sveitarfélögum.
Mismunandi mælingar á launamun kynjanna eru fengnar á grundvelli ólíkra gagna og aðferða, að því er fram kemur á vef Hagstofunnar. Í öllum ofangreindum mælingum hallar þó á laun kvenna samanborið við laun karla.
Frétt Hagstofunnar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu