fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Lamdi stjúpson með Williams-heilkennið: Sagði piltinn með hið „fullkomna lygaragen“

Maðurinn neitaði alfarið sök en hann réðst á piltinn í bíl sínum fyrir utan Vallarlaugina í Hafnarfirði í nóvember árið 2013.

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 14. janúar 2016 20:06

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stjúpfaðir pilts var dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness í dag fyrir að leggja hendur á stjúpson sinn.

Maðurinn neitaði alfarið sök en hann réðst á piltinn í bíl sínum fyrir utan Vallarlaugina í Hafnarfirði í nóvember árið 2013.

Var hann dæmdur fyrir að hafa slegið stjúpson sinn nokkrum sinnum í andlitið með þeim afleiðingum að pilturinn hlaut sprungu og bólgu á efri vör.

Málsatvikum er lýst þannig að stjúpfaðirinn bar að í umrætt sinn hafi pilturinn týnst og hann þurft að leita að honum að beiðni móður drengsins. Hafi pilturinn átt að vera í sundi og á æfingu í sundlauginni en hafi þess í stað skrópað og verið að sníkja sígarettur. Stjúpfaðirinn hafi fundið piltinn í sundlauginni en pilturinn hafi ekki viljað koma með honum. Því hafi hann þurft að taka piltinn og beita hann afli til setja hann í bílinn með þeim hætti að hann ýtti, að hann minnti, á axlir piltsins sem hafi streist á móti.

Piltinum og stjúpföðurnum greindi svo nokkuð á hvað gerðist næst. Stjúpfaðirinn sagði að áverkarnir gætu hafa komið til vegna átakanna sem fylgdu því að koma piltinum út í bíl.

Pilturinn sagði aftur á móti að þar sem þeir hafi setið frammi í bifreiðinni, hafi stjúpfaðirinn byrjað að æsa hann upp, verið „öskureiður“ yfir því að hann hafi ekki farið á æfinguna.

Aðspurður kvaðst hann hafa sest sjálfur inn í bifreiðina en stjúpfaðirinn hafi ekki ýtt honum. Hann sagði að þegar stjúpfaðirinn væri svona reiður þá yrði hann sjálfur mjög stressaður og nái illa að stjórna sér, en drengurinn er með svokallað Williams-heilkenni. Pilturinn segir að stjúpfaðir sinn hafi svo slegið sig oftar en einu sinni í framan.

Piltinum var síðar um daginn ekið á áfangaheimili og þar hafi hann farið að gráta. Á áfangaheimilinu hitti hann starfsmann og hann minnti að hann hafi sagt honum frá því sem gerst hafði. Hann hafi sjálfur ætlað að hringja í lögregluna en ekki þorað það. Hann hafi hins vegar sent móður sinni mynd af sprungnu vörinni úr símanum.

Stjúpfaðirinn neitaði alfarið sök og sagði piltinn með fullkomið lygaragen vegna heilkenna sinna og að hann gæti logið án svipbrigða. Móðir drengsins sagði að það væri tiltölulega einfalt að sjá hvort hann væri að ljúga, sagan breyttist í hvert skipti.

Dómari metur engu að síður sem svo að framburður drengsins sé staðfastur og að vitnisburður hans hafi ekki breyst á þeim tveimur árum sem leið frá atvikinu og skýrslutökum fyrir dómi. Af þessu leiðir að að framburður piltsins, ásamt framburði móður, umsjónarkennara og sálfræðings, að sekt stjúpföðurins þótti hafin yfir skynsamlegan vafa.

Móðir piltsins er skilin við manninn, sem er fæddur 1966. Hann hefur aldrei hlotið dóm áður. Honum var einnig gert að greiða drengnum 250 þúsund krónur í miskabætur.

Til fróðleiks um Williams-heilkennið þá segir á heimasíðu Williams-samtakanna á Íslandi að einstaklingar sem eru með heilkennið séu mjög opnir og ófeimnir við alla og með mjög áberandi persónuleika.

Þeir eru miklar félagsverur og hafa yfir að ráða mikilli samræðulist ef ekki er farið of djúpt í efnið. Til þessa má rekja að heilkennið hefur verið kallað „Cocktail syndrome“.

Þá nota þeir oft flókin orð og orðasambönd og oftast eru þeir hlæjandi og mjög vinalegir. Einn mesti styrkleiki Williams einstaklinga er sá að þeir hafa flestir stórfenglega tónlistargáfu því þeir hafa oft ofurnæma heyrn, en gallinn við það er að í staðinn þola þeir oft ekki ýmis hljóð, s.s. ryksuguhljóð og þrumuhljóð – sérstaklega sem börn.

Víðsvegar um heiminn, eftir því sem heilkennið varð þekktara, hafa sprottið upp svo kallaðar tónlistarmeðferðir, sérstaklega sniðnar að þörfum Williams einstaklinga.

Nánar má lesa um heilkennið hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu