fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Þetta gæti gerst ef Katla gýs: Dagbók Jóns frá Kötlugosi 1918 – Eldingar, myrkur og risaflóð

Tilviljun að ekki varð manntjón –

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Föstudaginn 30. september 2016 18:00

Tilviljun að ekki varð manntjón -

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Aðfaranótt þessa dags finnst okkur hin hörmulegasta. Fyrir miðnótt gengur öskumökkurinn austur yfir á ný og byrgir hér allt, og lýstur yfir svo miklu myrkri,að eigi sér fyrir gluggum. Fylgja svo miklar eldingar og reiðarslög að einsdæmi munu vera,“ þannig lýsir Jón Gíslason á Norðurhjáleigu Kötlugosi sem hófst í október 1918 en frásögn hans og Gísla föður hans var gefið út af stjórnarráði Íslands ári síðar. Jón hélt dagbók og eru lýsingarnar nákvæmar og skelfilegar. En mikið tjón varð undir jökli.

„Þessu næst kom hlaupið með miklu jakaflugi austur af öllum hæðum milli bæjanna, og fyllti upp alla mýrina kringum Þykkvabæjarklaustur. Komst það nærfellt að kirkjugarðinum. En þá skall á náttmyrkrið, og varð hver að taka því, er að höndum bar. Dreif þá vikur í sífellu, svo að illt var að horfa frá sér. Varð fljótt sporrækt. Eldingar geisuðu um allt loft og þrumur dundu í sífellu … „

Þá segir á öðrum stað:

„Nú var fólk orðið óðfúst að vita um afdrif þeirra manna, er sást til í gær fyrir ofan Skálm, á hröðum flótta undan hlaupinu. Voru þar milli 20 og 30 af efnilegustu mönnum hreppsins. Um hádegi komu flestir þessir menn heim til sín. Komu þeir gangandi, því eigi var fært með hesta fyrir hrönnum.“

Tilefni þessarar upprifjunar er jarðskjálftahrina í Kötlu og hefur varúðarstig verið hækkað líkt og fjallað hefur verið um í DV í dag. Sérfræðingar hafa sagt að Katla sé komin á tíma. Árið 1999 skrifaði Ari Trausti Guðmundsson jarðfræðingur í Morgunblaðið.

##Gossaga Kötlu

„Þegar litið er yfir gossögu Kötlu er auðvitað næsta víst að eldstöðin gýs á næstu áratugum. Afar litlar líkur eru á að jafn virk megineldstöð og Katla þagni öldum saman. Löng goshlé geta boðað stærri gos en orðið hafa um hríð.“

Katla er ein okkar þekktasta eldstöð og oft vakið ótta og skelfingu hér á landi. Dæmiger Kötlugos hefst að undangenginni harðri skjálftahrinu. Oft samdægurs eða daginn áður en gosið sést. Það er því ekki furða að fólk hafi nú áhyggjur að gos sé í vændum þegar fjallið skelfur. En jökullinn er allt að 750 metra þykkur. Að meðaltali verða Kötlugos á 40 til 60 ára fresti og frá því að menn settust að á Íslandi eru 16 gos skráð en þau eru þó líklega fleiri.

Jökullinn er raunar allt að 750 m þykkur og fremur kraftlítið gos undir slíkum ísmassa þyrfti ef til vill fáeina daga til þess að ná að bræða sig upp úr klakanum. Þegar gos verður mun sjónarspilið verða tilkomumikið. Mikið verður um eldingar og þrumur í mekkinum.

##Katla alltaf áhyggjuefni

Molar um Kötlu

Hvar er Katla? Undir Mýrdalsjökli.

Hvaða ár gaus hún? 920,1612,1821,1918

Hvað stóð gosið lengi fyfir árið 1918? 24 daga.

Hvenær segir fólk að gjósi aftur(á hvað margra ára fresti)? Tvisvar á öld.

Hefur Katla orðið einhverjum að bana? Fólk hefur dáið að völdum eldgosa í Kötlu, og af völdum eldinga.

Hefur Katla einhvern tíman gosið á sama tíma og eitthvert annað eldfjall? Nei

Hvað hefur Katla gosið í mörg ár? Katla hefur verið mjög virk síðustu 10-12.000 ár

Hvað ár var styðsta gos Kötlu? 1882

Sjá nánar hér.

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur var spurður í DV í sumar hvort aðstæður þessara eldstöðva gæfu til kynna að eldgos sé í vændum og hvernig ástand þeirra sé. Páll segir ástand Kötlu óvíst og er búið að vera það mjög lengi.

„Katla er alltaf áhyggjuefni en það er fylgst vandlega með henni, en hins vegar gengur illa að túlka niðurstöður sem koma fram í eftirlitinu með henni. Katla er búin að vera skjálftavirk eins lengi og menn vita og stundum meira en annars. Þessi virkni sem nú er í gangi er frekar lítil en að sjálfsögðu er fylgst vel með henni. Aðallega að sjá hvort breytingar verði á henni en virknin undanfarnar vikur er ekki til að hafa áhyggjur af,“ segir Páll þegar hann var inntur eftir aukinni jarðskjálftavirkni í Kötluöskjunni.

Jarðir í eyði og fólk í hættu

Gos í Kötlu hafa oft valdið miklu tjóni. 1918 fórust hross og skepnur og fólk var í hættu statt og varð að forða sér undan flóðinu. Jarðir hafa farið í eyði, en þó tímabundið. Á Vísindavefnum um Kötlugos segir:

„Á öld fjarskipta, samgangna með bílum og flugvélum og orkuflutninga með loftlínum má gera ráð fyrir tjóni vegna truflana á flutningsleiðum eða skemmda á tækjum, ef gjóskufall er verulegt.“

Tjón vegna jökulhlaupa hefur aðallega orðið á tveimur svæðum, Mýrdalssandi og Sólheima og Skógarsandi.

„Í jökulhlaupi á 12. öld, Höfðárhlaupi, tók af allmarga bæi sem heyrðu undir höfuðbólið Höfðabrekku. Höfðabrekku, bæ og kirkju, tók af í Kötluhlaupi 1660. Gríðarlegar jakahrannir skófu burt jarðveg og graslendi í austurhlíðum Höfðabrekkuheiðar í Kötluhlaupinu 1721“

„Jakahrannir voru farartálmar svo vikum og mánuðum skipti eftir stærstu hlaupin 1721 og 1755. Í hlaupinu 1823 breyttust rennslisleiðir jökulvatns á Mýrdalssandi þannig að lítið sem ekkert vatn rann vestan Hafurseyjar í Múlakvísl, heldur fór um Kælira niður í Álftaver í þrjú ár á eftir. Einn bæ tók af. Gróið land fór undir sand og var sjaldan nýtilegt á ný fyrr en með uppgræðslu á síðustu öld.“

Sennilega olli tilviljun því að ekki varð manntjón af hlaupinu. Þann 12. október, átti að reka fé vestur yfir Mýrdalssand frá Álftaveri og sveitunum austan sandsins til slátrunar í Vík. Það frestaðist vegna þess að saltfarmur til Víkur hafði tafist. Hefði allt farið samkvæmt áætlun er sennilegt að margir menn og fjöldi fjár hefði orðið hlaupinu að bráð.]

Sjá fyrri Kötlugos, hér:

Dýr og menn urðu fyrir eldingum

Gos í Kötlu yrði líklega mun öflugra en gosið í Eyjafjallajökli
Gos í Kötlu yrði líklega mun öflugra en gosið í Eyjafjallajökli

Mynd: Mynd Sigurður Þ. Ragnarsson

Dauðsföll dýra eru furðu lítil vegna eldinga í Kötlugosum, miðað við frásagnir fyrr á öldum. Húsdýr, helst hestar fundust dauð í haga og var þá eldingum kennt um. Menn sluppu að mestu en til eru sögur af tveimur mönnum sem dauðrotuðust vegna eldinga í Kötlugosi 1823.

Í gosinu 1918 tók Gísli Sveinsson sýslumaður á Vík þá ákvörðun að banna notkun síma þegar gjóskufall gekk yfir en þá hafði eldingu slegið niður í símalínu.

„Í skýrslu hans kemur fram að erfitt var að nota ljósavél í gjóskufallinu. Óvíst er hvert tjón yrði af eldingum nú á tímum. Þar mun miklu ráða hvort hús á svæðinu eru búin eldingarvörum.“

Ekki er gert ráð fyrir að mikið tjón ef nokkuð yrði vegna hraunrennslis.

Gosið 1918

Síðasta Kötlugos hófst skömmu fyrir klukkan þrjú eftir hádegi þann 12. október og er á meðal stærstu Kötlugosa síðan land byggðist. Jarðskjálftar fundust í Mýrdal tveimur tímum áður en sást til gosmakkarins rísa frá jöklinum. Í hlaupinu færðist ströndin sunnan við Hjörleifshöfða fram um meira en þrjá kílómetra. Um tíma varð Kötlutangi syðsti oddi Íslands í stað Dyrhólaeyjar. Gosinu lauk svo 4. nóvember. Náði gosmökkurinn í 25 kílómetrahæð og dreifðist um meira en helming landsins.

Að endingu grípum við niður í dagbók Jóns Gíslasonar þar sem hann lýsir eldgosinu sem birt er á Land og saga:

„Í sama svip og við sáum til þeirra manna, er hröðuðu sér heimleiðis, varð mér litið aftur. Mun mér lengi minnisstæð sjón sú, er mér bar þá fyrir augu. Var þá að geisast fram að baki okkur jökulhlaupmikið og ægilegt, sem brunaði fram lægðina milli hraunhálsanna. Geri eg þá félögum mínum aðvart sem skjótast. Sáum við nú okkur þann kost vænstan, að yfirgefa safnið- og riða sem hraðast undan hlaupinu. Fórum við nú sem við máttum, og stefndum suður á Ljósavatnaháls. Þegar þangað kom, sáum við að hlaupið var komið austur úr Skálminni fyrir sunnan okkur; var því eigi fært að halda lengur þá leið.

Breyttum við þá stefnu og héldum nú í áttina til Skálmabæjarhrauna, því þar sáum við að saman voru komnir margir menn á skeri einu í vesturbrún hraunsins.

Eldgos í Vatnajökli
Eldgos í Vatnajökli

Hleyptum við nú hestunum á lægðina, sem er á milli Ljósuvatnanna og hraunsins, og þeystum á fleygiferð þvert yfir skurði og læki. Mátti nú varla á milli sjá, hvort okkur eða hlaupinu mundi veita betur. Þó náðum við hraunbrúninni áður en hlaupið skall á henni, en svo var það nærri komið, að það féll þá yfir slóð okkar 40 – 50 metra frá hraunbrúninni. Þessu næst héldum við til manna þeirra, er safnast höfðu í skerið. Voru þar komnir allir afréttarmenn og einnig réttarmenn þeir, er eigi höfðu komist fram yfir Skálm. Urðu menn harla fegnir, er engan vantaði.

Var nú haldið kyrru fyrir um stund. Köstuðu hestarnir mæðinni, en mennirnir horfðu á hlaupið, þar sem það brunaði fram með flaumi miklum og jakaferð yfir hvað sem fyrir var. Var það kolmórautt og ægilegt og lagði af því megna jöklafýlu. Ekki var vistlegt að dvelja lengi á skeri þessu, með fjölda hesta, því þar var enginn gróður, heldur sandur einn. Enda síefndi hlaupið kringum skerið suður úr grjótum fyrir vestan Skálmabæjarhraun.

Jafnskjótt sem við fórum úr skerinu kom hlaupið fram Kúðafljót, milli Skálmabæjarhrauna og Leiðvallar. Var ótrúlega mikið flug á því, er það kom fram fljótið. Fyllti það upp skarðið milli Leiðvallar og Hraunanna, svo að upp tók í miðjar brekkur fyrir vestan Leiðvöll.
Þegar við komum til Skálmabæjarhrauna, var flóðið komið þar fast að bænum. Var það því okkar fyrsta verk að bjarga öllu úr bænum, er hægt var að flytja burtu. Gekk það vel, enda voru þar að verki um 20 karlmenn.

Mynd: Mynd: vedur.is

Fluttum við það upp á hraunbrún, sem er þar fyrir ofan bæinn. En heimafólk allt og aðkomumenn gisti um nóttina í fjárbúi nokkru sem er lengra uppi í hrauninu. Eigi varð okkur svefnsamt um nóttina, því margt var nú óvenjulegt. Alltaf var kolamyrkur, nema þegar eldingar komu og leiítur. En þá varð furðulega bjart. Þrumur kváðu við í sífellu og dynkir miklir. Og þess í milli heyrðist dimmur vatnaniðurinn allt i kring. Jafnan dreif vikur smágerðan og olli hann mestu um myrkrið. Þegar morgna tók, þótti vænlega horfa, að eigi hélst myrkrið, heldur birti af degi. En því kviðum við einna mest að myrkur mundi verða af öskufalli. En stormkaldi var þá kominn af austri og bægði hann öskumökknum vestur. Þegar bjart var orðið, sáum við að vatnsflóðið mundi runnið af að mestu, en eftir sátu hrannir miklar og hrikalegar jökulborgir. Fórum við nú að vitja um bæinn og hafði vatnið farið allt í kring um hann um nóttina. Nú var vatnið hlaupið, en eftir sat við húsið á stéttinni mittishá jakahrönn. Þegar við höfðum fengið okkur hressingu í Skálmabæ eftir þessa einkennilegu andvökunótt, bjuggumst við af stað heimleiðis. Létum við eftir hestana og fórum gangandi. Fórum við saman suður að Skálm. Reyndist hún vatnslítil og óðum við hana. Hélt síðan hver heim til sín sem hraðast. Urðu menn fegnir mjög komu okkar, og þótti sem við værum úr helju heimtir.
Lýk eg svo frásögu minni um Kötluhlaup þetta.

  1. okt. í dag er að mestu heiðskírt veður. Sést Mýrdalsjökull að neðanverðu og er mjög umbreyttur frá því,sem hann var áður. Ekki sést hann að ofan fyr en um dagsetur. Virðist þá Jóni Brynjólfssyni, bónda á Þykkvabæjarklaustri, sem eldsglóð sé ofan á jöklinum, og eru sífelldir blossar upp af. Allan daginn eru þungir dynkir. í morgun fara þeir heim, sem flúið höfðu bæi sína og ætlar hver að vera heima hjá sér í nótt.

  2. okt. í nótt sofa menn vel og vakna hressir að morgni. Enn er sömu dynki að heyra sem áður. Nú sést ekki bæja á milli fyrir jökulmóðu og mistri. Fellur nú smágerður vikur og verður jörð mósvört. En laus er þessi salli ofan á og fer lítið ofan í rótina. Nú eru allir að leita uppi fénað sinn, sem tvístrast hefir í ýmsar áttir. Bjuggust menn við miklu fénaðartapi, því margir sáu kindahópa þar, sem flóðið beljaði yfir litlu síðar. Að vísu finna menn allmikið dautt af fénaði, en alls ekki eins og við var búist.

Mynd: Copyright: Ingolfur juliusson

Hinn 13. sáu menn til Meðallandsins, og sýndust þá allir bakkar og hólmar með fram Kúðafljóti vera alþaktir jökulhrönn og vatni langt austur á Meðalland. En bæjarhús sáust öll á þessu svæði.

15 október. Enn eru sömu dynkir sem áður og öskumistur. En veður er gott, hægur norðankaldi. Nú eru flestir enn við fénað sinn og gefa því hey, sem fundist hefir. Veður heldur léttara í lofti í dag en i gær. Fara menn því miklu víðar um en áður. Hvarvetna er voðalegar landskemmdir að sjá eftir hlaupið. Víðast verður að fara gangandi. Aðeins hægt að fara um byggðina með hesta, því mesta hrönnin nam staðar fyrir ofan hana og vestan. Hér fyrir vestan bæina er leirufláki mikill með háum mel og skerhólum. Jökulhrönnin á leiru þessari er nú 3—4 m. þykk og um 5 km. á hvern veg. Morguninn eftir hlaupið sást hvergi á hól eða klett upp úr hrönninni. Þegar við riðum undan hlaupinu yfir leiruna sáum við þar allstóran kindahóp, sem við vissum ekki meira um. — Vatn rennur nú í öllum farvegum, og eru þeir miklu fleiri. En ekki hafa menn orðið varir við hlaup í þeim «eða vöxt, siðan jökulhlaupið þvarr. Daginn, sem hlaupið kom, voru hér staddir 2 menn ofan úr Skaftártungu. Í dag leggja þeir af stað heim til sín.

16 október. í nótt hafa verið dynkir miklir og eldglæringar. Mistur er enn í lofti, en ekki fellur nein aska í dag. En nú verða miklu stærri og þyngri dynkir en undanfarna á loft. Búast menn þá við að enn muni von á vatnshlaupi. En svo líður dagurinn að þess verður ekki vart hér í byggðinni.

17 október. Enn er stillt veður og gott. Heldur minni dynkir og eldglampar en áður. Þungur niður heyrist jafnan í vestri, svo sem vatnaniður væri. Heyrist hann allt til vökuloka og er þá mestur. Er þá loft orðið léttara og mistur lítið. Upp úr gjánni virðist nú koma gufa mestmegnis. —
í dag fara menn frá Hraunbæ að gæta fjár, sem gengur þar sem heifir i Bólhraunum; er það austast á Mýrdalssandi. Fundu þeir flest lifandi. Hafði hlaupið klofnað þar á skerja- og sandöldu og runnið til beggja hliða, austur og vestur.

18 október. Svipað veður og í gær, en heldur skírara í lofti. Nokkur niður er enn þá og sífelldir dynkir í jöklinum. Kl. 11 að kvöldi verða miklir eldglampar og feiknalegir dynkir.

19 október. Aðfaranótt þessa dags er stillt veður, en tíðir eldsglampar og dynkir nokkrir. Að morgni er hægt um til jökulsins að sjá, og er svo allan daginn. Sjást aðeins glampar, þegar kvöldar. Framan af deginum sést til vesturfjalla og jökullinn sést einnig upp að hábungu. Er hann allur svartur af ösku. Út úr miðjum degi þykknar loft og gerir þá eindregna sunnanátt. Kemur hæg væta að kvöldi.

Verða menn henni fegnir, því jörð virtist vera óholl af öskumóðunni. Fénaður lætur þó enn ver við jörð eftir að hún vöknar. Hér í Álftaveri er ekki mikil aska, því eins og áður er sagt dreif hér lítinn vikur og alls engan með sjónum.

20 október. í nótt hafa verið afarmiklir dynkir og leiftur. Að morgni er dimm þoka yfir öllu, en birtir upp kl. 9 f. h. Sést þá til hájökulsins. Er bann hvítur að ofan með sínum gamla svip. En fyrir neðan bungur er hann svosvartur af ösku, að engin skilgreining sést þar á neinu.
Þó má sjá hvar gígurinn er, því norðan í hæstu bungu jökulsins stendur hár gufumökkur, sem streymir upp með miklum hraða. — Í dag er jörðin mikið til hrein eftir rigninguna i nótt. Að kvöldi verða svo miklir dynkir, að fólki kemur til hugar að flýja bæi. Ekki verður þó af því og fer allt vel.

21 október Nú er dimmviður og sunnanvæta; Sést ei neitt né heyrist og er rólegt þennan dag allan. En að kveldi birtir og sést þá mökkurinn og í honum eldglampar miklir, en dynkir heyrast ekki.

Hér er safnsdagur í dag og vantar mjög fénað. Finnst hann víða illa kominn: fastur í jökulfor, lifandi og dauður. Hættur eru nú, hvert sem litið er, af jökulfor og hrönnum.

22 október Þennan morgun hefst ægilegur aðgangur, og verður honum eigi með orðum lýst. Kl. 4 f. h vakna ég við þrumur og eldingar, engu minni en goskvöldið. Þegar birtir af degi sést, hvar liggur austur með öllum fjöllum niðdimmur öskumökkur. Leiftrar hann allur af eldslogum og þrumum. Hér er þá skínandi bjart og sólskin hið fegursta, því kaldi er við útsuður, sem bægir mökknum fa éðan. En nál. kl. 10 f. h. lygnir hér og færist þá mökkurinn fram á loftið. Fellur þá yfir öskudrífa og helst hún í 2 klst. Verður þá svo dimmt, að ekki sést til næstu húsa.

Því næst rennur á norðan kylja og léttir upp. Drífur þá öskumökkinn vestur til Mýrdalsins. En alltaf leiftra eldingar og þrumur dynja. Heyrast þær vera í lofti, en eigi í gígnum. Alltaf leggur mökkinn hátt á loft, nærfellt upp í hvolf, og tekur hann yfir nærri hálfan sjónhringinn.
Í dag er jörð orðin verri af öskufallinu, en hún var áður. Er full þörf á að taka hverja skepnu á gjöf, enda æða þær nú um allt eirðarlausar.

23 október Aðfaranótt þessa dags finnst okkur hin hörmulegasta. Fyrir miðnótt gengur öskumökkurinn austur yfir á ný og byrgir hér allt, og lýstur yfir svo miklu myrkri,að eigi sér fyrir gluggum. Fylgja svo miklar eldingar og reiðarslög að einsdæmi munu vera. AUa nóttina drífur ösku í sífellu, og helst myrkur og drífa til kl. 11 f. h. Kaldar þá af útsuðri og rofar til; gengur þá mökkurinn til norðausturs. En allan daginn ganga þrumur og eldingar. — Þegar upp léttir öskudrífunni er komið öskulag, 5 sm. að þykkt. Er því algerlega bjargarbann fyrir allar skepnur. Til vesturfjalla sést um tíma í dag. Eru þau biksvört, eins og jörð hér. Eftir að upp léttir í dag, hefir oft verið þokuvæla og dimmu móða, og sér litla stund til sólar.

24 október Í nótt vakna menn við dynki mikla og þrumur. Kl. 4 f. h. er öskumökkurinn kominn yfir og verður þá svarta myrkur. Kl. 7 f. h. kemur rof í norðaustri og því næst norðan vindur, sem slær mökknum til vesturs. Verður ekki meira af öskufalli hér þennan dag, en alltaf hylur svartur mökkurinn nærri hálft himinhvolfið — frá gígnum og vestur um, allt í hádegisstað —. Nú er hverri skepnu gefin full gjöf og alt ein sandauðn yfir að líta.

25 október. í morgun er rof í austri, en það byrgist vonbráðar af öskumekki, svo niðdimt er orðið kl. 6 f. h. Er þetta þriðji morguninn, sem menn vakna við myrkur i stað dagsbirtunnar og gerast menn all kvíðafullir, ef þessu fer fram til lengdar. En kl. 8 f. h. fer að kalda af suðri, rofar þá skjótt til og hverfur mökkurinn norður.

Sjást þá ei lengur eldingar og eigi heyrast þrumur. Gerist dagur þessi ánægjulegri en áhorfðist og virðist hægð á til jökulsins, en eigi sést þangað fyrir dimmviðri. Nú mun komið 6—8 sm. þykt vikurlag, enda sér hvergi á gras nema á þúfum í óslegnum mýrum. í nótt ætla menn að leggja af stað héðan til afréttar. Ætla þeir aðbjarga fé því, sem búist er við að sé þar.

Mynd: © DV ehf / Sigtryggur Ari Johannsson

26 október. í dag er útsynningur. Virðist hægð á gosinu í dag, en gufumökk leggur þó hátt á loft. Um sólarlag gjósupp aska mikil, og leggur dimman mökkinn austur yfir afrétti. Verða þá glampar, en dynkir vægir.

27 október. Enn er vindur af útsuðri. Heldur hann mökknum frá þessum stöðvum, en þess í stað leggur hann austur yfir afrétti eins og í gærkvöldi.

28 okt. því sem næst hið sama að segja um veður sem í gær. Er og líkt um öskumökkinn; hann er allmikill og Ieggur norðaustur til fjalla. Eldingar virðast nú minni en áður.

29 okt. Enn er svipað veður. Loft er oftast allmikið skýjað og sér því ekki vel til mökksins.

30 okt. Sama veðurlag og áður. Dynkir heyrast nú eigi svo teljandi sé. En í kvöld leiftra skínandi bjartir eldglampar hátt á loft upp.

31 okt. Ennþá helst sama veðurátta. Eldglampar miklir að kveldi. Virðast þeir sem logandi bál við fætur mannar svo eru þeir skærir. Og eigi líður milli þeirra nema. 1 — 2 mín.

1 nóv. Nú sýnist mökkurinn með minsta móti. Og yfirleitt er ekkert að sjá né heyra fyr en í vökulok, þá eru sífeldir eldglampar, og leggur upp gufumökk allmikinn Dynkir heyrast þá aðeins.

2 nóv. í kvöld hafa verið óslitin eldslog og öskumökkur mikili. Virðist drífa mest úr honum niður á jökulinn.

3 nóv. Nú er að mestu heiðskírt veður, og sést allur jökullinn. Er nú mökkur sem enginn. Þó þeytast upp gufuflókar öðruhvoru, sem brátt verða sundurlansir. Er sama hægð á i allan dag.

4 nóv. Fyrst í morgun sjást örlítil ský læðast upp úr gignum, en síðan alls ekki neitt. Er nú bjart og létt yfir jöklinum. Sést nú gerla béðan, að mikil breyting er orðin á honum. Skerast upp í hann tvö gljúfur og bæði mikil. Annað er upp undan Sandfelli, en hitt fyrir vestan Hafursey. Þó er umbreytingin allramest á jöklinum milli hábungnanna, kringum gíginn. Einnig virðist skriðjökullinn milli Hafurseyjar og Sandfells hafa lækkað að miklum mun.

Norðurhjáleigu, 5. nóv. 1918. Gisli Magnússon. Eimreiðin 01.04.1919

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Yfirmaður á hjúkrunarheimili snýr til baka úr leyfi í skugga ásakana um áreitni við ungt starfsfólk

Yfirmaður á hjúkrunarheimili snýr til baka úr leyfi í skugga ásakana um áreitni við ungt starfsfólk
Fréttir
Í gær

Grunur um manndráp á Akureyri

Grunur um manndráp á Akureyri