Fréttir

Sjálfstæðisflokkur í vanda

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
Þriðjudaginn 13. september 2016 08:15

Auðvitað er það reiðarslag fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fyrrverandi formaður hans, Þorsteinn Pálsson, og fyrrverandi varaformaður, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þoli þar ekki lengur við og ákveði að ganga til liðs við nýtt stjórnmálaafl, Viðreisn.

Sjálfstæðismenn gátu lengi vel stært sig af því að tilheyra fjöldahreyfingu. Nú er öldin önnur. Formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, ber þar mikla ábyrgð. Hann gerði ekkert til að ná sáttum við Evrópusinnaða flokksmenn sem hver á fætur öðrum yfirgáfu Sjálfstæðisflokkinn, enda fundu þeir mætavel að skoðanir þeirra voru illa þokkaðar af forystunni. Það er furðulegt að formaður flokks, sem lengi gat státað af því að vera fjöldahreyfing, skuli hafa tekið þá meðvituðu ákvörðun að þrengja flokkinn svo mjög að stórum hópi flokksmanna, þar á meðal fyrrverandi áhrifafólki, væri ekki lengur vært.

Framboðslistar flokksins eru enn eitt vandræðamálið. Ber þar fyrst að nefna „lögfræðingalistann“ í Reykjavík. Nú skal ekki gert lítið úr lögfræðimenntun, hún er vissulega brúkleg, en það er vægast sagt til marks um gríðarlega einsleitni þegar lögfræðimenntað fólk skipar sjö af átta efstu sætum listans. Framboðslistar eiga að spegla samfélagið, þar á ekki ein stétt að hreiðra sældarlega um sig.

Kynjahlutfallið á listum í tveimur kjördæmum hefur síðan orðið að stórfrétt og veldur usla innan flokksins. Málið er vissulega allt hið vandræðalegasta fyrir flokkinn, en það er ekki jafn einfalt og látið er í veðri vaka í umræðunni. Í Suðurkjördæmi var vitað að staða Ragnheiðar Elínar Árnadóttur væri erfið. Hún hefur verið umdeildur ráðherra og harðlega gagnrýnd fyrir verkleysi. Þátttakendur í prófkjöri Sjálfstæðismanna á Suðurlandi voru einfaldlega óánægðir með störf ráðherrans og komu þeirri skoðun sinni til skila. Það kemur því máli ekkert við að ráðherrann er kona. Á Suðurlandi kann Unnur Brá Konráðsdóttir að hafa goldið fyrir það að tala máli mannúðar í útlendingamálum meðan Ásmundur Friðriksson, sem hefur harða stefnu í þeim málum, gerði lukku og lenti ofarlega á lista. Það ætti að vera verulegt áhyggjuefni meðal Sjálfstæðismanna!

Einungis þrjár konur voru meðal frambjóðenda á Suðurlandi, en því var öðruvísi farið í Suðvesturkjördæmi þar sem þær voru nánast jafnmargar og karlarnir. Útkoman þar á bæ var hörmuleg fyrir konur. Bjarni Benediktsson reyndi víst að bjarga því sem bjargað varð með því að reyna að fá Þorgerði Katrínu þar í framboð. Hún hefði mjög líklega náð þar góðum árangri, sem og Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefði hún boðið sig fram til endurkjörs. Hvorug þeirra var á listanum en það réttlætir samt ekki útkomuna. Það hefði ekki átt að vera svo fjarska erfitt að merkja við konur í prófkjörinu, en einhvern veginn vafðist það fyrir þeim sem kusu í þessu kjördæmi.

Sjálfstæðisflokkurinn er í vanda og flokksmenn hafi fært pólitískum andstæðingum vopn í hendur. Viðreisn hefur gert að verkum að auðvelt að stimpla Sjálfstæðisflokkinn sem harðlínu-hægri flokk sem gæti sérhagsmuna. Slæm staða kvenna í tveimur prófkjörum mun verða til þess að flokkurinn verður kallaðar gamaldags karlaflokkur. Hugsanlega verður reynt að setja plástur á sárin og breyta listunum og gera konum hærra undir höfði. Það er hins vegar ansi vandræðalegt að breyta reglum eftir á og lagfæra lýðræðisleg prófkjör af því að þátttakendur í þeim völdu ekki rétta gerð af fólki. Spyrja má: Til hvers að hafa prófkjör ef vilji þeirra sem tóku þátt í þeim er að engu hafður?

Það er sama hvað gert verður. Sjálfstæðisflokkurinn er í miklum vanda.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af