Fréttir

Settir í röð af Moody’s

Ritstjórn DV skrifar
Föstudaginn 9 september 2016 09:55

Ákvörðun Moody’s um að hækka lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins í A-flokk er viðurkenning á lygilegum viðsnúningi í þjóðarbúskapnum og hversu vel hefur tekist til við að framfylgja áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta. Þrátt fyrir að hækkunin hafi verið löngu tímabær, enda er staða efnahagsmála hér á landi óðum að verða ein sú besta í Evrópu, þá er það fáheyrt að lánshæfiseinkunn þjóðríkja sé hækkuð um tvö þrep – í þessu tilfelli úr Baa2 í A3 – í einu skrefi. Takist vel til við að losa um höft á innlenda aðila á komandi mánuðum, sem mun ekki raska stöðugleika í efnahagslífinu, ásamt því að haldið verður áfram á þeirri braut að lækka skuldir ríkisins þá er raunhæft að lánshæfismatið þokist enn meira upp á við eftir um tólf mánuði.

Þrennt skipti mestu máli í rökstuðningi matsfyrirtækisins fyrir hærri lánshæfiseinkunn. Skuldir ríkissjóðs hafa lækkað verulega á síðustu árum og reiknað er með því að þær eignir sem kröfuhafar gömlu bankanna framseldu til stjórnvalda verði nýttar til að lækka þær enn frekar. Allt útlit er fyrir að skuldahlutfallið verði innan fárra ára aðeins um fjórðungur af landsframleiðslu. Þá horfir Moody’s einnig til þess að erlend staða þjóðarbúsins hefur tekið stakkaskiptum en vænta má þess að Ísland verði brátt komið í þá stöðu að vera lánardrottinn gagnvart útlöndum. Það eru ótrúleg umskipti miðað við þann alvarlega greiðslujafnaðarvanda sem Ísland glímdi við fyrir ekki löngu. Að lokum telur matsfyrirtækið að þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa boðað til að lyfta höftum af íslenskum heimilum og fyrirtækjum séu þannig útfærðar að áhætta fyrir raunhagkerfið og fjármálakerfið sé afar lítil.

Ekki þarf að fjölyrða um þau jákvæðu áhrif sem ákvörðun Moody’s – og allar líkur eru á að matsfyrirtækin Fitch og S&P fylgi senn í kjölfarið – hefur fyrir íslenskt efnahagslíf. Þau birtust strax í því að ávöxtunarkrafan á ríkisskuldabréf lækkaði umtalsvert sem ætti að skila sér í lægri innlendum vaxtakostnaði. Bætt kjör ríkisins á erlendum fjármagnsmörkuðum ryður einnig brautina fyrir meðal annars bankana sem munu núna eiga þess kost að endurfjármagna skuldir sínar í erlendri mynt á hagstæðari lánakjörum. Íslensk fyrirtæki sem þurfa á erlendri fjármögnun að halda munu njóta góðs af því í formi lægri vaxtakostnaðar.

Stefni íslenska ríkið hraðbyri í greiðslufall þá hafa þau tíðindi að minnsta kosti farið framhjá því sama fyrirtæki og ákvarðar hvenær þjóðríki hafa svikist undan skuldbindingum sínum.

Það sem vekur þó mesta athygli í rökstuðningi Moody’s er að þar er ekki vikið einu orði að mögulegri lagalegri áhættu vegna aflandskrónueigenda sem tóku ekki þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans í sumar og munu þess í stað enda með fjármuni sína á læstum vaxtalausum reikningum um ófyrirséðan tíma. Telur matsfyrirtækið að áhætta vegna slíkra krónueigna, sem eru um 8% af landsframleiðslu, sé „mjög takmörkuð.“ Þannig gefur Moody’s ekkert fyrir málflutning hagsmunavarða og ráðgjafa sumra aflandskrónueigenda sem hafa sagt aðgerðir stjórnvalda jafngilda valkvæðu greiðslufalli á skuldbindingum ríkisins. Stefni íslenska ríkið hraðbyri í greiðslufall þá hafa þau tíðindi að minnsta kosti farið framhjá því sama fyrirtæki og ákvarðar hvenær þjóðríki hafa svikist undan skuldbindingum sínum.

Þeir aflandskrónueigendur sem vildu ekki samþykkja skilyrði Seðlabankans í útboðinu samanstanda að mestu af fjórum bandarískum fjárfestingarsjóðum. Telja þeir aðgerðir stjórnvalda fela í sér ólögmæta eignaupptöku og brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þótt íslensk yfirvöld efist ekki um lögmæti þeirra aðgerða sem gripið var til við að leysa aflandskrónuvandann þá er ljóst að þeim möguleika er enn haldið opnum að sjóðirnir geti átt í beinum gjaldeyrisviðskiptum við Seðlabankann vilji þeir endurskoða afstöðu sína um sitja fastir með fé sitt hér á landi.

Þannig gæti þeim núna hugsanlega staðið til boða útganga á lítillega hagstæðara gengi en 190 krónur fyrir hverja evru, sérstaklega þegar litið er til þess að krónan hefur styrkst um rúmlega 7% frá því að útboðið fór fram um miðjan júnímánuð. Gjaldeyrisforðinn hefur sömuleiðis haldið áfram að stækka samhliða gríðarlegu innflæði gjaldeyris, með ærnum fjárhagslegum kostnaði fyrir Seðlabankann, sem þýðir að skynsamlegt gæti verið að selja hluta þess forða til aflandskrónueigenda með talsverðum gengishagnaði fyrir bankann. Grundvöllur að samkomulagi milli bandarísku sjóðanna og stjórnvalda kann því að vera fyrir hendi núna þegar fyrir liggur, eins og öllum mátti vera ljóst, að Moody’s hefur í reynd staðfest að sá málflutningur að ríkið kynni að standa frammi fyrir greiðslufalli var í besta falli kjánaleg umræða. Forsvarsmenn sjóðanna ættu að því tilefni að endurmeta hagsmunamat sitt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Fréttir
Fyrir 15 mínútum síðan
Settir í röð af Moody’s

Sjómenn á Fjölni GK fundu fótinn: Skór fylgdi með – „Ósk áhafnarinnar að fundurinn veiti manneskju sálarró“

Fréttir
Fyrir 1 klukkutíma síðan
Sjómenn á Fjölni GK fundu fótinn: Skór fylgdi með – „Ósk áhafnarinnar að fundurinn veiti manneskju sálarró“

Sívar er látinn: Ásdís Halla minnist bróður síns

Fréttir
Fyrir 1 klukkutíma síðan
Sívar er látinn: Ásdís Halla minnist bróður síns

Örn fór af spítalanum eftir hjartaáfall: „Ég varð að fara að spila – Það er ekkert sem stoppar þig“

Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum síðan
Örn fór af spítalanum eftir hjartaáfall: „Ég varð að fara að spila – Það er ekkert sem stoppar þig“

Umfangsmiklar aðgerðir á Faxaflóa: Kafbátur var notaður til að ná upp líkamsleifunum

Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum síðan
Umfangsmiklar aðgerðir á Faxaflóa: Kafbátur var notaður til að ná upp líkamsleifunum

Skipverjar Polar Nanoq minntust Birnu

Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum síðan
Skipverjar Polar Nanoq minntust Birnu

Líkamshlutar finnast við Snæfellsnes

Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum síðan
Líkamshlutar finnast við Snæfellsnes

Rúnar Freyr gjaldþrota

Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum síðan
Rúnar Freyr gjaldþrota

Páll hjólar í ritstjóra Stundarinnar: „Axlið ábyrgð ykkar og biðjist afsökunar“

Mest lesið

Rúnar Freyr gjaldþrota

Ekki missa af