Fréttir

Ofurbónusar og staðreyndir

Ritstjórn DV skrifar
Föstudaginn 2. september 2016 10:00

Óhætt er að segja að fall bankanna og þær efnahagshremmingar sem fylgdu í kjölfar fjármálaáfallsins hafi komið misjafnlega niður á íslensku launafólki. Fyrir þá Íslendinga sem völdust til starfa fyrir slitabú gömlu bankanna, hvort sem um var að ræða slitastjórnir eða starfsfólk á plani, hefur bankahrunið nefnilega reynst lottóvinningur. Og hann heldur aðeins áfram að gefa af sér.

Að undanförnu hefur DV upplýst um umfangsmikil bónuskerfi sem eignarhaldsfélög, stofnuð utan um eignir föllnu bankanna, hafa samþykkt og opna á þann möguleika að lítill hópur stjórnenda og lykilstarfsmanna getið fengið samtals milljarða króna í bónusgreiðslur á komandi árum. Í einhverjum tilfelllum gætu sumir íslenskir stjórnendur, meðal annars hjá LBI eignarhaldsfélagi (gamli Landsbankinn), átt í vændum hundruð milljóna í bónus á mann takist þeim að hámarka endurheimtur erlendra kröfuhafa félagsins. Slíkar bónusgreiðslur eru ekki einsdæmi hér á landi. Í lok síðasta árs fékk hópur starfsmanna eignaumsýslufélagsins ALMC, áður Straumur-Burðarás fjárfestingabanki, samtals yfir þrjá milljarða í sinn hlut í bónus. Meira en helmingurinn féll í skaut aðeins fimm stjórnenda, þar á meðal tveggja Íslendinga, sem fengu hver um sig á bilinu um 300 til 500 milljónir.

Fréttir DV af ævintýralegum bónusgreiðslum sem starfsmenn þessara eignarhaldsfélaga geta fengið hafa – skiljanlega – vakið hörð viðbrögð, bæði hjá almenningi og á Alþingi, enda er um að ræða fjárhæðir sem eiga sér enga skírskotun í íslenskan veruleika. Það er því ekki óeðlilegt að umræða, einkum út frá siðferðislegum sjónarmiðum, eigi sér stað um slíka bónusa til handa fáum starfsmönnum fyrir það eitt að sýsla með erlendar eignir kröfuhafa. Sú umræða þarf samt að vera málefnaleg og grundvallast á staðreyndum. Það hefur svo sannarlega ekki verið reyndin á síðustu dögum – ekki síst hjá stjórmálamönnum sem gefa lítið fyrir hvað sé rétt og rangt núna þegar þeir í örvæntingu sinni keppast um atkvæði kjósenda í aðdraganda alþingiskosninga.

Félögin þrjú sem áforma að greiða ríkulegar bónusgreiðslur á næstu árum – Kaupþing, LBI og Glitnir HoldCo – eru hvorki bankar né fjármálafyrirtæki. Þá eru þau sömuleiðis ekki slitabú, gömlu bankarnir luku enda allir nauðasamningum um síðastliðin áramót, heldur eignarhaldsfélög undir forræði kröfuhafa, sem eru að langstærstum hluta alþjóðlegir vogunarsjóðir. Hvorki stjórnendur né starfsfólk hinna nýju endurreistu viðskiptabanka höfðu aðkomu að ákvörðun um uppsetningu slíkra bónuskerfa – og því síður munu þeir fá nokkurn hlut í þeim milljarða bónusum sem kunna að verða greiddir út til lykilstarfsmanna þessara eignarhaldsfélaga. Það ætti ekki að vera til of mikils mælst að jafnvel þingmenn og reyndir fjölmiðlamenn geri sér grein fyrir þessum einföldu atriðum.

Ruglið náði líklega hámarki þegar þingmaður Framsóknarflokksins sagðist vilja allt að 98% skatt – af hverju ekki 99%? – á slíkar bónusgreiðslur.

Í umræðum á Alþingi undanfarna daga hafa ýmsir sett fram furðulegar hugmyndir um hvernig megi „taka á þessum bankabónusum“, sem eru samt ekki bankabónusar, með því að beita lagasetningarvaldinu. Léttvæg atriði eins og að skattlagning þurfi að vera almenn og skattaandlagið ákveðið með hlutlægum hætti skipta engu þegar þingmennirnir hafa tjáð skoðanir sínar á þessu máli. Ruglið náði líklega hámarki þegar þingmaður Framsóknarflokksins sagðist vilja allt að 98% skatt – af hverju ekki 99%? – á slíkar bónusgreiðslur. Fáir hafa hins vegar vakið máls á því að þeir Íslendingar sem munu fá bónusa í sinn hlut þurfa að greiða 46,25% hátekjuskatt af þeim eins og um sé að ræða launatekjur. Sumir kynnu að kalla það ofurskattlagningu.

Þótt þeir séu margir sem hneykslist á þessum bónusgreiðslum – og það er síst skortur á slíku fólki eftir fjármálaáfallið – þá eru takmörk fyrir því hversu langt löggjafarvaldið getur gengið í því að hafa afskipti af einkaréttarlegum samningum fyrirtækja. Í tilfelli fjármálafyrirtækja, sem sýsla með innlán almennings, gilda önnur rök og því mega þau ekki greiða meira í bónus til starfsmanna en sem nemur 25% af árslaunum þeirra. Reynslan hefur enda sýnt að óheftir kaupaukar í fjármálakerfinu ýta undir óhóflega áhættusækni til skamms tíma sem getur endað með skelfingu, ekki aðeins fyrir bankakerfið heldur hagkerfið í heild sinni. Þessi sjónarmið eiga aftur á móti ekkert við um starfsemi eignarhaldsfélaga gömlu bankanna.

Hér er ekki ætlunin að mæla sérstaklega fyrir ofurbónusum en takist alþingismönnum ætlunarverk sitt, að því er virðist, um að koma í veg fyrir þessar bónusgreiðslur til Íslendinga þá er ljóst að ríkissjóður kann að verða af meira en milljarði króna í formi skattgreiðslna. Þess í stað myndu fjármunirnir skila sér í auknum endurheimtum erlendra vogunarsjóða og ríkið fengi ekki krónu í sinn hlut. Þetta er staðan. Og af umræðunni að dæma virðist sem svo að stór hluti þjóðarinnar verði ekki sáttur með neitt nema þá niðurstöðu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af