fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Höfundur Njálu – flókið mál

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 13. maí 2016 13:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einar Kárason ritar grein í helgarblað DV (6.–9. maí) undir heitinu „Sannleikurinn um höfund Njálu“ og undirtitill í sviga, „Þetta er einfaldara en margir halda“.

Ég veit ekki með sannleikann en málið er fráleitt einfalt. Í sannleika sagt hef ég beðið þess að einhver legði orð í belg en verð víst að gera það sjálfur.

Ég sagðist ekki vita með sannleikann og átti við að ég hef ekki hugmynd um hver skrifaði Njálu en Einar er sannfærður um að það hafi verið Sturla Þórðarson lögsögumaður (1224–1280), sá hinn sami og skrifaði „Sturlungubók“. Í umræddri grein nefnir hann helst máli sínu til stuðnings hina þrískiptu uppbyggingu Sturlungubókar og Njálu og ég veit að hann hefur áður bent á ýmislegt smálegt sem sameiginlegt er báðum sögunum og hann nefnir ekki en kallar það hliðstæður og enduróma sem telja má í hundruðum. Ég veit ekki hvort sá fjöldi er réttur.

En hver var Sturla og hver er þessi Sturlungubók?

Sturlungubók sem Einar nefnir svo er gróft sagt sá hluti Sturlungu sem gerist á árunum frá ca 1220 til loka þjóðveldisins, 1264. Fræðimenn“ greinir á um hve mikilvirkur rithöfundur Sturla var. Það er hafið yfir vafa að hann skrifaði Landnámabók (Sturlubók) og honum hafa verið eignuð Kristnisaga, Íslendingasaga (Sturlungubók) og af sumum Hænsna-Þórissaga. Menn hafa deilt um hve mikið hann reit af Sturlungubók. Björn M. Ólsen, einn mesti Sturlungufræðingur okkar í samanlagðri kristni, taldi til dæmis að hann hafi ekkert skrifað af henni eftir Örlygsstaðabardaga og Ásgeir Jakobsson taldi að ekkert á árunum 1242 til 1252 væri eftir hann. Rökstuðningur beggja er afar sannfærandi og varla fram hjá honum horft. Fleiri hafa skrifað um hlutdeild hans í verkinu og sýnist sitt hverjum.

Gleymum því ekki að Sturlunga í heild sinni er varðveitt sem safnrit þar sem steypt er saman nokkrum samtímasögum og þar á meðal Sturlungubókinni. Efni þeirra er hlutað sundur í tímaröð, sumt fellt niður og einhverju bætt við af ritara. Gleymum því heldur ekki að Sturla var ekki viðriðinn marga af atburðunum sem frá er greint í Sturlungubók. Hann var ekki í brennunni á Flugumýri og kom ekkert nálægt hefndinni þótt hann væri á vissan hátt málsaðili. Hafi hann skrifað um þetta allt má hann hafa haft góða heimildarmenn úr innsta kjarna allra fylkinga og ætta. Fleiri en einn og fleiri en tvo.

Það er því aðeins Landnámabók (Sturlubók) sem með vissu er rituð af Sturlu Þórðarsyni. Í þeirri bók er kjarninn ættartölur og það er líka talsvert af ættartölum í Njálu. Það skondna er að sömu ættartölur eru öðruvísi í Njálu en í Landnámabók og ólíklegt að Sturla hafi haft af þeim sitthvora útgáfuna í bókum sínum. Hafi hann skrifað Kristnisögu eru þar líka mótsagnir við kristniþátt Njálu sem bendir til þess að þar fari sitt hvor höfundurinn.
Það er hins vegar rétt hjá Einari að það eru hliðstæður og endurómar milli þessara tveggja sagna en það bara á við svo margar sögur. Höfundar Íslendingasagna þáðu hver af öðrum og stóðu á öxlum hver annars. Við vitum líka að höfundar á öllum tímum sækja efni til samtímans, það sem þeir þekkja af eigin reynslu eða þekkingar sem þeir hafa aflað sér og höfundur Njálu er engin undantekning. Flugumýrarbrenna og Lönguhlíðarbrenna eru greinilega fyrirmyndir höfundarins að Njálsbrennu.

Það er hins vegar ekki alls kostar rétt hjá Einari að Njála sé þrískipt. Hún er eiginlega fjórskipt því hún hefst á forleik vestur í Dölum og Njáluhöfundur er ekki kunnugur á þeim slóðum. Á það hafa margir fræðimenn bent, fyrst sjálfur Árni Magnússon sem þar var upprunninn. Sturla Þórðarson var gagnkunnugur í Dölum, bjó þar stærstan part lífs síns og hefði trúlega aldrei gert sig sekan um þær missagnir og staðþekkingarvillur, landfræðilegar og sagnfræðilegar, sem þar koma fram. Þær verða ekki raktar hér.

Það má af ofanskráðu sjá að ég er ekki endilega sammála Einari og vona að ég hafi rökstutt að málið er ekkert einfalt. Ég endurtek að ég veit ekkert um sannleikann en hafi Sturla Þórðarson lögsögumaður skrifað Njálu þá skyldi það fara leynt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

„Grípa margir til þeirra örþrifaráða að flýta fyrir eigin dauða“

„Grípa margir til þeirra örþrifaráða að flýta fyrir eigin dauða“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Forsetaframbjóðandi greiddi fyrir viðtalið í NBC – Segir verðið trúnaðarmál – „I´m Gonna Win, There You Go“

Forsetaframbjóðandi greiddi fyrir viðtalið í NBC – Segir verðið trúnaðarmál – „I´m Gonna Win, There You Go“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“