fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Leitin að fjársjóði musterisriddaranna á hálendi Íslands

Enn einn leiðangurinn fyrirhugaður í sumar – Kenningin byggist á Gleðileik Dante – Fjölmargar vísbendingar í verkum da Vinci, Boticelli og Raphael

Björn Þorfinnsson
Laugardaginn 30. apríl 2016 08:00

Enn einn leiðangurinn fyrirhugaður í sumar - Kenningin byggist á Gleðileik Dante - Fjölmargar vísbendingar í verkum da Vinci, Boticelli og Raphael

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hópur manna hefur, hartnær hvert sumar, leitað að fjársjóði musterisriddara á hálendi Íslands. Í fararbroddi er Ítalinn Giancarlo Gianazza sem telur sig hafa fundið vísbendingar í meistaraverkum Dante, da Vinci, Boticelli og Raphael sem allar vísa á ákveðinn stað, árfarveg uppi á Kili. Á leitarstaðnum hafa undanfarin ár fundist enn fleiri vísbendingar sem gefa til kynna að fótur sé fyrir kenningum Gianazza auk þess sem eitt af höfuðverkum okkar Íslendinga, Sturlunga, leikur mikilvægt hlutverk í lausn ráðgátunnar. Enn einn leiðangurinn er fyrirhugaður í sumar.

Tortóla miðalda

Íslenskt samfélag nötrar þessi misserin út af uppljóstrunum úr svokölluðum Panama-skjölum. Skjölin sýna fram á hvernig fjölmargir íslenskir valdamenn fluttu verðmæti frá landinu á tímabili þar sem ástandið hérlendis var vægast sagt ótryggt. Ekkert er hins vegar nýtt undir sólinni og í gegnum söguna eru mörg dæmi um slíkt, að verðmætum sé skotið undan í öruggt skjól. Eitt hugsanlegt dæmi byggir á þeirri kenningu að árið 1217 hafi herflokkur musterisriddara ferðast alla leið til Íslands til þess að koma verðmætum fjársjóði í öruggt skjól við heimskautabaug. Ísland var, samkvæmt þessari kenningu, því eins konar Tortóla miðalda.

Byltingarkennd túlkun meistaraverks

Þessi kenning á rætur sínar að rekja til rannsókna Giancarlo Gianzza, ítalsks stærðfræðings, á meistaraverki ítalskra bókmennta, Guðdómlega gleðileiknum eftir Dante Alighieri, sem ort var í byrjun 14. aldar. Í kvæðinu lýsir Dante ferðalagi sínu um helvíti (Inferno), hreinsunareldinn (Purgatorio) og að lokum paradís (Paradiso) í fylgd rómverska skáldsins Virgil og drottningarinnar Beatrice. Dante var frumkvöðull í að skrifa á ítölsku talmáli frekar en latínu og því hefur hann verið titlaður „Faðir ítölskunnar“. Það er því í meira lagi byltingarkennt að túlka meistaraverk hans á svo nýstárlegan hátt.

Skilaboð í verkum da Vinci, Botticelli og Raphael

Giancarlo vill meina að hinn Guðdómlegi gleðileikur sé leiðarvísir með földum skilaboðum sem vísi á stað á Íslandi, nánar tiltekið á árfarveg á Kili, þar sem óskilgreind verðmæti eru falin. Kenningin byggist á því að í bréfum Dante til vina sinna tekur hann fram varðandi meistaraverk sitt að þar sé á ferðinni leiðarvísir úr tölum og orðum.

Engar tölur er hins vegar að finna í texta Gleðileiksins og því settist Giancarlo niður og fann út flókin töluleg skilaboð sem studdust við línutal og staðsetningu áhrifaorða í línu. Þannig fann hann út orðið Tule sem og tilteknar breiddargráður sem vísa að hans mati aðeins á einn mögulegan stað, til Íslands. Um mikið verk var að ræða og oft á vegferðinni efaðist ítalski stærðfræðingurinn. Það var ekki fyrr en að hann byrjaði að skoða málverk meistara endurreisnarinnar, Leonardo da Vinci, Sandro Botticelli og Raphael að hann sannfærðist endanlega. Í verkunum má nefnilega finna ýmsar tilvísanir í Dante og vísbendingar um að eitthvað mikilvægt tengist árfarveginum íslenska.

Giancarlo Gianazza telur sig hafa fundið margar vísbendingar í meistaraverki da Vinci. Á myndinni má sjá hvar hann telur sig hafa fundið portrett af sjálfum Dante. Þá tákna fjöllin fyrir ofan Ísland og þar má greina leiðina í gegnum kjöl og mögulega íslenskan hest á tölti. Þá heitir málverkið upprunalega La Gioconda en tvisvar í Gleðileik Dante er orðið gioconda notað til þess að lýsa augum Beatrice, drottningarinnar sem leiðbeinir Dante í gegnum Paradís. Kenningin er sú að sjálf Mona Lisa sé Beatrice. Nánar má lesa um þessar kenningar á heimasíðu GÓP-frétta.
Mona Lisa Giancarlo Gianazza telur sig hafa fundið margar vísbendingar í meistaraverki da Vinci. Á myndinni má sjá hvar hann telur sig hafa fundið portrett af sjálfum Dante. Þá tákna fjöllin fyrir ofan Ísland og þar má greina leiðina í gegnum kjöl og mögulega íslenskan hest á tölti. Þá heitir málverkið upprunalega La Gioconda en tvisvar í Gleðileik Dante er orðið gioconda notað til þess að lýsa augum Beatrice, drottningarinnar sem leiðbeinir Dante í gegnum Paradís. Kenningin er sú að sjálf Mona Lisa sé Beatrice. Nánar má lesa um þessar kenningar á heimasíðu GÓP-frétta.

Dante-klúbburinn ekki hrifinn

Kenningar Giancarlo eru að mörgu leyti umdeildar enda er hinn Guðdómlegi gleðileikur á slíkum stalli í heimalandi hans að ekki er endilega vel séð að túlka verkið með slíkum byltingarkenndum hætti. Sagan segir að Giancarlo hafi borið kenninguna undir formann Dante-klúbbsins í heimaborg sinni, en rétt er að geta þess að af slíkum klúbbum státa allar almennilegar heimsborgir.

Sá var nokkuð hrifinn af kenningunni og fannst hún í raun svo athyglisverð að hann taldi hana eiga erindi til sem flestra áhugamanna um Dante. Skömmu síðar hafði hann hins vegar samband við Giancarlo og tjáði honum að hann gæti ekki talað hans máli, aðrir klúbbfélagar hefðu gjörsamlega þvertekið fyrir það.

Hermenn Snorra Sturlusonar

Giancarlo var þó ekki af baki dottinn varðandi tengingu Dante við Ísland og fyrir hreina tilviljun komst hann í samband við Þórarin Þórarinsson arkitekt. Þórarinn er mikill áhugamaður um Íslendingasögurnar og þegar hann hafði hlustað á kenningar Ítalans benti hann á atriði í Sturlungu sem hafði oft valdið honum heilabrotum. Í einum kafla bókmenntaverksins segir orðrétt: „Eftir þetta fjölmenntu mjög hvorir tveggja til alþingis. Snorri lét gera búð þá upp frá Lögréttu er hann kallaði Grýlu. Snorri reið upp með sex hundruð manna og voru átta tigir Austmanna í flokki hans alskjaldaðir“.

Þessi fullyrðing er athyglisverð í ljósi þess að Snorri hafði aldrei farið til útlanda og ekki einu sinni Noregskonungur hafði haft burði til þess að senda hermenn til landsins þrátt fyrir að fylgjast vel með gangi mála hérlendis á þessum árum. Hvernig í ósköpunum fékk hann til liðs við sig 80 manna, albúið herlið útlendinga?

Óhætt er að segja að Giancarlo hafi orðið spenntur yfir þessum upplýsingum. Atburðirnir, sem lýst er í Sturlungu, eiga að hafa átt sér stað árið 1217 sem passar fullkomlega inn í kenningar Giancarlo um musterisriddarana. Sagan segir að árið 1125 hafi fyrstu musterisriddararnir fundið eitthvað mikilvægt í Jerúsalem. Hugsanlega forna muni og skráðar heimildir sem tengdust hinum raunverulegu viðfangsefnum og sögu elstu kristni. Sönnunargögnin voru falin og varðveitt í Frakklandi í tæpa öld en árið 1209 var orðið svo róstursamt í Evrópu að ákveðið var að flytja fjársjóðinn á öruggan stað, sá staður að mati Giancarlo, er Ísland.

Hér má sjá árfarveginn sem Giancarlo er sannfærður um að Dante sé að lýsa í ákveðnum hluta Gleðileiksins.
Loftmynd Hér má sjá árfarveginn sem Giancarlo er sannfærður um að Dante sé að lýsa í ákveðnum hluta Gleðileiksins.
Fremst á myndinni, hægra megin, má sjá Jóhannes skírara. Hann vísar hægri hendi á áletrun undir hásætinu um leið og hann horfir á hnött í hendi Mikael erkiengils.
The Virgin and Child with Four Angels and Six Saints e. Boticelli Fremst á myndinni, hægra megin, má sjá Jóhannes skírara. Hann vísar hægri hendi á áletrun undir hásætinu um leið og hann horfir á hnött í hendi Mikael erkiengils.
„Vergine Madre, figlia del tuo figlio“ er fyrsta línan í Gleðileik Dante.
Áletrunin „Vergine Madre, figlia del tuo figlio“ er fyrsta línan í Gleðileik Dante.
Kenningin er sú að aðeins Ísland sjáist á hnettinum.
Mikael erkiengill og hnötturinn Kenningin er sú að aðeins Ísland sjáist á hnettinum.
Útlínurnar sem þarna sjást passa við lögun árfarvegarins á Kili þar sem leitin stendur yfir.
Nærmynd Útlínurnar sem þarna sjást passa við lögun árfarvegarins á Kili þar sem leitin stendur yfir.

Staðarhættir passa við Gleðileikinn

Flest sumur síðan 2004 hafa Giancarlo og Þórarinn farið ásamt hópi vaskra manna upp á Kjöl að leita að vísbendingum um fjársjóð musterisriddaranna. Einn af þeim var dr. Vigfús Magnússon, sem lést í fyrra, en hann hafði tekið þátt í verkefninu frá upphafi. Annar þátttakandi er leiðsögumaðurinn Gísli Ólafur Pétursson en hann heldur einnig úti athyglisverðri síðu, GÓP-fréttir þar sem rannsóknir Giancarlo eru raktar og þessi samantekt byggir á. Leitin hefur ekki verið til einskis því í gegnum árin hafa margar athyglisverðar uppgötvanir verið gerðar sem styðja við kenninguna.

Hér má sjá loftmynd af hinu náttúrulega hringsviði sem Giancarlo og samstarfsmenn hans telja sig hafa fundið. Í nágrenni þess eru klettamyndir eins og hásæti Beatrice, Ljónið, Örninn og andlit Krists.
Hringsviðið Hér má sjá loftmynd af hinu náttúrulega hringsviði sem Giancarlo og samstarfsmenn hans telja sig hafa fundið. Í nágrenni þess eru klettamyndir eins og hásæti Beatrice, Ljónið, Örninn og andlit Krists.

Sú fyrsta var einfaldlega sú að allir staðarhættir passa við lýsingar Dante í Gleðileiknum. Samkvæmt ljóðinu á að vera á sem rennur til suðurs. Þegar gengið er ákveðna vegalengd er komið að stað þar sem sólin skín aldrei ofan í vatnið. Skömmu síðar er minnst á foss sem er samansettur úr tveimur ám, annarri blárri en hinni hvítri. Sá foss telur Giancarlo vera Gýgjarfoss en ásamt jökulfalli rennur ferskvatnsáin Blákvísl í fossinn.

Táknmyndir í klettum

Þá passa önnur náttúrufyrirbrigði inn í lýsingar Dante. Fyrsta árið fannst náttúrulegt hringsvið í árfarveginum sem passar við lýsingar í Gleðileiknum um hringsvið hinnar snæhvítu rósar hinnar blessuðu. Smátt og smátt hafa fleiri vísbendingar bæst við, sumar hverjar afar merkilegar. Í ljóði Dante er vísað í verk steinsmiða og því er ekki hægt að útiloka að klettar eða grjót hafi verið hoggnir til af hagleiksmönnum á miðöldum. Sem dæmi um uppgötvanir má nefna stein sem lítur út eins og hásæti Beatrice drottningar, andlit, sem svipar til líkklæðisins í Turin, í austurvegg gilsins, klettamynd af ljóni og stríðsmanni með hjálm í norðri. Allt eru þetta myndir sem Dante dregur upp í meistaraverki sínu. Ein sú mikilvægasta sem fannst árið 2012 var klettamynd af erni sem skipar veigamikið hlutverk í texta Dante. Sú klettamynd átti, samkvæmt texta Dante, að vera í 100 rómverskra álna fjarlægð frá sæti Beatrice drottningar. Illa gekk að finna þá klettamynd en þegar það loks tókst þá kom í ljós að fjarlægðin frá hásætinu og auga arnarins var nákvæmlega 44,46 metrar. Það eru 100 rómverskar álnir.

„Við vitum ekki að hverju við erum að leita“

Vinirnir og samstarfsfélagarnir, Giancarlo Gianazza og Þórarinn Þórarinsson.

Vinirnir og samstarfsfélagarnir, Giancarlo Gianazza og Þórarinn Þórarinsson.

„Við erum búnir að bóka í Kerlingarfjöllum í sumar, í rúma viku. Við erum yfirleitt aldrei lengur, okkur skortir úthald í meira. Það er í rauninni sama sagan, við erum að reyna að leita að líklegum stað og túlka af nákvæmni hvað Dante átti við. Við erum búnir að fara í gegnum og útiloka nokkrar kenningar um mögulega staðsetningu. Vandamálið er að við vitum ekki að hverju við erum að leita, hvernig það lítur út, í hvers konar umgjörð það er eða hvort nokkuð sé yfirhöfuð þarna. Þetta gætu allt eins verið andleg skilaboð og þannig er ekki neitt veraldlegt þarna,“ segir Þórarinn Þórarinsson. Hann segir að vinur sinn og samstarfsfélagi, Giancarlo Gianzza, sé hins vegar sannfærður um að eitthvað mikilvægt sé hulið á þessum slóðum og sá eldmóður hvetji hann áfram í hvert sinn sem efinn læðist að.

Að sögn Þórarins vinna hann og Giancarlo þannig að veturinn er nýttur til að reikna út hinar ýmsu staðsetningar og varpa kenningum á milli Ítalíu og Íslands. Á sumrin sé síðan búið að ákveða staðsetningar sem leggja á til atlögu við.

„Við höfum reglulega rekist á staðsetningar sem eru áhugaverðar. Við notum jarðsjá til þess að hjálpa okkur og stundum hefur hún gefið okkur falsvonir. Í fyrra vorum við með mjög álitlegan stað, samkvæmt útreikningum upp úr ljóðinu og niðurstöðum tækisins, en þegar við grófum tilraunaholu þá kom í ljós að um vikurlag var að ræða. Það sendi ekki bergmál til baka í jarðsjána og þannig leit út að um holrými undir yfirborðinu væri að ræða. Jarðlögin þarna eru erfið. Hins vegar getur vel verið að staðsetningin sé nánast rétt en aðeins hafi skeikað nokkrum metrum en það kemur í ljós. Við erum þegar búnir að ákveða álitlega staði sem skoða á í sumar.“

Það má með sanni segja að leit að fjársjóði musterisriddaranna á hálendi Íslands í yfir áratug hljómi sem verkefni sem aðeins bjartsýnustu ævintýramenn taka að sér. Blaðamaður er því í raun undrandi hversu kirfilega á jörðinni Þórarinn er varðandi verkefnið, það er aðeins rætt af ró og yfirvegun. „Hann er stærðfræðingur og ég er arkitekt. Við komum báðir úr heimi raunvísinda og rökhyggju. Við beitum þeim aðferðum og þær segja okkur þetta. Við getum því ekki annað en hlustað,“ segir Þórarinn. Hann er æðrulaus gagnvart þeirri staðreynd að mögulega grípi þeir í tómt á Kili. „Þetta er stórskemmtileg kenning hjá Giancarlo sem er allrar athygli verð. Það hefur verið afar ánægjulegt og spennandi að glíma við þessa gátu sem er sprottin úr einu þekktasta menningarverki heims. En á meðan við höfum ekki fundið neitt þá er þetta bara skemmtileg kenning,“ segir Þórarinn kíminn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“
Fréttir
Í gær

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”