Lexus bjó til svifbretti: En það er ekki jafn frábært og þið hélduð

Hjólabrettakappinn sem prófaði brettið brákaði á sér ökklann

Lexus hannaði ótrúlegt svifbretti.
Svifbretti Lexus hannaði ótrúlegt svifbretti.

Það er óhætt að segja að framtíðin sé núna. Í það minnsta þegar kemur að svifbrettinu í kvikmyndinni Aftur til framtíðar 2 þar sem Marty McFly svífur lipurlega um götur ársins 2015 á brettinu. Verkfræðingar Lexus, og nokkrir þýskir verkfræðinga til viðbótar, hafa smíðað raunverulegt svifbretti og því viðeigandi að kynna það í ár.

Það er kannski best að horfa fyrst á myndbandið hér fyrir neðan áður en lengra er haldið.

Jæja þá. Fyrsta spurningin hlýtur að vera; Eru þetta ekki örugglega tæknibrellur? Seinni spurningin hlýtur svo að vera: Hvernig í fjandanum virkar þetta?

Svarið við fyrri spurningunni er nei. Fréttamaður BBC fór á stúfana og kannaði brettið og skrifar skemmtilega frá þeirri reynslu.

Þar kemur fram að brettið sé í raun nokkurskonar ofurleiðari. Þannig lækka þeir ákveðið efni niður í mínus 197 gráður á selsíus. Þegar þeir blanda svo málmi við það, verður til segulsvið sem gerir það að verkum að brettið svífur. Sambærileg tækni er notuð hjá japönskum hraðlestum. Í fáum orðum er þetta nokkurskonar svartur galdur sem fær hluti til þess að svífa.

En þá veltir maður því fyrir sér hvort það virki eins og hjólabretti. Svarið er í raun nei. Maðurinn sem sést á myndbandinu er atvinnuhjólabrettakappi frá Spáni. Snillingur í að halda jafnvægi á litlu bretti með fjórum litlum hjólum. Hann sést ítrekað detta á þessu bretti, og brákaði að lokum ökklann á tækinu. Það er vegna þess að brettið er afar erfitt viðureignar. Það hreyfist ekki svo glatt áfram og það er djöfullegt að halda jafnvægi á því.

Myndin gerist árið 2015. Eða í ár.
Framtíðarsýnin Myndin gerist árið 2015. Eða í ár.

En það virkar engu að síður. Eftir töluverða vinnu tekst hjólabrettakappanum að nota það eins og hjólabretti og nær meira að það segja að stökkva á milli tveggja palla.

Þannig brettið er einstaklega óþægilegt, jafnvel hættulegt og gífurlega flókin vélbúnaður gerir það að verkum að krakkar eru ekki að fara að hlaupa út í búð til þess að kaupa slíkt bretti á næstu árum.

Hver er þá tilgangurinn? Jú, Lexus vildi sýna að ekkert væri ómögulegt. Og það er varla til betri leið til þess að komast í fréttirnar en að búa til svifbretti.

Þá má einnig segja að tæknin geti nýst á annan hátt. Til að mynda við að flytja geislavirk efni á milli staða. Eða við að knýja vélar í verksmiðjum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.