Unnið að rannsókn á slysstað fram í myrkur

Þyrla Landhelgisgæslunnar flytur rannsakendur til og frá slysstað – Ekkert símasamband í fjallshlíðinni

Vélin í fjallshlíðinni í Barkárdal.
Mynd frá slysstað. Vélin í fjallshlíðinni í Barkárdal.
Mynd: Landhelgisgæslan

Rannsóknarnefnd samgönguslysa vinnur nú að rannsókn flugslyssins sem var í Barkárdal á Tröllaskaga í gær og eru rannsakendur á slysstað.

Landhelgisgæslan aðstoðar starfsmenn rannsóknarnefndarinnar og sér meðal annars um að koma starfsmönnum rannsóknarnefndarinnar að slysstað sem er í fjallshlíð innarlega í dalnum.

Flogið var með rannsakendur frá Akureyri að slysstað um hádegisbilið og er stefnt að því að ljúka störfum fyrir myrkur. Ekkert símasamband er á slysstað svo ekki hafa fengist nákvæmar upplýsingar um hvernig rannsóknin gengur.

„Í augnablikinu erum við með þyrlu á staðnum. Það er ekki gott að segja hvenær störfum lýkur en stefnt er að því að klára fyrir myrkur,“ segir talsmaður Landhelgisgæslunnar í samtali við DV.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni frá því í morgun kom meðal annars fram að unnið yrði að því að koma flakinu til byggða.

Eins og greint hefur verið frá hófst umfangsmikil leit að vélinni í gær og fannst hún í gærkvöldi. Um borð í flugvélinni voru tveir einstaklingar, Arngrímur Jóhannsson flugmaður og Kanadamaður á sextugsaldri. Aðeins Arngrímur komst lífs af en hann var í morgun sagður með alvarlega áverka eftir slysið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.