Lögreglan setti upp vegatálma í Ólafsvík og stöðvaði strætó: Ráku erlenda ferðamenn út en leituðu á öllum Íslendingunum

Skipuleggjandi Extreme Chill Festival er ósáttur við lögregluna og segir hana hafa staðið fyrir fjölmörgum ólöglegum handtökum – „Fóru inn í tjöld hjá fólki á meðan það var á tónleikasvæðinu“

Skipuleggjandi tónleikahátíðarinnar Extreme Chill Festival, Pan Thorarensen, sem var haldin á Hellissandi á Snæfellsnesi um helgina, er mjög ósáttur við framgöngu lögreglunnar á Vesturlandi.

Pan segir að lögreglan hafi leitað í tjöldum gesta án þeirra vitundar.
Leituðu í tjöldum Pan segir að lögreglan hafi leitað í tjöldum gesta án þeirra vitundar.
Mynd: © Birtingur ehf / Sigtryggur Ari

Eins og DV greindi frá komu 29 fíkniefnamál upp hjá lögreglunni og voru flest þeirra tengd hátíðinni.

Pan segir alltaf tvær hliðar á öllum málum.

„Ég er í áfalli yfir þessu“

„Ég hef rætt við fjölda tónleikagesta sem vilja frekar meina að lögreglan hafi gert aðsúg að þeim en ekki öfugt. Þeir fóru til að mynda inn í tjöld hjá fólki á tjaldstæðinu þegar það var statt á tónleikasvæðinu og það er bara ólöglegt út af fyrir sig. Síðan komu stelpur til okkar upp í miðasölu frá tjaldstæðinu en þær grétu og skulfu af hræðslu vegna þess hvernig lögreglan kom fram,“ segir Pan og bætir við að hann sé í áfalli yfir þessu.

„Hvernig lögreglan hagaði sér er fyrir neðan allar hellur. Þetta er hátíð þar sem aldrei neitt hefur komið upp á, aldrei líkamsárás og hvað þá nauðgun. Þetta hefur alltaf farið mjög friðsamlega fram og því leiðinlegt að fá þennan stimpil, eiginlega alveg glatað bara,“ segir Pan og bætir við að forsvarsmenn hátíðarinnar hafi alltaf átt gott samstarf við bæði sveitarfélagið og lögregluna og að ekkert fíkniefnamál hafi komið upp inni á sjálfu tónleikasvæðinu.

Sjá einnig: 29 fíkniefnamál á 200 manna hátíð á Hellissandi: Foreldrar í neyslu á tjaldstæðinu með ung börn

Leituðu á farþegum í strætó

DV ræddi einnig við tónleikagesti sem voru staddir á hátíðinni um helgina. Einn þeirra lýsir því þegar lögreglan hafi sett upp vegatálma í Ólafsvík og stöðvað allar þær bifreiðir sem áttu leið hjá og ökumönnum ýmist leyft að halda ferð sinni áfram óáreitt eða á þeim leitað.

„Þeir stöðvuðu meira að segja strætó sem var fullur af fólki. Erlendir ferðamenn voru beðnir um að yfirgefa strætóinn á meðan lögreglan hélt Íslendingunum eftir. Síðan fóru þeir að leita á öllum Íslendingunum. Þetta var, vægt til orða tekið, skrítin uppákoma,“ sagði einn af tónleikagestunum í viðtali við DV.

Pan segir fjölmarga tónleikagesti hafa tekið ólöglegar handtökur upp á myndskeið í síma og biðlar til þeirra sem eiga slík myndskeið að gefa sig fram.

„Já það væri gott að fá þau upp á yfirborðið.“

Áttu myndskeið frá Extreme Chill Festival? Láttu okkur vita hér!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.