29 fíkniefnamál á 200 manna hátíð á Hellissandi: Foreldrar í neyslu á tjaldstæðinu með ung börn

Lögreglan á Vesturlandi hélt uppi markvissu eftirliti á „Extreme Chill Festival“ sem fór fram um helgina á Hellissandi á Snæfellsnesi – Samkomugestir voru margir ósáttir við afskipti lögreglu og gerðu tvívegis aðsúg að henni

Myndin tengist ekki fréttinni beint.
Í neyslu á tjaldstæðinu Myndin tengist ekki fréttinni beint.
Mynd: © Birtingur ehf / Sigtryggur Ari

Um helgina komu 29 fíkniefnamál upp hjá Lögreglunni á Vesturlandi og voru flest þeirra tengd gestum hátíðarinnar „Extreme Chill Festival“ sem haldin var á Hellissandi á Snæfellsnesi um helgina. Í upplýsingum frá lögreglunni kemur fram að hátíðin hafi verið haldin síðustu ár án mikilla afskipta lögreglu en núna hélt hún uppi markvissu eftirliti og notaði meðal annars tvo fíkniefnahunda.

Til samanburðar má nefna að 72 fíkniefnamál komu upp á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í ár en munurinn á þessum tveimur hátíðum er sá að um 200 manns voru samankomin á „Extreme Chill Festival“ en um fimmtán þúsund á Þjóðhátíð.

Þá komu upp tvö barnaverndarmál í tengslum við hátíðina en lögreglumenn þurftu að hafa afskipti af fólki á tjaldstæði sem var í fíkniefnaneyslu og með ung börn. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var þeim málum komið áfram til barnaverndaraðila á svæðinu.

Theódór Þórðarson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi, segir að margir samkomugestir hafi verið ósáttir við afskipti lögreglu og var tvívegis gerður nokkur aðsúgur að lögreglunni þegar hún var að hafa afskipti af fólki.

Af þessum 29 fíkniefnamálum sem komu upp hjá lögreglunni var mest um neysluskammta að ræða sem lögreglan lagði hald á en einnig fundust efni sem hún telur að hafi verið ætluð til sölu.

„Mestmegnis var um kannabisefni að ræða en einnig fundust harðari efni eins og amfetamín og kókaín. Þá lagði lögreglan einnig hald á ætlaða ofskynjunarsveppi og skammta af ætluðu LSD og nokkrar töflur af ætluðu MDMA.“

Þetta var í fimmta sinn sem hátíðin er haldin.

Ekki hefur náðst í talsmenn hátíðarinnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.