Viðurkennd sem móðir barna sinna í stað staðgöngumóðurinnar

Hjón sem fengu aðstoð staðgöngumóður til að eignast barn eru nú bæði skráðir foreldrar í Þjóðskrá Íslands

viðurkenndi í dag rétt foreldra, sem fengu aðstoð staðgöngumóður til að eignast barn, til að skrá sig sem foreldrar barnanna í Þjóðskrá Íslands.
Héraðsdómur Reykjavíkur viðurkenndi í dag rétt foreldra, sem fengu aðstoð staðgöngumóður til að eignast barn, til að skrá sig sem foreldrar barnanna í Þjóðskrá Íslands.
Mynd: © DV ehf / Stefán Karlsson

Kona sem eignaðist börn með manni sínum með aðstoð staðgöngumóður í Bandaríkjunum er nú skráð móðir barnanna. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í málinu í dag en móður barnanna hafði áður verið synjað um skráningu sem móðir barnanna í Þjóðskrá, á þeim grundvelli að hún fæddi ekki börnin.

Að auki mat Þjóðskrá að börnin væru í raun bandarískir þegnar þar sem þau voru fædd í Bandaríkjunum af bandarískri konu.

Hjónin, sem eru nú bæði skráð foreldrar barnanna, leituðu eftir aðstoð staðgöngumóður frá Bandaríkjunum eftir að hafa lengi reynt að eignast barn, bæði með frjósemisaðgerðum og ættleiðingum, en án árangurs.

Síðla árs 2011 leituðu hjónin til fyrirtækisins Circle Surrogacy í Bandaríkjunum sem sérhæfir sig í staðgöngumæðrun. Fengin voru tvö egg frá ónafngreindum gjafa og þau frjóvguð með sæðisfrumum frá föður barnanna sama dag. Var fósturvísunum komið fyrir í legi staðgöngumóðurinnar 23. ágúst 2013 með þeim árangri að hún fæddi börnin 22. apríl 2014 á sjúkrahúsi í Idaho-ríki Bandaríkjanna. Með yfirlýsingu 25. þess mánaðar afsalaði svo staðgöngumóðirin sér öllum réttindum sínum sem foreldri barnanna.

Héraðsdómur í Idaho staðfesti svo ákvörðun staðgöngumóðurinnar og voru íslensku hjónin því skráð foreldrar barnanna.

Hjónin komu svo til Íslands, ásamt börnunum, í maí 2014. Óskuðu þau eftir skráningu barnanna í Þjóðskrá sem Íslendingar sem höfðu fæðst erlendis og að þau væru réttmætir foreldrar barnanna, líkt og héraðsdómur í Idaho hafði úrskurðað.

Þjóðskrá hafnaði þeirri beiðni á þeim grundvelli að börnin hefðu fæðst í ríki þar sem þjónusta staðgöngumæðra er leyfileg og óskaði eftir frekari gögnum. Í bréfi sem hjónin fengu frá Þjóðskrá voru raktar ástæður þess að þeim var synjað að skrá börnin.

„Fyrir liggur að börnin, D og E, fæddust í Bandaríkjunum af staðgöngumóður. Þar af leiðandi geta ákvæði íslenskra barnalaga um feðrun og móðerni ekki átt við og hefur því ekki stofnast sjálfkrafa réttur til handa börnunum til íslensks ríkisfangs samkvæmt lögum um íslenskan ríkisborgararétt. Telur stofnunin því að hún sé ekki bært stjórnvald til þess að taka ákvörðun um rétt barnanna til dvalar hér á landi og þar með skráningu í þjóðskrá. Af því leiðir að ekki er mögulegt að svo stöddu að skrá ríkisfang barnanna sem íslenskt í þjóðskrá. Það er mat Þjóðskrár Íslands að líta verði svo á að D og E séu að lögum bandarískir þegnar og þar með eigi við ákvæði laga um útlendinga nr. 96/2002 um skráningu þeirra hér á landi. Með hliðsjón af framangreindu er beiðni ykkar um skráningu barnanna D og E í þjóðskrá synjað.“

Hjónin höfðuðu mál gegn Þjóðskrá í kjölfar ógildingar ákvörðunarinnar. Eftir að málið var þingfest breytti Þjóðskrá ákvörðun sinni og viðkenndi föðurinn sem líffræðilegan föður barnanna og var hann skráður forsjárforeldri barnanna en ekki móðirin.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að samkvæmt íslenskum rétti sé það viðurkennt að kona geti verið móðir barns án raunverulegrar meðgöngu og fæðingar barns.

Segir í dómsorði að felld sé úr gildi ákvörðun Þjóðskrár Íslands um að synja konunni um skráningu hennar í þjóðskrá, sem móðir og forsjárforeldri barnanna og er jafnframt viðurkenndur réttur hennar til skráningar í þjóðskrá sem móðir og forsjárforeldri þeirra.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.