Beauty-tips byltingin varð kveikjan að játningu á kynferðisbroti

Ársæll Níelsson óttast ekki afleiðingar játningarinnar: „Ábyrgðin er mín“

Ársæll segir ábyrgðina og skömmina vera sína.
Ársæll Níelsson Ársæll segir ábyrgðina og skömmina vera sína.

„Þetta hefur blundað undir niðri og sækir af og til á mann,“ segir leikarinn og þjónninn Ársæll Níelsson, sem skrifaði stöðuuppfærslu á Facebook í dag þar sem hann játar að hafa beitt konu kynferðislegu ofbeldi.

„Það var í kjölfar umræðunnar á Bjútí-tips sem ég áttaði mig almennilega á því hvað ég hafði gert,“ útskýrir Ársæll. Eins og kunnugt er þá hefur fjöldi kvenna og stúlkna stigið fram í hópnum og greint frá kynferðislegu ofbeldi sem þær hafa mátt sæta í gegnum tíðina. Umræðan hefur vakið mikla athygli og ratað í fréttir.

Ársæll útskýrir brot sitt með eftirfarandi hætti á Facebook:

„Ég er kynferðisafbrotamaður.

Hef hvorki verið kærður né dæmdur. En ég hef brotið gegn stúlku.

Þegar ég var 18 ára var ég gestkomandi í eftirpartyi hjá vini mínum ásamt fleirum. Þegar líður undir morgun sitjum við tveir eftir, húsráðandinn og ég, ásamt stúlku sem annar vinur okkar hafði hitt í miðbænum og boðið með sér í partýið. Við vorum öll orðin þreytt og stúlkan búsett í úthverfi. Við buðum henni því gistingu, ég myndi svo keyra hana heim þegar við vöknuðum.

Húskosturinn var þröngur og sófarnir litlir og óþægilegir. Því varð úr að við lögðumst öll í rúmið sem var stórt og rúmgott. Við vorum öll fullklædd og ekkert benti til annars en að svefn og hvíld væru markmið okkar allra. Fljótlega varð ég þó eitthvað spenntur og fór að strjúka henni. Ég heyrði á andardrættinum að hún var vakandi, hún mótmælti ekki þannig að hún hlaut að vilja þetta. Ég gerðist ákafari og leitaði á hana innaklæða og neðan mittis. Fljótt leiddist mér þó áhugaleysi hennar og gafst upp og fór að sofa.

Ég gerði mér ekki löngu síðar grein fyrir því sem í raun gerðist. Mótþróaleysi stúlkunnar stafaði ekki af áhuga heldur hræðslu. Ég hef séð eftir þessu alla tíð síðan og skammast mín. Það er fátt sem ég skammast mín fyrir og ekkert sem ég skammast mín fyrir eins mikið og þetta. Ég mun skammast mín og sjá eftir þessu svo lengi sem ég lifi.
Mig langaði alltaf að biðja hana afsökunar en þorði ekki að leita hana uppi. Nú man ég ekki hvað hún heitir og ég gæti ekki einu sinni beðist afsökunnar þó ég glaður vildi.

Þessvegna vill ég segja frá þessu. Taka á mig skömmina og biðjast opinberlega afsökunar.“

Aðspurður hvort að hann sé viss um að stúlkan hafi upplifað þetta sem kynferðisbrot eða innrás á hennar mörk, segist hann ekki vera viss, en það var alveg ljóst að það var ekkert í samskiptum þeirra sem gaf neitt til kynna sem réttlætti þuklið.

„Þögnin er náttúrulega ekki það sama og samþykki,“ segir Ársæll. Hann segir konuna ekki vera búna að hafa samband við sig og hann bætir við að hann búist ekki við því heldur.

„Hugsunin var aðallega að létta á hjarta mínu,“ segir Ársæll. Aðspurður hvort hann óttist afleiðingarnar, eða eftirmála þess að játa kynferðisbrot með þessum hætti, svarar Ársæll, „Ég tek því bara, því sökin er mín, skömmin er mín og ábyrgðin er mín.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.