Hestar og menn mótmæltu stóriðju í Reykjanesbæ: Krefjast íbúakosninga

Skoruðu á bæjarstjórnarfulltrúa að efna til íbúakosninga um frekari stóriðju í Helguvík

Mótmælendur afhentu bæjarstjórnarfulltrúum áskorun þess efnis að efna eigi til íbúakosningu um frekari stóriðju í Helguvík.
Fyrir utan bæjarskrifstofurnar Mótmælendur afhentu bæjarstjórnarfulltrúum áskorun þess efnis að efna eigi til íbúakosningu um frekari stóriðju í Helguvík.
Mynd: Gunnar Már

Hátt í þrjú hundruð íbúar tóku þátt í kröfugöngu í Reykjanesbæ í gær en þá gengu hestar og menn frá smábátabryggjunni í Reykjanesbæ og að ráðhúsinu.

Stærsta hesthúsabyggðin á Suðurnesjum er aðeins nokkur hundruð metra frá fyrirhugaðri stóriðju í Helguvík. Stóriðjan og mengun frá henni myndi gera út af við byggðina.
Áhyggjufullir hestaeigendur Stærsta hesthúsabyggðin á Suðurnesjum er aðeins nokkur hundruð metra frá fyrirhugaðri stóriðju í Helguvík. Stóriðjan og mengun frá henni myndi gera út af við byggðina.
Mynd: Gunnar Már

Þar hitti hópurinn fyrir Friðjón Einarsson, formann bæjarráðs, og afhenti honum kröfu göngunnar en hún er sú að fá íbúakosningu um frekari stóriðju í bæjarfélaginu.

Þrjár verksmiðjur á næstu árum

Áætlað er að opna tvær kísilmálmverksmiðjur og eitt álver í Helguvík, um það bil 1,4 kílómeter frá íbúabyggð, á næstu árum. Vilja íbúar að niðurstaðan sé bindandi.

Fjölmargir báru rykgrímur í kröfugöngunni í gær en þær voru táknrænar fyrir þá mengun sem íbúarnir búast við frá stóriðjuverksmiðjum. Fyrsta verksmiðjan sem mun opna, ef allt gengur eftir stóriðjumegin, verður kísilmálmverksmiðja Thorsil.

Fjölmargir tóku þátt í kröfugöngunni í Reykjanesbæ í gær.
Nokkur hundruð Fjölmargir tóku þátt í kröfugöngunni í Reykjanesbæ í gær.
Mynd: Gunnar Már

„Nýr meirihluti gaf kjósendum loforð“

„Það er til mikils að vinna fyrir bæjarstjórn Reykjanesbæjar að halda bindandi íbúakosningu um mikilvægt málefni eins og stóriðjuframkvæmdir í Helguvík. Bæjaryfirvöld ættu að setja sér það markmið að auka aðkomu og virkni borgaranna um ákvörðun mikilvægra framkvæmda sem varðar hagsmuni heildarinnar og með því styrkja félagsauð sveitarfélagsins,“ segir Dagný Alda Steinsdóttir í innsendri grein á vef Víkurfrétta.

Formaður bæjarráðs, Friðjón Einarsson, tók við kröfubréfinu við ráðhúsið í gær.
Frá bryggju að ráðhúsi Formaður bæjarráðs, Friðjón Einarsson, tók við kröfubréfinu við ráðhúsið í gær.
Mynd: Gunnar Már

„Nýr meirihluti gaf kjósendum loforð um nýja sýn í umhverfismálum, opna stjórnsýslu og aukið íbúalýðræði. Málefni eins og stóriðja varðar ekki eingöngu fjármál bæjarins heldur einnig heilsu manna og dýra á svæðinu. Með því að efna til bindandi íbúakosninga eru bæjaryfirvöld ekki bara að efna kosningarloforð sitt heldur munu þeir verða fordæmi í öðrum stórum málum þjóðarinnar.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.