Óskaði eftir upplýsingum um laun æðstu stjórnenda hjá Reykjanesbæ

Grunnskólakennarinn Styrmir Barkarson birti upplýsingar um launin á bloggsíðu sinni - Segist ekki endilega taka afstöðu - „Fólk þekkir bara ekki réttinn sem það hefur“

Grunnskólakennari í Reykjanesbæ.
Styrmir Barkarson Grunnskólakennari í Reykjanesbæ.
Mynd: Samsett mynd

„Eftir allar þær breytingar sem orðið hafa í rekstri Reykjanesbæjar er ekki úr vegi að líta stuttlega yfir þær greiðslur sem topparnir hjá Reykjanesbæ þiggja fyrir sín störf,“ skrifar grunnskólakennarinn Styrmir Barkarson á bloggsíðu sína en þar fer hann yfir laun æðstu stjórnenda Reykjanesbæjar.

Styrmir óskaði eftir upplýsingum um grunnlaun, fasta yfirvinnu og ökutækjastyrki allra sviðsstjóra bæjarfélagsins auk bæjarstjórans og nú í lok apríl fékk svör frá fjármálastjóra Reykjanesbæjar.

Hvað kom til að þú óskaðir eftir þessum upplýsingum?

„Ekkert nema vilji til að opna stjórnsýsluna og peningamálin eins og lofað var fyrir kosningar. Ég legg þetta fram og eftirlæt öðrum að taka afstöðu til talnanna.“


Styrmir segir þetta sjálfsagðar upplýsingar sem ættu að vera aðgengilegar almenningi en viðurkennir líka að þarna sé hann að veita stjórnsýslunni ákveðið aðhald.

Tekur ekki endilega afstöðu

„Fólk þekkir bara ekki réttinn sem það hefur. En ég geri þetta án þess að taka endilega afstöðu. Það er fyrir almenning. En auðvitað er hellings vinna að baki hjá til dæmis bæjarfulltrúum og sér í lagi forsetja bæjarstjórnar og formanni bæjarráðst. Eðlilegt að greitt sé fyrir þá vinnu.“

„Nýji bæjarstjórinn okkar fær greiddar 1.340.000 krónur á mánuði, sem er um 70 þúsund krónum meira en forsætisráðherra landsins. Ofan á það bætast auðvitað aksturspeningar skv. akstursdagbók og greiðslur fyrir fundarsetu hjá eftirlaunasjóði RNB, en það eru litlar 73.000 krónur fyrir hvern fund,“ skrifar Styrmir á bloggið sitt.

Sviðsstjórar með 900 þúsund á mánuði

„Nýju sviðsstjórarnir okkar fá 900 þúsund krónur á mánuði að viðbættum akstri skv. akstursdagbók en hafnarstjóri er öllu lægri, með um 750 þúsund krónur á mánuði að viðbættum akstri.“

„Forseti bæjarstjórnar fær 119.705 krónur á mánuði að viðbættum 63.002 krónum fyrir hvern bæjarstjórnarfund sem eru um 245 þúsund krónur miðað við 2 fundi á mánuði.“

„Formaður bæjarráðs fær 179.557 krónur á mánuði að viðbættum 25.200 krónum fyrir hvern fund sem eru um 280 þúsund krónur á mánuði miðað við 4 fundi á mánuði.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.